29.5.07

ljóð

Ég er alltaf voðalega "svag" fyrir ljóðum, ljóðskáldum, ljóðrýnum... en hef samt aldrei getað almennilega þóst skilja ljóð.
Ég skil alveg sum íslensk ljóð, næ Tómasi, Megasi og Steini Steinarri, hjálpi mér hamingjan, jú, ég fæ kitl og sting þegar ég les sum ljóð en ég hef t.d. aldrei náð almennilega að skilja frönsk ljóð.
Jú, ég lýg, ég geri lítið úr sjálfri mér, ég hef fengið fiðringinn, kitlið, stinginn við lestur franskra ljóða, stundum. En oftast sit ég bara stúmm, les og les aftur og aftur eitthvað sem vinir hafa ráðlagt mér, gefið mér, með fallegum áritunum um að þetta hljóti að höfða til mín, ég les í þriðja sinn og finn enn ekki neitt. Ljóðið er bara röð af orðum, skil hvert og eitt orðanna en ekkert samhengi.
Ég ber einhvers konar fáránlega virðingu fyrir fólki sem berst fyrir ljóðinu.

Um daginn las ég upphátt þýðingu vinar míns, Sigurðar Ingólfssonar, á ljóði eftir Yves Bonnefoy. Ljóðið er málað á vegg sem verður á vegi mínum í Latínuhverfistúrnum. Viðtakendur voru fertugar konur úr ýmsum starfsgreinum, áreiðanlega ekki sérlegir ljóðaneytendur, ekki frekar en ég og þú, en þetta heppnaðist mjög vel. Það glaðnaði yfir hópnum við hverja nýja línu, þetta var gaman. Ég mun héðan í frá lesa ljóðið í hvert skipti.
Og næst ætla ég að reyna að veiða franskan vegfaranda til að fara með ljóðið á frummálinu fyrir okkur. Hver veit nema í sumarlok verði ég farin að skilja franskt ljóð? Eitt ljóð er betra en ekki neitt.

Lifið í friði.

p.s. svag er skemmtilegt orð.
p.p.s. stúmm er líka skemmtilegt orð.