1.10.07

hvað er hanakamburinn gamall?

Í gær var fjölskylduboð og klíndi ég því froðu í úrsérvaxið hár mitt.
Í morgun rauk ég út með mín fimm börn í skólann, það er í raun verkefni sem dugir mér fyrir daginn, en ég fór samt beint yfir til nágrannanna að hlusta á fyrirlestra og taka glósur.
Þegar ég kem hingað yfir til að fá mér að borða verður mér litið í spegil og sé að ég er með einhvers konar undarlega lagaðan hanakamb á höfðinu. Nú verð ég að spyrja mig: Var hann kominn þegar ég fór með börnin og afmæliskökurnar í skólann þar sem ég ræddi kumpánalega við kennara og aðstoðarfólk um daginn og veginn ásamt því að heilsa foreldrum gleðilega eins og ég geri mér ávallt far um?
Kom hann kannski eftir það en áður en ég hitti húsvörðinn og spjallaði við hann um íslenskunám í tölvum?
Var hann kannski bara nýkominn núna þegar ég hitti gömlu ekkjuna á jarðhæð og spjallaði við hana um reikninga og hvað við værum ríkar ef pósturinn væri ekki borinn út?

Ég veit það ekki og líklega er það best.

Ég ætla að fá mér súkkulaði til að hlusta á næstu tvo fyrirlestra. Ég á það fyllilega skilið. Ég er dökkt súkkulaði, en þú?

Lifið í friði.