31.5.07

Það er sífellt minnst á París í Víðsjá í fyrradag og svo aftur í gær.
Merkilegt.

Ég er svo þreytt en næ ekki að sofa. Ég get ekki lengur hvílt mig á daginn.
En kemst ekki út heldur því ég sit og bíð eftir að karlmaður hringi í mig. Ekki af því ég þarf hans hjálp, heldur einmitt þarf hann mína hjálp og ég lofaði að vera til taks. Hefði átt að gefa farsímann minn, næstum viss um að hann hringir ekki í dag. Karlar eru óáreiðanlegir í svona hringja seinna í dag - málum. Kannski konur líka. Veit það ekki og er eiginlega kannski bara sama.

Og svo get ég ekki unnið heldur af því ég er þreytt. Tölvupóstar bíða svara, veggur bíður pússningar, gluggar krefjast þrifa en ég ligg yfir gömlum útvarpsþáttum. Gömlum. Ja, sólarhringsgömlum næstum því.
Eiríkur beygði nafn Sartre. "Hvernig finnst þér boðskapur Sartr(e)s núna?"

Góð vinkona mín er sorgmædd. Ég henti sígarettum til hennar út um gluggann. Hún vildi bara þær, ekki mig. Ég hefði svikið símasvikarann fyrir hana en maður getur aldrei pínt fólk til að gráta á öxl manns, bara sagt að öxlin sé þarna.

Lifið í friði.

alsæla

Tónleikarnir í gær voru vitanlega frábærir. Við komum allt of seint, fyrst var rútan föst í umferð svo vorum við fastar í umferð með rútunni og svo lenti rútan í árekstri. En sem betur fer er þetta svo meðvitaður hópur um eigin hrakföll að þær voru tilbúnar og uppáklæddar og gátu byrjað með eingöngu tíu mínútna seinkun. Slatti af Íslendingum og Íslandsvinum voru mætt til að hlusta. Tengdapabbi lét sig ekki vanta frekar en fyrri daginn. Fullt af túristum sátu og hlustuðu allan tímann, sumir komu og hlustuðu á eitt til tvö lög, allir virtust hrifnir.
Ég þurfti að berjast við tárin allan tímann, bæði fallegur söngur og falleg ljóð og svo bara sú staðreynd að hafa komið kór inn í þessa kirkju. Nú vil ég fá Stöku aftur, þau eiga líka að komast þangað inn.
Restin af deginum var líka fín, boð í bústað sendiherra, stutt rútuferð um borgina og svo frjáls tími í Mýrinni fram að brottför.

Næturlestin vakti mikla kátínu (lesist hrylling). Minnti á aðkomu í sumarbúðir fyrir börn, kojurnar passa eflaust ágætlega fyrir litlar ítalskar og franskar konur, íslenskar velbyggðar konur þurfa aðeins meira pláss og mýkra undir sig. Ég vona að þær séu komnar heilar til Ítalíu og hafi náð að sofa eitthvað í þessum sardínudósum.
Ég var kvödd með fallegum gjöfum, 2 geisladiskar (sé nafn Hildigunnar bloggvinkonu út um allt á öðrum þeirra) og fagurblá spiladós með vísum Vatnsenda-Rósu.

Ég endurtek það sem ég hef svo oft sagt: Kórsöngur hlýtur að vera ein besta Íslandskynning sem völ er á. Söngurinn fyrir utan kirkjuna dró fjölda fólks að sem spurði hvaðan við værum. Leitt að íslensku flugfélögin skyldu ekki sjá sér leik á borði að vera með bæklingadreifingu á staðnum.

Svo er ekki verra að sitja hér í dag, þreytt og sæl, og skoða sjálfa mig í Fréttablaðinu á netinu. Ég er sem sagt í miðvikudagsblaði Fréttablaðsins. Flott mynd, flott grein. Ég er sátt og sæl. Takk... mammon? Ég sjálf? Emilía? Allt þetta samanlagt kannski?

Lifið í friði.

29.5.07

jiminn eini

segi á innsoginu frá því að það eru tónleikar sem heita reyndar ekki tónleikar heldur áheyrn, í Notre Dame á morgun.


Þetta átti að sjást á parisardaman.com fyrir mörgum dögum en eitthvað er netstjórinn í verkfalli. Kannski hann vilji bara hætta að vera bróðir minn?

Kvennakór Reykjavíkur í Notre Dame kl. 11-11.30 á morgun. Ókeypis inn.

Set þá líka hina auglýsinguna sem átti að vera komin inn líka:

Föstudaginn 1. júní, mun Guðný Einarsdóttir organisti, halda tónleika
í kirkju danska safnaðarins, Frederikskirken, 17, rue Lord Byron,
75008 Paris.

Tónleikarnir hefjast kl. 20 og er aðgangur ókeypis.

Á efnisskrá tónleikanna verða m.a. verk eftir Jehan Alain, Jean
Langlais, J.S. Bach og Matthias Weckmann.

Allir eru hjartanlega velkomnir!


Lifið í friði.

ljóð

Ég er alltaf voðalega "svag" fyrir ljóðum, ljóðskáldum, ljóðrýnum... en hef samt aldrei getað almennilega þóst skilja ljóð.
Ég skil alveg sum íslensk ljóð, næ Tómasi, Megasi og Steini Steinarri, hjálpi mér hamingjan, jú, ég fæ kitl og sting þegar ég les sum ljóð en ég hef t.d. aldrei náð almennilega að skilja frönsk ljóð.
Jú, ég lýg, ég geri lítið úr sjálfri mér, ég hef fengið fiðringinn, kitlið, stinginn við lestur franskra ljóða, stundum. En oftast sit ég bara stúmm, les og les aftur og aftur eitthvað sem vinir hafa ráðlagt mér, gefið mér, með fallegum áritunum um að þetta hljóti að höfða til mín, ég les í þriðja sinn og finn enn ekki neitt. Ljóðið er bara röð af orðum, skil hvert og eitt orðanna en ekkert samhengi.
Ég ber einhvers konar fáránlega virðingu fyrir fólki sem berst fyrir ljóðinu.

Um daginn las ég upphátt þýðingu vinar míns, Sigurðar Ingólfssonar, á ljóði eftir Yves Bonnefoy. Ljóðið er málað á vegg sem verður á vegi mínum í Latínuhverfistúrnum. Viðtakendur voru fertugar konur úr ýmsum starfsgreinum, áreiðanlega ekki sérlegir ljóðaneytendur, ekki frekar en ég og þú, en þetta heppnaðist mjög vel. Það glaðnaði yfir hópnum við hverja nýja línu, þetta var gaman. Ég mun héðan í frá lesa ljóðið í hvert skipti.
Og næst ætla ég að reyna að veiða franskan vegfaranda til að fara með ljóðið á frummálinu fyrir okkur. Hver veit nema í sumarlok verði ég farin að skilja franskt ljóð? Eitt ljóð er betra en ekki neitt.

Lifið í friði.

p.s. svag er skemmtilegt orð.
p.p.s. stúmm er líka skemmtilegt orð.

28.5.07

Bent á mig

Gaman að finna þessa grein. Ekki eins gaman að ástæðan fyrir því að ég er að flakka á netinu er sú að börnin neita að fá sér blund og úti rignir og rignir.

Lifið í friði.

nasl

Í Frakklandi er þessi hvítasunnuhelgi ekki lengur þriggja daga helgi, mánudagurinn er vinnudagur og allur arður af honum á að renna til aldraðra og annarra sem minna mega sín. Ákvörðun sem tekin var að þýskri fyrirmynd eftir hitabylgjusumarið mikla 2003.
Enn er þó allur gangur á því hvort þetta er vinnudagur eða frídagur. Skóli barnanna minna er lokaður í dag svo hjá okkur er sunnudagsstemning, allir á náttfötunum enn klukkan hálfellefu. Við vitum ekki hvað er opið og hvað er lokað, er hægt að komast á pósthúsið, er hægt að fara að kaupa mjólk? Þetta er sem sagt alger rugldagur og allt fráfarandi ríkisstjórn að kenna.

Um daginn fór ég að hitta nokkrar konur sem ég tók í ferð um Latínuhverfið. Eina þeirra þekkti ég vel en áttaði mig ekki strax á því hver hún var. Við spiluðum saman fjórhent á tónleikum einhvern tímann í fyrndinni. Já, ég er kona með fortíð.

Í gær sagði dóttir mín allt í einu upp úr þurru: Le corps, c'est partout. Þetta mætti útleggjast á íslensku sem: Líkaminn, hann er alls staðar. Þetta þótti foreldrunum ljóðræn og skemmtileg pæling.
Hún er farin að spá mikið í ýmsa hluti, komin með Ara-syndrómið. T.d. er henni umhugað um þá staðreynd að kjöt er af dýrum. Af hverju þurfum við að borða dýr? Ég er því búin að taka góða kennslustund í grænmetisætulífsstíl, hún veit að fullt af fólki ákveður að vilja ekki borða dýr og hvers vegna. Hún veit líka að foreldrar hennar eru ekki hluti af þeim hópi, en að henni er velkomið að taka þessa ákvörðun sjálf, núna eða síðar.

Lifið í friði.

27.5.07

erlendur

maður liggur meðvitundarlaus á spítala eftir líkamsárás. Ekki er vitað hver maðurinn er. Samt er hann erlendur. Mig ekki skilja?

Lifið í friði.

Leit að glötuðum tíma

Á virkilega ekki að láta Pétur Gunnarsson halda áfram/ljúka þýðingunni á Proust?

Nú geri ég fastlega ráð fyrir að þetta sé peningaspursmál, að Pétur fái ekki almennilega greitt fyrir og neyðist því til að vinna önnur verkefni í staðinn fyrir þýðinguna á þessu stórvirki.
Ég hef ekkert fyrir mér í þessu.

Lifið í friði.

24.5.07

bla bla bla

Ég talaði í tvo klukkutíma í síma áðan við vinkonu mína. Ég hefði svo sem getað haldið áfram í allan dag og alla nótt en hendin á mér var í maski, ég hafði ekki einu sinni hirt um að skipta um hendi og eyra við og við. Sat bara eins og klessa með tólið límt við sama eyrað í 120 mínútur án þess að hreyfa fingurna. Geri aðrir betur.
Kannski má líka taka fram að netsíminn minn slítur samtali eftir 120 mínútna samtal og hefur nokkrum sinnum gert það við mig, annars vissi ég það ekki, döh.
Svo má náttúrulega líka upplýsa ykkur um að við leystum ekki lífsgátuna. Ég endurtek: Við leystum ekki lífsgátuna. En við höfum vaxið og þroskast, um það getum við báðar verið sammála.

Lifið í friði.

thíhí

Hann gerir villu í pistlinum beint á eftir afhjúpun fordóma sinna.
Ekki ypsílon villa, sem hefði náttúrulega verið mun fyndnara. En fyndið samt.

Lifið í friði.

væm

Ég er væmin þessa dagana.
Það stoppar mig í ýmsu, m.a. því að tjá mig hér. Nóg að lesa síðustu færslur til að sjá að hér er á ferðinni leiðindahúsfrú sem fer betur að þegja en að gala einhverjar augljósar staðreyndir um eiturlyfja- og kókviðbjóð út í loftið. Hvað er spennandi við að þykja þessi efni óhroði eins og (næstum) öllum hinum?

Því þegi ég.

Eða þannig.
Ég syng nefninlega ljúf og viðbjóðsleg ástarlög, t.d. eitthvað sem Whitney Huston hefur spreytt sig á, þegar ég stend undir bununni í sturtu:

Beeeecauuuse thee greeeeateeest love of aaall is haaappening tou meeeaah, Iæj fooound the greeeeateeest luv of all inside oouf meeah.

Aha, ég Manilovaði ykkur öll.

Lifið í friði.

22.5.07

Hvað kostar grammið væna?

Fréttir af eiturlyfjamálum innihalda alltaf upplýsingar um söluvirði efnanna. Ég hef aldrei skilið til hvers.
Háar tölur eru óskiljanlegar hvort eð er. Jú, kannski væri hægt að útskýra þær fyrir okkur, ég umbreyti t.d. upphæðum í fjölda rauðvínsflaska eða kampavínsflaska þegar tölurnar eru mjög háar. Þannig gæti Broddi Broddason sagt okkur að einhver kíló af kókaíni hafi fundist, og að söluverðið jafngildi svona mörgum kampavínsflöskum. Einhvern veginn held ég að við sem heima sitjum yrðum meðvitaðri um verðgildið.
En aðalmálið er að ekki er hægt að mæla alvarleika eiturlyfjainnflutnings í einhverjum bévuðum krónutölum, það er misskilningur, brotið felst ekki í hvað mikið átti að græða, brotið felst í eyðileggingu og viðbjóði sem aldrei verður mældur í tölum. Er það ekki annars?

Lifið í friði.

18.5.07

hollusta

Með hádegismatnum í dag drakk ég slurk af Coca Light. Ég fæ alltaf nett samviskubit þegar ég set kók inn fyrir mínar varir.
Ekki vegna þess að ef þú setur barnatönn í kókglas er hún horfin morguninn eftir eins og ágætis dreifibréf á tölvutæku formi útskýra stundum fyrir mér, heldur vegna þess að kók er í mínum huga hluti af óhugnalegu kapítalísku mannskemmandi kerfi sem vinnur m.a. misopinskátt að því að útrýma bragði úr mat vegna þess að bragð flækir framleiðsluferlið og kostar þannig peninga. Stórfyrirtæki breytast í illúðlegar tilfinningalausar skepnur sem hafa skjótan gróða að sjónarmiði eingöngu.
Kannski er þetta misskilningur í mér, kannski er eina góða ástæðan fyrir því að sleppa kóki sú að það er sýra í því sem eyðir barnatönnum og líklega fullorðinsjöxlum líka, er þetta ekki sama efnið?
En þyrfti ég þá ekki að láta dæla upp úr mér öllu galli og öðrum viðbjóðsvessum sem maginn minn framleiðir til að brjóta niður annan óþverra eða delíkatess sem ég læt ofan í mig?

Mér leiðist alvarlega tilhugsunin um að lifa hollu líferni. Ég reyni eins og ég get að borða lífvænt því mér finnst það betra, styrkja smærri framleiðendur og er alveg til í að borga aðeins meira fyrir betri gæði svona þegar buddan leyfir það. Hins vegar er ég bara alveg á því að drekka annað slagið vín í óhófi, reykja dálítið á köflum, borða alls konar kex og kökur sem eru áreiðanlega full af aukaefnum og hvítum sykri og treð stundum í mig svo miklu kjöti og dýrafitu að það hálfa væri líklega nóg.

Í gær gekk ég um 16 kílómetra um hallir og garða Versala. Held ég hafi aldrei fengið jafngönguhressan hóp en var nú samt smá skömmuð fyrir að hafa komið með of fáar rauðvínsflöskur. Hey, leigubíllinn er víst komin. Þá er ég farin.

Lifið í friði.

16.5.07

mér finnst

Mér finnst í raun og veru ekkert ógeðfellt að hægt sé að auglýsa GEGN einhverjum frambjóðanda, meðan frambjóðendur geta sjálfir keypt svo og svo mikið af auglýsingum, látið prenta svo og svo marga pésa og dreifa í hús og sýnt er að greinilegt samband er milli auglýsingakaupmáttar frambjóðanda og útkomu í kosningum.
Nú hef ég ekki séð neinar almennilegar kannanir á því á Íslandi hvort það sé samband milli fjárstyrks og kosningagengis, en oft er bent á slíkar staðreyndir hér í útlandinu mínu franska.

Rétt finnst mér þó að taka fram í lokin að mér finnst öll þessi auglýsingamennska í kringum stjórnmál ógeðfelld, sem og þegar þau verða of persónuleg. Fyrir mér eiga stjórnmál fyrst og fremst að snúast um stefnuskrár og flokka, ekki einstaklinga.

Á ekki alltaf að segja það sem manni finnst? Það segir mamma.

Lifið í friði.

15.5.07

sek i maganum

Ég er sómakona, má varla vamm mitt vita, geri varla flugu mein og sef svefni hinna réttlátu á næturnar.
Samt herptist maginn í mér saman þegar maðurinn sagðist hringja frá lögreglustöðinni í 15. hverfi eftir að hafa beðið um Madame Genevois í símann, en það er ég svona þegar mér hentar í útlandinu.
Mér leið strax eins og nú væri búið að ná mér. Nú væri komið að skuldadögum og hvað hafði ég eiginlega að segja mér til varnar?
Mér létti stórum þegar ég skildi á manninum, í gegnum suðið í eyrum mér af skelfingu, að hann var bara að gefa grænt ljós á útitónleika síðar í mánuðinum. Fjúkk. Sloppin í bili.

Lifið í friði.

Rauðkusýning

Allir velkomnir á sýningu NÍNU GAUTADÓTTUR

“ÓÐUR TIL RAUÐHÆRÐRA KVENNA Í MYNDLIST”

Sýning Nínu samanstendur af safni u.þ.b 2300 mynda sem hún hefur haldið til haga frá árinu 1988 og eru sýnd með myndvarpa. Verkin eiga það sameiginlegt að sýna rauðhærðar konur í myndlist. Þá hefur Nína valið nokkrar myndir, látið prenta á mismunandi grunna og bróderað með örfínum koparvír í hár þeirra.

Á 16. og 17. öld voru um 20.000 konur í Evrópu brenndar fyrir galdra. Rauðhærðar konur voru oft dæmdar fyrir að hafa verið í tygjum við Satan. Logar vítis áttu að hafa litað hár þeirra. En myndir Nínu eru þó ekki af galdrakonum, heldur af rauðhærðum konum eins og listamennirnir túlkuðu þær hver á sínum tíma, allt frá forn-Egyptum og fram á okkar dag.

Ásvallagata 59, 101 Reykjavík
Opið þri-su kl. 14-18 12. maí -27. maí 2007
s.551 06 55 – 869 22 25

14.5.07

konan og baðherbergið

Píparinn kominn og farinn með þrjátíþúsundkallinn okkar.
Smáborgarinn ég stend og dáist að fallega vaskinum með mubblu undir, alger lúxus.
Og smáborgarann dauðhlakkar til að kaupa fleiri flottar mubblur, allt verður í stíl, skápar, skúffur með hólfum, spegill og hilla. Afrakstur göngutúrs í dag fer beint í söfnunarsjóð nýs baðherbergis heimilisins.

Frúin hlær í betri vaski. Frá Ikea.

Lifið í friði.

13.5.07

Í gær

Í gær var ég minnt á það að þó fólk sé fársjúkt getur það samt verið svo miklu miklu heilbrigðara en "við hin".
Í gær vann ég frá 10.30 til 1.30 og þó ég væri stíf af þreytu á heimleið var ég einhvern veginn svo glöð, það er svo dýrmætt að hitta góðar manneskjur.

Í gær kaus þjóðin. Ég á ekki orð. Jú. Kannski nokkur:
Ég er ferlega svekkt út í forystu flokkanna tveggja sem ég hikaði á milli, ferlega svekkt út í að þau skuli ekki geta sameinast í eina sterka heild.

Í gær vann einhver söngvakeppni, held ég alveg örugglega. Ég get montað mig af því að ég hef ekki heyrt eitt einasta lag úr keppninni. Mér finnst það kúl. Smart. Hipp. Ég er ekki plebbi fyrir fimm aura.

Vikan framundan er þéttskipuð spennandi dagskrá. Gallinn við að vinna er að ég hef þá aldrei tíma til að gera ekki neitt, en líkami minn og sál eru orðin vön því að fá slíka hvíldardaga, mér finnst þessi törn núna vera farin að lengjast heldur mikið. Eiginlega sé ég Ísland í júlí í hillingum nú þegar.

Orðið hilling, sem er fallegt orð, minnir mig á orðið sem ég lærði í gær: sögnin að hnylla (eða hnilla?). Ég hnyllti ekki neinn bíl allan daginn og samferðafólkið var hálfsvekkt út af því. Þið megið geta hvað orðið þýðir eða deila því með mér hvort þið þekktuð það nú þegar.

Lifið í friði.

10.5.07

ákvörðun

Ákvörðun hefur verið tekin í æðsta ráði um að hætta öllum barlómi. Mér líður vel. Börnunum mínum líður vel sem og manninum mínum.

Ég þarf að borga pípulagningamanni 300 evrur á mánudaginn og ég er svo ótrúlega heppin eða klár eða hvað veit ég, að ég á þær til.

Ég get gert allt sem ég vil og er umkringd fólki sem ég elska og sem elskar mig til baka. Ég er þakklát fyrir það og ég er þakklát fyrir að það var ekki bíllinn minn sem lá sundurkraminn á hraðbrautinni í dag. Þetta líf hangir á of miklum bláþræði til að vera gera úlfalda úr einhverjum helvítis Sarkósíum og Bushum og öðrum mýflugum.

Og nú er ég skriðin upp í rúm, hörku dagur framundan á morgun.

Lifið í friði.

9.5.07

byltingin

Jú, það eru víst brotnar rúður á Bastillunni á hverju kvöldi. Þar er byltingin kannski að hefjast á ný, alveg eins og fyrir rúmum 200 árum. Hver veit?
Sarkozy er á lúxusskútu við Möltu að hvíla sig eftir átökin, kosningabarátta tekur ekki bara í budduna, leggst líka á sálina. Eins gott að maðurinn hvíli sig því síðan þarf hann að geta sýnt óánægðum í tvo heimana. Hann er jú sílofandi tolerance zero.

Hann hefur annars meiri lífvörslu í kringum sig en Bush þegar hann fer til Íraks. Merkilegt? Það finnst mér.
París hefur náttúrulega alltaf verið talin hættuleg borg, hættuleg yfirvaldinu. Parísarbúar segja hvað þeim finnst og gera það sem þeim sýnist. Þess vegna er t.d. mjög stutt síðan hér var farið að kjósa borgarstjóra, yfirvaldið taldi öruggara að sú staða væri sett af því sjálfu. Chiraq var þannig fyrst lýðræðislega kjörni borgarstjórinn í París. Náði þá kjöri með atkvæðum látinna og brottfluttra og nú sitjum við hér og látum sem við söknum hans.

Lifið í friði.

að drepa mann

Ég spyr mig hvort hægt sé að bana fólki með leiðindum.
Ég spyr mig hvort ég þurfi að slá þetta inn í tölvuna og senda út á netið.
Ég spyr mig hvernig ég á að fara að því að breyta skapi mínu, gráu, dimmu.
Ég hlýt að geta kálað fólki með þessum leiðindum.

Undanfarið hef ég lært að kynskipti(ngur), kynskiptaaðgerð, sígauni, eskimói og svertingi séu niðrandi orð.
Ég get skilið þetta með kynskiptin, þannig lagað séð. Get alveg leiðrétt mig og notað orðalagið "að fá leiðréttingu á kyni".
En mér finnst sígauni fínt orð og sígaunar spennandi fólk, eskimóar líka.
Svertingjar er ég ekki alveg viss um, hvað er betra að nota í staðinn ef það verður að koma fram að manneskjan var með svart hörund?

Mér leiðist það hvað allt þarf að vera flókið. En líklega þarf það samt að vera það. Á meðan fíflin eru til. Hvernig ætli sé hægt að bana bara fíflum með leiðindum?

Ég þarf að finna lokasetninguna úr Barry Lyndon aftur. Kannski var hún líka í bókinni?

Lifið í friði.

8.5.07

baráttuhugur

Á hús í Pantin hefur verið hengdur stór plastdúkur: Sarko facho!

Það mun kannski allt springa og kannski var það betra en einhver semívinstristjórn með deyfingu.

Lifið í friði.

Himnarnir gráta

Og gráta.
Vindarnir blása.
Deyfð yfir öllu.
Mikið voru tímarnir betri í gamla daga þegar Sarkozy var ekki forseti.

Lifið í friði.

7.5.07

fyrirsögnin er tengill

Já, fyrirsögnin er tengill.

L Í F

6.5.07

nornahæfileikar

Nornahæfileikar mínir buðu kannski ákveðinn hnekk í kvöld en það hjálpar mér að í París var Segolène yfir. Verst að það er enn sú villimennska í gangi að restin af landinu hefur áhrif.

Lifið í friði.

jæja

Já. Ég tapaði. Frakkland tapaði. Eða ekki. Eða jú.
W. er ánægður.
Ég drakk kampavínið.

Lifið í friði.

dagurinn

Dagurinn er runninn upp bjartur og fagur. Ég tel að það sé henni í vil án þess að ég hafi nokkuð annað fyrir mér í því en að hann rekur baráttuna á hræðsluáróðri og elur á svartsýni í fólki. Sól og blíða eiga það til að gera svartsýni mína að óljósri minningu og ég held að ég sé ekki einstök.

Dagurinn er runninn upp, bjartur og fagur. Skyldi fólk vera farið að flykkjast á kjörstað eins og fyrir tveimur vikum? Ég vil ekki kveikja á sjónvarpinu, vil ekki kíkja á vefsíður sem gætu upplýst mig, vil ekki vita, betra að ímynda sér eitthvað gott.

Kannski skiptir þessi dagur engu máli. Kannski er allt á leið til fjandans eða kannski er bara allt í fínasta lagi og kannski fá úrslit kosningar milli tveggja forríkra einstaklinga um hver fái að ráða, engu breytt.

Börnin eru að vatnslita frammi í eldhúsi, Kári notar svart í dreka og snáka, Sólrún notar bleikt og fjólublátt í prinsessur og prinsa. Þau eru framtíðin.

Ég er bara ég, einstök og margföld. Ég kýs ekki í dag en mun lifa við úrslitin næstu fimm árin.

Lifið í friði.

4.5.07

endurtekið efni

Ég var að skoða teljarann minn því ég á að vera að vinna. Sá þá að ég hafði komið upp í google images með leitarorðunum íslenskar píkur. Ákvað að deila með ykkur myndinni aftur, enda er hún svo falleg. Pistillinn er líka hreint ágætur þó ég segi sjálf frá.
smellið hér til að sjá fegurðina

Lifið í friði.

3.5.07

mæli með Lífsbók

Var að enda við að hlusta á fyrri partinn, er búin að hlusta í bútum síðan í morgun. Yndislegur þáttur. Yndisleg kona hefur hún verið hún Bergþóra. Falleg tónlistin líka. Fullkomið útvarpsefni.
Þættir sem voru á dagskrá 1. maí og finnast því enn á vefútvarpinu sem er líklega eitt af því besta við háhraðanetið þó ég nýti mér það alls ekki nógu oft.

Lifið í friði.

i dag

Í dag, eftir dásamlega vel heppnaðan kaffibolla, fékk ég ofurbrúnan dreng í heimsókn að skoða íbúðina mína og meta með kaup á svölum og aukaherbergi í huga, hjólaði svo í klippingu og litun og hjólaði aftur heim næstum svarthærð með hár á bakinu (afklippt hár) og stefnumót í vasanaum í kampavín hjá hárgreiðslukonunni minni á mánudag EF Segolène vinnur, tók svo við öðrum ungum manni með eðlilegan litarhátt og talaði í míkrófón við hann, aðallega illa um Íslendinga en stundum líka um Frakka og nú er ég að verða of sein að sækja börnin.
Eitthvað hef ég flakkað á netinu í dag og ornað mér við létta pistla frá bloggvinum. Blogg er skemmtilegt.
Dagar sem byrja á góðu kaffi eru betri en aðrir dagar.

Lifið í friði.

2.5.07

og vitanlega

skella á manni auglýsingar um leið og frambjóðendur kveðja. Haldið þið ekki að eftirlætis vorauglýsingin mín hafi komið fyrst: ROUNDUP er mosaeyðir eða eitthvað svoleiðis sem fína fólkið sem á garða þarf að kaupa á vorin. Þulurinn segir nafn vörunnar oft og mörgum sinnum í auglýsingunni eins og vera ber. Framburðurinn er rúndöpp, fyrri helmingurinn með frönskum framburði, seinni helmingur með enskum.

Lifið í friði.

Efnisorð:

met

Ég held ég hljóti að hafa verið að slá persónulegt met. Hef setið og horft á kappræður Segó og Sarkó sem hafa nú staðið í rúma tvo tíma. Dálítið mikið af pólitík fyrir mig í einu en gaman samt að fylgjast með þeim. Var ég búin að segja ykkur að Segó vinnur? Hún vinnur.
Besta mómentið var þegar hún hankaði hann á skólavist fatlaðra barna, þar er hún á heimavelli sem fyrrverandi fjölskyldumálaráðherra og hann sekur um að hafa sagt upp öllu aðstoðarfólkinu sem hún réð inn í skólana. Djöfull náði hún honum þá, æsti sig létt og hann reyndi að gera lítið úr henni, að forsetastarfið væri erfitt og alls ekki fyrir fólk sem reiddist auðveldlega og hún svaraði því til að hún hefði ekki týnt byltingaranda sínum, að reiði hennar væri heilbrigð. Flott.
Og í hvert skipti sem talað var um börn, barnagæslu og skólamál talaði Sarkó alltaf um að létta KONUM lífið. Að færa heimanám í skólann er fyrir KONUR sem vinna úti. Afdankaður afturhaldsseggur. Ekki að furða að konan hans sé aftur farin frá honum.

Ég hef í alvöru talað alla trú á því að hún Ségolène geti unnið þetta. En það verður mjótt á munum og nauðsynlegt er að fólk rífi sig upp úr sófa sínum og mæti á kjörstað. Ég er hræddust um að allt of margir sleppi því, fólk sem myndi frekar velja hana en hann.

En ferlega er nú samt svona pólitísk samræða leiðinleg til lengdar. Verst að ég kann ekki að ná ljóðrænunni úr frösunum þeirra, jú, ég náði einum góðum:

L'emploi va à l'emploi.

Ég er viss um að aðrir og ljóðrænni en ég hefðu haft úr nógu að moða. Ertu búin að kaupa þér Handsprengju í morgunsárið manneskja? Nýhil gefur út. Ég er ekki ein af manneskjunum út um allan heim sem er búin að panta án þess að hafa nokkurn tímann sýnt ljóðlist áhuga, sem EÖN minnist á. Ég ætla ekki að kaupa bókina enda kaupi ég aldrei bækur nema örsjaldan. En ég treysti á að ég geti gluggað í þessa í júlí á Íslandi.

Lifið í friði.

1.5.07

Frídagur verkalýðsins

Ég óska öllu vinnandi fólki innilega til hamingju með daginn. Megi auður jarðarinnar deilast jafnt á íbúana. Megi ánauð barna, kvenna og karla hverfa og verða eingöngu ljót minnig fortíðar. Megi réttindi allra verða tryggð, burtséð frá kyni, aldri, kynhneigð, líkamsbyggingu, húðlitar og heilsu.

Virðing og kærleikur eru það sem geta bjargað okkur frá glötun.

Verum raunsæ, krefjumst hins ómögulega.

Lifið í friði.