alsæla
Tónleikarnir í gær voru vitanlega frábærir. Við komum allt of seint, fyrst var rútan föst í umferð svo vorum við fastar í umferð með rútunni og svo lenti rútan í árekstri. En sem betur fer er þetta svo meðvitaður hópur um eigin hrakföll að þær voru tilbúnar og uppáklæddar og gátu byrjað með eingöngu tíu mínútna seinkun. Slatti af Íslendingum og Íslandsvinum voru mætt til að hlusta. Tengdapabbi lét sig ekki vanta frekar en fyrri daginn. Fullt af túristum sátu og hlustuðu allan tímann, sumir komu og hlustuðu á eitt til tvö lög, allir virtust hrifnir.Ég þurfti að berjast við tárin allan tímann, bæði fallegur söngur og falleg ljóð og svo bara sú staðreynd að hafa komið kór inn í þessa kirkju. Nú vil ég fá Stöku aftur, þau eiga líka að komast þangað inn.
Restin af deginum var líka fín, boð í bústað sendiherra, stutt rútuferð um borgina og svo frjáls tími í Mýrinni fram að brottför.
Næturlestin vakti mikla kátínu (lesist hrylling). Minnti á aðkomu í sumarbúðir fyrir börn, kojurnar passa eflaust ágætlega fyrir litlar ítalskar og franskar konur, íslenskar velbyggðar konur þurfa aðeins meira pláss og mýkra undir sig. Ég vona að þær séu komnar heilar til Ítalíu og hafi náð að sofa eitthvað í þessum sardínudósum.
Ég var kvödd með fallegum gjöfum, 2 geisladiskar (sé nafn Hildigunnar bloggvinkonu út um allt á öðrum þeirra) og fagurblá spiladós með vísum Vatnsenda-Rósu.
Ég endurtek það sem ég hef svo oft sagt: Kórsöngur hlýtur að vera ein besta Íslandskynning sem völ er á. Söngurinn fyrir utan kirkjuna dró fjölda fólks að sem spurði hvaðan við værum. Leitt að íslensku flugfélögin skyldu ekki sjá sér leik á borði að vera með bæklingadreifingu á staðnum.
Svo er ekki verra að sitja hér í dag, þreytt og sæl, og skoða sjálfa mig í Fréttablaðinu á netinu. Ég er sem sagt í miðvikudagsblaði Fréttablaðsins. Flott mynd, flott grein. Ég er sátt og sæl. Takk... mammon? Ég sjálf? Emilía? Allt þetta samanlagt kannski?
Lifið í friði.
<< Home