18.5.07

hollusta

Með hádegismatnum í dag drakk ég slurk af Coca Light. Ég fæ alltaf nett samviskubit þegar ég set kók inn fyrir mínar varir.
Ekki vegna þess að ef þú setur barnatönn í kókglas er hún horfin morguninn eftir eins og ágætis dreifibréf á tölvutæku formi útskýra stundum fyrir mér, heldur vegna þess að kók er í mínum huga hluti af óhugnalegu kapítalísku mannskemmandi kerfi sem vinnur m.a. misopinskátt að því að útrýma bragði úr mat vegna þess að bragð flækir framleiðsluferlið og kostar þannig peninga. Stórfyrirtæki breytast í illúðlegar tilfinningalausar skepnur sem hafa skjótan gróða að sjónarmiði eingöngu.
Kannski er þetta misskilningur í mér, kannski er eina góða ástæðan fyrir því að sleppa kóki sú að það er sýra í því sem eyðir barnatönnum og líklega fullorðinsjöxlum líka, er þetta ekki sama efnið?
En þyrfti ég þá ekki að láta dæla upp úr mér öllu galli og öðrum viðbjóðsvessum sem maginn minn framleiðir til að brjóta niður annan óþverra eða delíkatess sem ég læt ofan í mig?

Mér leiðist alvarlega tilhugsunin um að lifa hollu líferni. Ég reyni eins og ég get að borða lífvænt því mér finnst það betra, styrkja smærri framleiðendur og er alveg til í að borga aðeins meira fyrir betri gæði svona þegar buddan leyfir það. Hins vegar er ég bara alveg á því að drekka annað slagið vín í óhófi, reykja dálítið á köflum, borða alls konar kex og kökur sem eru áreiðanlega full af aukaefnum og hvítum sykri og treð stundum í mig svo miklu kjöti og dýrafitu að það hálfa væri líklega nóg.

Í gær gekk ég um 16 kílómetra um hallir og garða Versala. Held ég hafi aldrei fengið jafngönguhressan hóp en var nú samt smá skömmuð fyrir að hafa komið með of fáar rauðvínsflöskur. Hey, leigubíllinn er víst komin. Þá er ég farin.

Lifið í friði.