Í gær
Í gær var ég minnt á það að þó fólk sé fársjúkt getur það samt verið svo miklu miklu heilbrigðara en "við hin".Í gær vann ég frá 10.30 til 1.30 og þó ég væri stíf af þreytu á heimleið var ég einhvern veginn svo glöð, það er svo dýrmætt að hitta góðar manneskjur.
Í gær kaus þjóðin. Ég á ekki orð. Jú. Kannski nokkur:
Ég er ferlega svekkt út í forystu flokkanna tveggja sem ég hikaði á milli, ferlega svekkt út í að þau skuli ekki geta sameinast í eina sterka heild.
Í gær vann einhver söngvakeppni, held ég alveg örugglega. Ég get montað mig af því að ég hef ekki heyrt eitt einasta lag úr keppninni. Mér finnst það kúl. Smart. Hipp. Ég er ekki plebbi fyrir fimm aura.
Vikan framundan er þéttskipuð spennandi dagskrá. Gallinn við að vinna er að ég hef þá aldrei tíma til að gera ekki neitt, en líkami minn og sál eru orðin vön því að fá slíka hvíldardaga, mér finnst þessi törn núna vera farin að lengjast heldur mikið. Eiginlega sé ég Ísland í júlí í hillingum nú þegar.
Orðið hilling, sem er fallegt orð, minnir mig á orðið sem ég lærði í gær: sögnin að hnylla (eða hnilla?). Ég hnyllti ekki neinn bíl allan daginn og samferðafólkið var hálfsvekkt út af því. Þið megið geta hvað orðið þýðir eða deila því með mér hvort þið þekktuð það nú þegar.
Lifið í friði.
<< Home