28.5.07

nasl

Í Frakklandi er þessi hvítasunnuhelgi ekki lengur þriggja daga helgi, mánudagurinn er vinnudagur og allur arður af honum á að renna til aldraðra og annarra sem minna mega sín. Ákvörðun sem tekin var að þýskri fyrirmynd eftir hitabylgjusumarið mikla 2003.
Enn er þó allur gangur á því hvort þetta er vinnudagur eða frídagur. Skóli barnanna minna er lokaður í dag svo hjá okkur er sunnudagsstemning, allir á náttfötunum enn klukkan hálfellefu. Við vitum ekki hvað er opið og hvað er lokað, er hægt að komast á pósthúsið, er hægt að fara að kaupa mjólk? Þetta er sem sagt alger rugldagur og allt fráfarandi ríkisstjórn að kenna.

Um daginn fór ég að hitta nokkrar konur sem ég tók í ferð um Latínuhverfið. Eina þeirra þekkti ég vel en áttaði mig ekki strax á því hver hún var. Við spiluðum saman fjórhent á tónleikum einhvern tímann í fyrndinni. Já, ég er kona með fortíð.

Í gær sagði dóttir mín allt í einu upp úr þurru: Le corps, c'est partout. Þetta mætti útleggjast á íslensku sem: Líkaminn, hann er alls staðar. Þetta þótti foreldrunum ljóðræn og skemmtileg pæling.
Hún er farin að spá mikið í ýmsa hluti, komin með Ara-syndrómið. T.d. er henni umhugað um þá staðreynd að kjöt er af dýrum. Af hverju þurfum við að borða dýr? Ég er því búin að taka góða kennslustund í grænmetisætulífsstíl, hún veit að fullt af fólki ákveður að vilja ekki borða dýr og hvers vegna. Hún veit líka að foreldrar hennar eru ekki hluti af þeim hópi, en að henni er velkomið að taka þessa ákvörðun sjálf, núna eða síðar.

Lifið í friði.