2.5.07

met

Ég held ég hljóti að hafa verið að slá persónulegt met. Hef setið og horft á kappræður Segó og Sarkó sem hafa nú staðið í rúma tvo tíma. Dálítið mikið af pólitík fyrir mig í einu en gaman samt að fylgjast með þeim. Var ég búin að segja ykkur að Segó vinnur? Hún vinnur.
Besta mómentið var þegar hún hankaði hann á skólavist fatlaðra barna, þar er hún á heimavelli sem fyrrverandi fjölskyldumálaráðherra og hann sekur um að hafa sagt upp öllu aðstoðarfólkinu sem hún réð inn í skólana. Djöfull náði hún honum þá, æsti sig létt og hann reyndi að gera lítið úr henni, að forsetastarfið væri erfitt og alls ekki fyrir fólk sem reiddist auðveldlega og hún svaraði því til að hún hefði ekki týnt byltingaranda sínum, að reiði hennar væri heilbrigð. Flott.
Og í hvert skipti sem talað var um börn, barnagæslu og skólamál talaði Sarkó alltaf um að létta KONUM lífið. Að færa heimanám í skólann er fyrir KONUR sem vinna úti. Afdankaður afturhaldsseggur. Ekki að furða að konan hans sé aftur farin frá honum.

Ég hef í alvöru talað alla trú á því að hún Ségolène geti unnið þetta. En það verður mjótt á munum og nauðsynlegt er að fólk rífi sig upp úr sófa sínum og mæti á kjörstað. Ég er hræddust um að allt of margir sleppi því, fólk sem myndi frekar velja hana en hann.

En ferlega er nú samt svona pólitísk samræða leiðinleg til lengdar. Verst að ég kann ekki að ná ljóðrænunni úr frösunum þeirra, jú, ég náði einum góðum:

L'emploi va à l'emploi.

Ég er viss um að aðrir og ljóðrænni en ég hefðu haft úr nógu að moða. Ertu búin að kaupa þér Handsprengju í morgunsárið manneskja? Nýhil gefur út. Ég er ekki ein af manneskjunum út um allan heim sem er búin að panta án þess að hafa nokkurn tímann sýnt ljóðlist áhuga, sem EÖN minnist á. Ég ætla ekki að kaupa bókina enda kaupi ég aldrei bækur nema örsjaldan. En ég treysti á að ég geti gluggað í þessa í júlí á Íslandi.

Lifið í friði.