29.9.06

frasarnir loksins á íslensku!

Er þessi fyrirsögn ekki alveg í anda Séð og heyrt?

Hvernig líst ykkur á þetta:

Sé óvinur þér ofviða í lið með honum gakk.

Á þverhausa bítur uggurinn einn.

Lifið í friði.

rétt að geta margs

Mér finnst rétt að geta þess að frasanum enska úr síðustu færslu skaut upp í huga mér þar sem ég lá í baði og var að hugsa um allt þetta mál með mótmælin síðbúnu á Íslandi og hvort við myndum læra einhverja lexíu af þessu eða yppa bara öxlum.
Leiddist hugurinn þá m.a. að atriðinu sem ég var búin að pirra mig á hér áður, að náttúruverndarsinnarnir skyldu nota hræðsluáróðursaðferðina à la valdhafar um allan heim sem með aðstoð fjölmiðla stunda slíkan áróður á öllum vígstöðvum til að geta kúgað okkur aðeins betur.
Datt mér þá í hug frasinn "If you can't beat them, join them" sem er einmitt það sem andstæðingar stíflunnar gerðu þarna. Og af honum leiddist frasinn "If you can't convince them, scare them". Mér þótti hann góður og hugsaði með mér að hann hlyti að vera til nú þegar en ég finn hann ekki á gúgglinu sem sannfærir mig þó ekki um að ég hafi verið fyrst en kitlar samt hégómagirnd mína. Ég reyndi að setja frasann yfir á íslensku en það gekk ekki, ekki frekar enn hinn fyrri frasi um að sigra eða ganga í lið með óvininum.
Ef einhver kemur með góða íslenska þýðingu á þessum tveimur ágætu klisjufrösum fær sú hin sama verðlaun. Hver þau eru veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá.

Annars er líka rétt að geta þess að í gær hitti ég bloggara á flugvellinum ásamt fríðu föruneyti og mun ég hitta þau betur á morgun. Og ég fékk fríðan hóp kvenna, fór með þær niður að Eiffel-turni þar sem við settumst í grasið með samlokur og rósavín og nutum sólarinnar. Hitinn fór upp í 24° í gær. Sumarið sem týndist í ágúst er alveg áreiðanlega komið til baka.

Að síðustu finnst mér líka hárrétt að geta þess að ég ætla að taka saman pistil um allt sem er jólalegt í París fyrir þá sem gæti langað til að koma hingað á aðventunni sem byrjar snemma í nóvember ef ég man rétt. Ekki verður hægt að treysta á gönguferðir með mér í nóvember þar sem ég verð í Jólasveinalandi þann mánuðinn, en í desember verð ég mætt, hress að vanda.
París er góð á öllum árstíðum, það er engin spurning.

Lifið í friði.

27.9.06

if you can't convince them

Hvar ég lá í baði í gær, rétt áður en ég þurfti að sækja skrýmslin í skólann eftir langan dag við tölvuna, datt mér þessi frasi í hug:

If you can't convince them, scare them.

Lifið í friði.

myndir

Ég þoli ekki kommentakerfin þar sem myndin af manni birtist. Ég setti mynd af mér á bloggið strax vegna þess að ég vissi ekki að það var ókúl. Svo hefur myndin orðið til þess að gömul vinkona, þýsk, fann mig aftur eftir margra ára viðskilnað svo ég ákvað að hafa hana áfram í von um að t.d. nokkrar danskar, amerískar og írskar vinkonur detti hingað inn einn góðan veðurdag. En mér finnst alltaf óþægilegt að sjá myndina af mér birtast þarna hjá hinum, eitthvað sem fer í mig við það.

Ég var að breyta prófílnum mínum og setti netfangið þar inn. Bæði vegna þess að ég er búin að átta mig á því fyrir löngu að fólk hefur ekki rænu á að kíkja á parisardaman.com í leit að því og vegna þess að rétt í þessu sendi ég póst á eina bloggvinkonu sem ég ætla hvílíkt að misnota ef það er hægt.

Annars er ég bara allt allt allt of bissí til að vera að þvaðra hér um allt og ekkert. Farin að vinna.

Gaman að lífinu. Gaman gaman. Samt er bakið á mér í hakki eftir setu í tvo daga við tölvuna. Sé fram á þriðja daginn heilan og engin miskunn (hjá Guðmundi).

Lifið í friði.

26.9.06

skordýr

Á dögunum útrýmdi ég ættbálki silfurskotta sem hafðist við á baðherberginu. Ég var í marga mánuði að spekúlera hvort ég ætti að vera að þessu, var búin að lesa um skaðleysi vesalings silfurskottanna sem eru þar að auki með elstu verum jarðarinnar svo mér fannst næstum eins og þetta væru fallegar eðlur og bara lét þær ekki trufla mig mikið. En svo fór að þær voru orðnar aðeins of margar fyrir minn smekk og einhvern daginn þegar börnin fóru snemma út og áttu ekki að koma heim fyrr en seint og um síðir tók ég upp Baygon-bombu ógurlega og sprautaði í öll horn og skúmaskot á baðherbergi og klósetti (sem er ekki eitt og sama herbergið í Frakklandi, hér þykir ósmekklegt að þvo sér í sama herbergi og maður kúkar í).
Aðkoman eftir nokkurra klukkutíma virkni var ekkert sérlega skemmtileg og tók mig smá hugrekki að sópa upp líkunum. En ég hef ekki séð tangur eða tetur af þessum dýrum síðan.
Mér fannst ég ekkert sérstaklega undarleg að vera með ákveðna væmni gagnvart þessum dýrum, þekki konu sem náði aftur í könguló sem hún hafði hent út þegar hún fann hvað það var skítkalt úti og veit að stór hluti mannkyns er miklir dýravinir.
Hins vegar finnst mér nágrannakona frænku mannsins míns ekki alveg vera með fulla fimm: Henni finnst ekkert tiltökumál að öll fjölskyldan er með lús. Þetta eru nú bara lítil sæt skordýr sem gera svo sem ekkert mein! Frænkan og hennar fjölskylda fengu þarafleiðandi aftur og aftur lús, sem og væntanlega restin af skólabörnum hverfisins og þar með líklega hverfið allt.
Mig klæjar við tilhugsunina um að þurfa að hringja í frænkuna í kvöld og öll plön um að hitta þau bráðum voru lögð niður um óákveðinn tíma.

Lifið í friði.

p.s. skilaboð til Hildigunnar sem ég get ekki lengur kommentað hjá: Ég kem sko á tónleika í nóvember. Ekki spurning. Strax farin að hlakka til.

25.9.06

gangið ykkur upp að hnjám

með Ómari á morgun.
Það myndi ég gera stolt.
Munið að Frakkar létu afturkalla lög sem búið var að troða í gegnum þingið í neyðarflýtiafgreiðslu með því að mótmæla. Og látið ykkur ekki dreyma um að það hafi verið vegna þess að einhverjum bílum var snúið á haus eða kveikt í einhverjum ruslatunnum. Það var vegna þess að fullt af "venjulegu" fólki kom og sagði nei takk. NEI TAKK.

Lifið í friði.

skammartilfinningin

Ég skammast mín svo mikið að ég veit ekki hvernig ég á að snúa mér út úr þeirri argans vitleysu sem ég gerði.
Ég ákvað strax að sleppa afmælisdögum vina og fjölskyldu á þessari síðu, svona fyrir utan okkur fjögur kannski.
En þar sem systir mín átti afmæli á föstudaginn og fékk hvorki póstkort, símtal, tölvupóst, skeyti, sms né kveðju í gegnum einhvern annan á afmælisdaginn né hefur hún fengið nokkuð frá mér enn þá ætla ég að brjóta hefðina og segi:

Elsku Guðlaug mín, eftir allt það sem við höfum gengið í gegnum, bit, klór, öskur og grát, faðmlög, kossa, ástúð, stolt og væntumþykju langar mig að segja þér enn og aftur að mér þykir ógnarlega vænt um þig, ég er montin af þér og er handviss um að þó ég ætti tíu systur værir þú alltaf sú besta.
Til hamingju með afmælið og ég hlakka til að hitta þig eftir mánuð.

Lifið í friði.

21.9.06

ofsalega

Ofsalega væri ég til í að vera á leið til Andalúsíu með Nönnu og Dominique. Mér finnst sérrí ákaflega góður drykkur en drekk hann ekki mikið því hann er líklega mun meira fitandi en t.d. kampavín og rauðvín. Held ég.
En mér líður alltaf eins og fínni frú þegar ég fæ gott sérrí í fallegu glasi. Finnst ég næstum verða jafn fín alvöru frú og amma mín heitin nafna mín sem spilaði bridds með öðrum dömum í Norðurmýrinni og þær dreyptu á sérrí með.

Brottför í sérríferð er á laugardaginn, allt um þetta á síðu vínskólans hér til hliðar.

Maðurinn sem Fersen, sænski ljútenantinn sem svaf hjá mörgum aðalskonum á 18. öld og var m.a.s. bendlaður við drottningu Frakklands, Marie Antoinette, lýsti svo skemmtilega (sjá pistil aðeins neðar) var enginn annar en Comte d'Artois, bróðir Loðvíks XVI sem varð síðar Karl X konungur Frakka eftir fall Napóleons og andlát Loðvíks XVIII (hinn bróðir XVI).
Þess má að gamni geta að eftirlifandi dóttir Marie Antoinette og Loðvíks XVI, sú eina úr fjölskyldunni sem lifði byltinguna af, giftist síðar elsta syni þessa d'Artois og varð í smá tíma krónprinsessa Frakklands.
Svona getur lífið verið skrýtið, sérstaklega lífið í gamla daga.

Lifið í friði skrýtin jafnt sem óskrýtin.

p.s. fékk allt í einu efasemdir varðandi stafsetningu skrýtið, fannst allt í einu það vera skrítið. Google gefur 273000 flettingar með skrítið en 172000 með skrýtið. Jón Hilmar Jónsson býður ekki upp á skrítið svo ég læt þetta standa skrýtið. Skrýtið samt. Ég nota oft þessa leið að gúggla orðum sem ég er í vafa með og þarna sannast (líklega) að það er ekki örugg leið að rétta svarinu.

dagatal

Það eiga allir að kaupa dagatal af Landvernd. Ég er búin að panta tvö.

Ef Eimskip les enn bloggið mitt og ákveður að senda mér aftur dagatal (2006 dagatalið vekur alltaf jafnmikla gleði í mínu hjarta. Myndirnar hver annarri fallegri og ég tek glöð við 2007) þá bara gef ég bæði hin.

En hér er slóðin:

Dagatöl Landverndar

Lifið í friði og sátt við náttúruna og ykkur sjálf.

þegar stórt er spurt

verður fátt um svör

Enginn svaraði spekúlasjónum mínum um skoðanaleysi og fáfræði.

Baun svaraði Bush en það var rangt þó það væri svo rétt.

Sólin er úti, ég er inni.

Lifið í friði.

mannlýsing

"always talking, never listening, sure of everything, speaking only of force, not of negotiations".

Hverjum var svona lýst?

Lifið í friði.

20.9.06

lestir og bátar, hugsjónir og hnöttur blár

Lestir eru fullkominn ferðamáti, a.m.k. stundum. Í gær missti ég af lest. Ekki svona metafórískri lest heldur alvöru lest sem rann af stað út af brautarpallinum og skildi mig eftir í lestinni við hliðina, ásamt tveimur öðrum konum. Okkur leið örlítið eins og fávitum.
Um kvöldið var ég búin að panta fyrir 14 manns í bátsferð með dinner á Signu en það hefur líklega orðið "bilun vegna véla" eins og einu sinni var sagt og engin kom rútan og enginn fékkst leigubíllinn og ekkert varð af bátsferð. Þar sem þetta var jákvæðasti hópur sem ég held ég hafi nokkurn tímann kynnst, hlógu þau bara að þessu og borðuðu annars staðar.

Ég legg til að þið lítið í moggann og ef það stendur í stjörnuspá vogarinnar í gær að hún eigi að liggja undir sæng, dagurinn sé einfaldlega ekki þess virði, er eitthvað að marka stjörnuspá. Líklegra er að þar standi eitthvað um að vogin þurfi að huga að sambandi sínu við samstarfsfélaga því júpíter í húsi þýði sterk vinatengsl sem einmitt er svo mikilvægt að eiga með samstarfsfélögum. Verst að ég á eiginlega enga samstarfsfélaga. Nema kannski blessuð Emilie hjá rútufyrirtækinu sem hefur enn ekki sent mér útskýringu á klúðri þeirra í gær og er því ekki að treysta vinaböndin einmitt núna.

Á dögunum las ég stutta skáldsögu eftir Patrick Besson sem er hálfur Rússi og hálfur Króati en samt franskur rithöfundur og blaðamaður ef maður á að trúa wikipedia sem ég geri alveg í þessu tilfelli. Besson þessum sinnaðist við kollega sinn, rithöfundinn Didier Daeninckx, upp kom ósætti í pólitískri grúppu sem leiddi af sér einhvers konar bilun í kolli Didier sem fór að "afhjúpa" fyrrverandi vini sína rithöfunda í grúppunni, m.a. Patrick Besson sem hann ásakar um að vera afneitunarsinni (ég held að þetta hljóti að vera íslenska orðið yfir negasjónisma).
Skáldsagan sem ég las heitir Didier dénonce eða Didier afhjúpar og fjallar um tólf ára strák sem fær tölvu og byrjar að safna upplýsingum um skólafélaga, kennara og alla sem hann umgengst, upplýsingum á borð við að afinn var í öfgahægriflokki o.fl.
Allar samræður í bókinni eru milli persóna sem eru mjög skoðanaríkar og hafa sett sig í ákveðinn flokk og þarna er sem sagt kommúnistinn, hægrisinninn, fasistinn o.s.frv. Bókin er á léttum nótum en samt frekar óhugnaleg á köflum, bæði vegna morðsins á litlu arabastelpunni og vegna þess hvað það er óþægilegt að horfa upp á svona fullkomnar staðalmyndir af hugsjónafólki sem í kjaftæði sinnar hugmyndafræði verður stundum svo fáránlegt. Dæmi eftir minni, ekki sem sagt orðrétt þýðing úr bókinni,né listræn á nokkurn hátt: "Ég er á móti hatri á heimskingjum. Heimskingjar fæðast bara svona og geta ekkert að því gert að vera heimskir, þess vegna er ekki hægt að vera á móti þeim."
Gvuð hvað mér líður stundum eins og það að hafa skoðanir á málunum sé að vera heimskur og fáránlegur. Stundum. Ekki alltaf. Er skoðanleysi endilega merki um fáfræði? Þarf að melta þetta.

Annars er að kólna. Ennþá fallegt veður en mun svalara í dag en aðra daga. Mér er kalt á puttunum hér við tölvuna. Það á nú samt að hlýna aftur en spáin fyrir Drôme, en þar verð ég um helgina í tjaldi, er alls ekki nógu góð fyrir minn prinsessusmekk.

Ég keypti barnabókina eftir Andra Snæ á frönsku á Íslandssýningunni í Caen í gær.

Lifið í friði.

18.9.06

margt í gangi

Það er svo mikið að gera hjá mér að mér líður stanslaust eins og ég sé að gleyma einhverju. Bólur springa út á höku minni, hver annarri stærri og fegurri. Maginn er í hálfgerðum hnút.
Panta rútur, panta veitingastaði, ákveða matseðla og dagskrá fyrir ókunnuga.
Þvo þvotta, ganga frá þvotti.
Hringja í rafvirkja (hvar í fjandanum finnur maður góðan slíkan hér í borg ljósanna?)
Fundur í ráðhúsinu á miðvikudag því ég er orðin harðákveðin í að gera allt sem ég get til að eignast svalir eða garð, segi ykkur betur frá því seinna).
Skrifa grein.
Skipuleggja helgina, boðið í fertugsafmæli í S-Frakklandi, börnin fara til ömmu og við verðum með tjald og maður veit ekki hvernig veðrið verður og hvað þarf að hafa með sér og og og...
Kannski maður bara fari yfir um og láti leggja sig inn?

Annars var ekkert smá gaman í göngutúr með þjóðdönsurum í morgun.

Og bara alltaf gaman að vera til, næstum því, stundum bara smá læti.
Ég sofnaði í metró á leiðinni heim.
Ég borðaði fallafel í Rue des Rosiers í hádeginu mmmmm... ennþá svo gott bragð upp í mér að ég tími ekki að fá mér neitt þó ég sé orðin hálfsvöng og það sé kominn drekkutími.
Ég hef klukkustund þar til ég þarf að sækja börnin: sofa meira, skrifa smá, lesa áfram skáldsöguna, lesa áfram Marie Antoinette, baka vínartertu, skrifa nokkra meila, ha, sagði ég sólarhring? Nei, klukkustund. Best að leggja sig.

Lifið í friði.

17.9.06

þið munuð öll

þið munuð öll
þið munuð öll - deyja.
Gamað að rónum sem lýsa öllu fólkinu sem gengur hjá. Geta stundum hitt naglann svo skemmtilega á höfuðið með lýsingum á fólki. Ekki það að mér finnist það á nokkurn hátt eðlilegt að þetta fólk sé ekki lokað á þartilgerðum stofnunum (lesist með bogguhreim og takist ekki alvarlega, rónar eru óaðskiljanlegur hluti Parísar og varla hægt að ímynda sér borgina án þeirra).

Er að lesa afskaplega áhugaverða bók sprottna af afskaplega áhugaverðu tilefni. Læt ykkur vita meira þegar rennur af mér... víman yfir því hvað hún er áhugaverð...

Lifið í friði.

16.9.06

Kennarar óskast

Kennarar óskast í Íslenska skólann í París. Annar er með 3-6 ára börn, hinn með 6 ára og upp úr.
Kennt á laugardögum (ca 9 laugardagar yfir veturinn) frá 10.30-12.30.
Mjög skemmtileg félagsheimilisleg stemning, mömmurnar (og stundum einhverjir pabbar) spjalla frammi yfir kaffi og meððí og gefa vitanlega kennurunum góðgæti í kaffipásunni. Tilvalið aukadjobb fyrir námsmenn.

Hafið samband við Unni í sendiráðinu, unnur[at]mfa.is
Munið einnig síðu sendiráðsins sem er í tenglasafni mínu á www.parisardaman.com

15.9.06

niðurskurður

Nú skal vera skorið við nögl á þessari síðu.

Lifið í friði.

nútíminn

Ég galopnaði alla glugga og ætlaði að fá nútímann hingað inn en ekkert gerðist.

Lifið í friði.

montin

Ég er mjög montin með mig núna. Björn Friðgeir benti mér fyrir þó nokkru síðan á Bloglines. Ég innritaði mig en gerði svo ekkert meira þar sem ég skildi hvorki upp né niður í þessu.
Nú er svo komið að allt of stór hópur á listanum mínum er utan Mikka vefs og mín svo þreytt á þessu að í gær fór ég inn á Bloglines og bara af minni alkunnu snilld sem felst aðallega í heimskulegu áræði en svoleiðis virkar einmitt svo fínt í tölvuheiminum, tókst mér að "rassa" flesta nýliðana.
Ég er líklega gersamlega ófær um að lýsa því hvað ég gerði, en ég gerði það samt. Mæli með þessu.

Í dag ætla ég að vera ýkt dugleg að skrifa og þegar ég er búin að vera ýkt dugleg ætla ég í metró niður í bæ að skoða veitingahús utan frá og sækja um eitt lítið hlutastarf. Þó ég skuldi ekki milljónir í afborganir eins og sumir frílansarar nenni ég ekki að upplifa aftur of magra mánuði í vetur. Hins vegar veit ég ekki hvort gáfulegt sé sækja um vinnu núna þar sem ég er á leiðinni til Íslands í mánuð fljótlega. Well. Sakar ekki að prófa.

Munið að inni í okkur öllum er feit og glöð kona með blóm í hárinu. Þetta á líka við um ykkur, strákar.

Lifið í friði.

14.9.06

sumt fólk

Ég gæti kvalið ykkur með nákvæmlegri frásögn af ferð minni með bílinn í skoðun, 9 mánuðum of seint. Og að ég mun þurfa að reiða fram 700 evrur í viðgerðir, reyndar eru bara 400 evrur til að ná skoðun, hitt bara svona stöff sem hefur lengi þurft að gera og þar sem ég missi alltaf alla skynjun og rökvísi þegar talað er um péninga ákvað ég að láta bara gera þetta allt. Jánkaði öllu og sagðist m.a.s. vilja aðeins það besta fyrir bílinn minn þegar hann fór að spá í olíurnar! Hvaðan í fjandanum kom það eiginlega?
Ég hlýt að vera hinn fullkomni kúnni í huga bílaviðgerðarmanna um heim allan, það ætti að gefa út dagatal fljótlega með myndum af mér bláeygðri, ógreiddri í skítugum buxum og útslitinni treyju kinkandi kolli stanlaust í stað íturvaxinna fáklæddra meyja, ég er viss um að ég örva þá meira en einhverjar bimbógellur sem eiga ekki einu sinni bíl heldur aka um á kostnað klámframleiðenda með einkabílstjóra á allt of fínum bílum til að þurfa á bílaverkstæði. EN ég ætla ekki að blogga um þetta heldur hvað það er gaman að ganga heim frá bílaverkstæðinu, bíllaus þar til á morgun (sem þýðir áreiðanlega fram yfir helgi).
Á leiðinni sá ég nokkrar götur sem ég hef aldrei tekið eftir þegar ég þýt um hverfið á mengunarspúandi bíldruslunni. Litlar og vel faldar götur með stórum einbýlishúsum og görðum. Eitt húsið var með þetta líka flotta hlið með prjónandi hestum á stöplum til hliðanna. Minnti bara á hégómann og mikilmennskubrjálæði konunganna á 17. öld. Ég var frekar svekkt að hafa tekið myndavélina úr töskunni í morgun.
Á ljósum við stóru gatnamótin sat akfeit kona í eldgömlum Renault (eða einhverjum gömlum, skítugum og skrámuðum bíl sem gæti allt eins verið Citroën eða Jagúar, hvað veit ég?). Hún var í hvítum blúndukjól með stórt hvítt blóm í dökku hárinu. Máluð í skærum litum, varir, kinnar og augnalok. Í afturgluggann (hvað kallar maður þetta spjald sem hylur skottið í fimm dyra bílum?) var hún búin að klippa út skrautlegan plastdúk og leggja yfir þetta spjald/gluggakistuna og á því var plastpottur með fallegum plastblómum, litlir bangsar og styttur og fleira dúllerí. Einnig héngu bangsar víðsvegar um bílinn og efast ég um að útsýni hennar til allra átta hafi verið óskert. En þetta kom mér í hið fínasta skap og fékk mig til að hætta að hugsa um það hvernig í ósköpunum ég eigi að leysa bílinn út á morgun eftir helgina.
Sumt fólk bara hreinlega kann að lifa lífinu meðan aðrir búa til púl og leiðindi úr minnstu smámunum. Hvor týpan ert þú?

Lifið í friði.

12.9.06

hafragrautur

Í hvert skipti sem ég fæ mér hafragraut spyr ég sjálfa mig hvers vegna ég geri það ekki á hverjum degi. Málið er að ég er léleg morgunmatmanneskja og á það til að þamba bara kolsvart kaffi fram eftir morgni og setja ekkert ofan í magann fyrr en ég er orðin viðþolslaus af hungri í hádeginu. Ég er ekki stolt af þessu, þetta er bara staðreynd.
Stundum set ég ávexti í hafragrautinn, elda hann með banana eða epli, rúsínum eða döðlubitum. Stundum langar mig bara í hann alveg eintóman eins og Lauga gamla bar hann fram á Útnyrðingsstöðum. Hún var nú reyndar oft með slátur með en það er ekki til hér og kannski er það vel. Amma Helga bar hann fram með rjómanum sem hún fleytti af mjólkurbrúsanum í Kjósinni.

Ekki nóg með að grauturinn sjálfur er ljúfmeti og fer vel í maga minn heldur fyllir hann mig af minningum um horfnar miklar konur sem settu mark sitt á æsku mína og unglingsár.

Verð að gera þetta að reglu. Börnin vilja orðið ekkert annað. Pabbinn býður þeim kornfleks en þau taka grautinn fram yfir það.

Lifið í friði.

p.s. ég ætlaði að skrifa eitthvað allt annað en grauturinn fór líklega með blóðinu beint upp í heila.

bla bla

Undarlegt en ekki leiðinlegt að lesa viðbrögðin við pistli Davíðs Þórs um Grapevine. Ég las einmitt gagnrýni SE á Bubbatónleikunum, móðgaðist við lýsingar hans á Diddú og mundi þá eftir því sem íslenskukennarinn minn góði, Bragi Halldórsson, sagði okkur um að það væri list að skrifa vel ígrundaða lélega gagnrýni á bók, tónlist eða hvað sem er. Það væri svo auðvelt að segja eitthvað ljótt og láta það hljóma sæmilega en erfiðara að tala illa um verk og bera almennileg rök fyrir sig, fá lesandann til að hrífast með og snúast jafnvel hugur. Sindra tókst það ekki.
Var einmitt að lesa viðtalið fína við Ragnheiði Gröndal í Lesbók þar sem hún segist hafa hlegið dátt að grein Sindra sem stútaði henni. Gaman að vera fyndinn, en það er varla mark takandi á fyndni sem einhverri haldbærri gagnrýni, eins og DÞJ bendir réttilega á. Það er hreinlega ófaglegt að lýsa söng Diddúar sem sargi og þessi setning greinarinnar náði að "annúlera" greinina í heild fyrir mér, gera hana að engu, ómarktæka. Afhjúpaði skussaganginn við skriftirnar. Mér leiðist skussagangur þó ég gerist líklega stundum sek um hann sjálf. En ég er heldur ekki að gefa mig út fyrir að vera marktæk. Þannig.

Enginn hefur spurt mig hvernig keppnin fór um helgina. Ég náði ekki að prumpa, ropið var ansi hljómmikið en það var vitanlega fjöldi póstkortanna sem gerði það að verkum að ég rústaði þessu. Takk Ísland. Til hamingju Ísland.

Ég ætla að kaupa bókina hans Sigga Pönk þegar ég kem til Íslands í nóvember þó ég búist við að ég sé sú sem hann lýsir sem miðaldra konu með börn í eftirdragi. Ég ætla líka að kaupa barnabókina hennar Hörpu fyrir vestan austrið og þessa sem ég týndi á hótelinu í vor eftir Jón Kalman, titillinn er dottinn úr mér. Svo langar mig í bækurnar hans Guðlaugs um Kaupmannahöfn (gat ekki ákveðið mig hvort ég ætti að vera blebbi og segja Köben eða smart og segja Höfn).
Ég er farin að hlakka svo mikið til að koma heim að mig dreymdi að ég var komin og hafði gleymt því hvað það getur verið drullukalt á Íslandi og hálfsá eftir ferðinni, skjálfandi og titrandi.
En ég á lopapeysu og lopaermar og lopahúfu svo þetta verður allt í lagi.

Hér er 27 stiga hita spáð í dag svo lopahúfan liggur snyrtileg inni í skáp ásamt peysum, ermum og úlpum.

Ég verð að vera duglegri að hugsa í dag en í gær. Var eitthvað meiriháttar utan við mig. Þarf að einbeita mér almennilega. Best að byrja á hafragrautnum, og sjá hvort hann dugi til að koma mér í stuð.

Ég bætti enn einum tengli á listann, á byltingarsinna sem sigraði í aukagátu Ármanns en fær ekki tengil á sig, líklega vegna þess að hún er ekki með tengil á hann. Ég hef aldrei nennt að taka þátt í tenglakurteisisleik, set bara tengla á þá sem ég les þegar ég man eftir því og er slétt sama hvort þeir tengi á mig eða ekki. Fyndið reyndar að Silja hafði tengt á mig í pistli um daginn, varðandi konur og sjálfsvíg. Undarleg tilviljun. Lífið er fullt af tilviljunum. Nú verður spennandi að sjá hvort hún bætir mér á listann sinn, ég er með hjartslátt...

Og þetta minnir mig á að fyrir skömmu var ég andvaka og bjó til rokna svar við tengli á mig í pistli hjá manni sem dissaði mig fyrir að segja að karlmenn gætu verið ÖM. Fannst ég legremburotta fyrir það. Þarf nú eiginlega að hripa það svar niður, þetta hefur nefninlega brotist í mér síðan og allt í einu rann upp fyrir mér ljós. Betra er seint en aldrei.

En nú er það hafragrautur. Þessi skussapistill er fullur af spennu. Eða ekki.

Lifið í friði.

11.9.06

gdansk

klukkan

er fjórtán mínútur gengin í þrjú og ég er enn ekki farin út. Hins vegar hef ég gert ýmislegt þarflegt, til dæmis bætt inn fullt af nýjum bloggtenglum m.a. enn einni Parísardömunni, Rósu Rut. Svo eru þetta nokkrar sem ég hef stundum rekist á í gegnum hnittin komment hjá öðrum o.s.frv. en aldrei lesið reglulega. Nú á að verða breyting þar á. Það er þensla í gangi í mínu míkróþjóðfélagi.
EÖE hef ég lengi lesið í gegnum Mikka, og minni alla á tenglalistanum mínum á að skrá sig þar inn sem fyrst.
Og nú fer ég í sturtu og dríf mig út. Promis!

Lifið í friði.

veðurblíða

Það er svo gott veður að það hálfa væri nóg. 29 stig og sól í dag. Spá rigningu á fimmtudag en hver trúir því? Ekki ég.
Sumar og sól.
Undanfarið hef ég hnotið um auglýsingu í Mogganum sem talar um "fullvaxna fána". Það finnst mér undarlegt orðalag.
Og í laugardagsmogganum frá því fyrir rúmri viku er talað um að teppin fáist í "barnalegum stærðum".

Jamm. Þetta er það sem brýst um í mínum fagra kolli í dag. Ásamt mörgu fleiru.

Í morgun skrifaði ég 2 tölvupósta sem voru farnir að leggjast á sál mína. Annar var svar við pósti frá því í júlí. Ég er ekki að monta mig, ég skammast mín svo mikið að ég ætlaði varla að þora að senda bréfið. Hinn var nú bara tveggja vikna. Það er ekki neitt. Ég er þó samt þannig að ég vil helst svara fólki um hæl, finnst það almenn kurteisi. Sumt er bara einhvern veginn erfiðara en annað og stundum get ég látið einfalda hluti sitja á hakanum vegna þess að mér vaxa þeir í augum á undarlegan hátt. Þegar ég var búin að skrifa þessi tvö bréf fannst mér dagsverkinu lokið. En það er nú ekki svo gott. Kannski ég fari út og hjóli út í garð með stílabók og penna og skrái hugsanir sem ég þarf að reyna að raða upp á einhvern skiljanlegan hátt. Ha? Eða þá að ég hangi hér fyrir framan tölvuna áfram og hugsi meira um veðrið en það sem ég á að vera að pæla í. Hm. Fyrri lausnin hljómar óneitanlega betur. Spennandi að vita hvað ég geri.

Lifið í friði.

10.9.06

útskúfuð

Það er sama hverjum fjandanum ég gúggla, ég finn ekki hver í andskotanum vann helvítis leikinn.
Djöfull er hollt að blóta.
Og fyrst ég er að djöflast þetta um miðja nótt er best að komi fram að lax og sósa sönggellu, salat tóngellu og pavlóva nígellu ullu lukku...

lifiði í friði og skál

9.9.06

Áfram Breiðablik!

Áfram Gulla besta.

Lifið í friði.

Kæri póstur

Á ég að hafa áhyggjur af því að manninum mínum finnst Bree einna sætust í þáttunum um húsmæðurnar?

Lifið í friði.

Ég, Nigella og aðrar gellur

Ég er með saumaklúbb í kvöld. Eins og fastir gamlir lesendur vita eru saumaklúbbar parísardamanna fín matarboð með fullt af kampavíni. Mér óx dálítið í augum að halda boð í lok mikillar vinnuviku en eitt kvöldið þegar ég sá tvöfalt úr þreytu slumpaðist ég í tölvuna og fór inn á brallið í bauknum hennar Hildigunnar og félaga og þar fann ég uppskrift frá Hallveigu Vælu systur Hildigunnar að laxasneiðum, salati og sósu sem ég hripaði niður. Hún gaf svo tengil í desert eftir Nigellu sem ég ætla að hafa líka. Ég ætla sem sagt að vera svo kræf að endurskapa matarboð sem haldið var á Íslandi fyrir nokkru. Reyndar verð ég með forrétt líka (hún minntist að ég held ekkert á slíkt hún Hallveig) en það verður afar einfalt og létt.
Nú er klukkan 12 mínútur gengin í fjögur að staðartíma. Best að henda sér í eldhúsverkin. Saumaklúbbarnir eru sem betur fer ekki keppni í húsmóðurhlutverkinu eins og manni skilst að gerist sums staðar, en hér skal samt allt vera spikk og span, dýrlega lagt á borð og börnin og pabbinn fara í útlegð yfir í 15. hverfi enda íbúðin of lítil til að börnin sofi undir fjórum skríkjandi konum í kampavínsvímu.
Ég veit ekki hvort ég hlakka meira til að djúsa og blaðra við vinkonurnar í kvöld eða vakna hérna alein í fyrramálið, geta snúið mér yfir á hina hliðina og a.m.k. þóst sofna aftur.

Lifið í friði.

8.9.06

draumur

Ég gleymdi að segja ykkur frá draumnum mínum í nótt sem er of flókinn til að segja hann allan en það sem stendur upp úr er að mbl.is setti tengil á mig í einhverri frétt og heimsóknir á síðuna mína voru 5000 á einum degi. Ég man því miður ekki hvað hafði heillað moggann (svo ég leyfi mér að persónugera blaðið) en mig minnir (í alvörunni, ekki að plata núna) að það hafi tengst fjármálaheiminum!

Lifið í friði.

rop

Ég vinn og vinn og næ ekkert að undirbúa mig fyrir keppnina um helgina. Það er þó ljóst að ég verð í einu af toppsætunum því póstþjónustan hér í Copavogure er að springa undan póstkortum frá Íslandi. Takk takk, ég vissi að það er gott að vera Íslendingur, þar á maður alltaf pottþéttan stuðningshóp. Og svo ber ég ykkur kveðjur frá frímerkjasöfnunarklúbbnum, þau eru í skýjunum líka.

Mér finnst þessi ekki eiga að breyta neinu. Og reyndar enginn af listanum mínum ef út í það er farið. Held ég. Eða þannig.

Lifið í friði.

6.9.06

miðvikudagur

Maternelle-leikskólarnir eru kannski dálítið strembnari upplifun en íslenskir leikskólar, ég veit það ekki. Kári er í 26 barna bekk með einn kennara, hann Jerôme og eina aðstoðarkonu, hana dásamlegu Valou sem er stytting á Valérie. Valou hefur elskað og dáð Kára fyrir bláu augun og ljósa hárið frá því hann kom að sækja systur sína svo til daglega í fyrra. Hún verður með honum allan daginn, m.a.s. í hádegismatnum og hvíldinni. Valou þekkir öll börnin í skólanum með nafni og það var hreinlega vasaklútamóment að sjá hana hlaupa út í frímínúturnar fyrsta daginn til að faðma og knúsa eldri krakkana.
En eitt er þó skemmtilegt við skólakerfið hérna og það er miðvikudagsfríið. Frakkar eru með langa daga og frekar strangt kerfi en þeim finnst ekki hægt að láta börnin þola fimm daga í röð í skólanum og því er miðvikudagurinn frídagur. Foreldrar sem verða að vinna og eiga ekki ömmur/afa eða frænkur/frændur sem hægt er að púkka upp á setja börnin þá í skólaskjólið sem er yfirleitt tómt gaman fyrir þau. Við Arnaud erum hins vegar það heppin að geta verið heima, enda bæði eigin herrar að mestu leyti.
Í dag fer Arnaud að vinna. Veðurspáin er svona. Einhverjar hugmyndir? Líklega verður Villette-garðurinn með lak og nesti og skóflur og fötur fyrir valinu.

Fyrsta árið sem ég var í Frakklandi var ég au-pair. Þá las ég niðurstöður rannsókna á sjálfsmorðum kvenna og línuritið sýndi djúpan dal á miðvikudögum. Konurnar kála sér ekki dagana sem börnin eru heima.

Annars er ég að fara í rop- og prumpkeppni í félagsheimilinu í Copavogure næstu helgi. Er á fullu að undirbúa mig. Því miður er ekki boðið upp á símakosningu en þeir Íslendingar sem vilja styðja landa sinn geta sent póstkort til ráðhússins.

Lifið í friði.

4.9.06

ah bú

Allt gekk vel, mér tókst að narra hann í fötin og út í bíl og við vorum tuttugu mínútum of snemma á staðnum. Fullt af mömmum mættar með börnin og örfáir feður líka. Fljótlega myndaðist þessi dæmigerða æsingastemning, einhver kona var mætt, barnlaus, til að espa upp þá átta foreldra sem höfðu náð að skrá börnin í mat í dag og töldu sig geta skilið börnin eftir allan daginn.
Það var mér ljóst frá því í vor að fyrstu tvo dagana væri ekki boðið upp á hádegismat, að fyrri daginn væru foreldrarnir með og rétt farið yfir formsatriði og kennarinn rabbaði aðeins við okkur og að seinni daginn yrði að sækja börnin fyrir hádegi.
Þetta heitir aðlögun og er alveg ágætis fyrirbrigði þó vitanlega séu sum börn þannig að þau þoli vel að hoppa inn í nýja stofnun og hálfýti foreldrunum út eins og t.d. Sólrún var og er. Hún er víst fyrsta barnið sem skólastarfsmenn sáu gráta þegar mamman kom að sækja hana of snemma, hún vildi vera áfram í skólaskjólinu og varð það lausnin eftir þessa mislukkuðu góðmennsku í upphafi. Við ætlum að sjá til með Kára, hvort hann verður jafnlengi og hún eða hvort við sækjum hann klukkan hálffimm. Miðað við hvernig þetta gekk í dag sýnist mér hann muni vilja vera áfram með stóru systur, hann var mjög ósáttur að fara og vældi alla leiðina heim.
En einhverjir höfðu skilið málið þannig að barnið byrjaði á fullu fyrsta daginn og þetta fólk hafði því ekki gengið frá því að vera í fríi í dag. Mikil læti urðu því í upphafi og saknaði ég skólastjórans frá því í fyrra sárt, hún var röggsöm og klár og hefði tekið betur á málum en sú nýja. Ekki beint léleg, en aðeins of týnd, stóð ekki vel í hárinu á þessari æstu konu né móðurinni sem bókstaflega grýtti dóttur sinni í hana með þeim orðum að hún væri löngu vön að vera skilin eftir á stofnunum, að hún væri sjötta barnið hennar og alltaf hefðu börnin getað byrjað strax allan daginn og hvort ekki væri nóg af atvinnulausu fólki í Frakklandi. Mjög dramatísk sena sem skildi skólastýruna eftir gapandi gáttaða. Elizabeth hefði boðið konunni fram og rætt við hana í ró og náð betri tökum á þessu öllu saman.
Ég og kambódíska móðirin sem þekkjumst frá því að börnin okkar voru saman í gæslu í fyrra glottum bara og hvísluðum: C'est ça la France!"
Ég er mjög ánægð með þennan part í þjóðarsál Frakka að standa á rétti sínum og allt það. En þetta var nú dálítið eins og skilnaðarrifrildi þar sem barnið er notað sem vopn og það kann ég aldrei almennilega við.

En tvær myndir náðust af litlum spenntum strák og verða þær settar inn við fyrsta tækifæri, eða þriðja.

Lifið í friði.

Kári skólastrákur

Ég er að reyna að fá Kára til að klæða sig því við erum að fara í skólann. Hann neitar að klæða sig og segist alls ekki ætla í skóla. Ég er kaldsveitt og hálfóglatt. Það er heitt og ég er stressuð á þennan fáránlega hátt sem foreldrar eru alltaf stressaðir yfir börnunum að fara í skólann í fyrsta skipti en um leið þarf ég að stressa mig á því að við náum á réttum tíma, fullklædd og óútgrátin. Wish me luck.

Lifið í friði.

2.9.06

hitinn

Sól og hlýtt. Svona má allur september vera mín vegna. Reyndar er spáð rigningu á sunnudag en aftur sól á mánudag. Á þriðjudag verð ég enn og aftur í Versölum og þá á að vera 29 stiga hiti. Það skyldi þó aldrei enda í hitabylgju?

Annars hef ég ekkert að segja, nema jú að konan sem var með mér í Versölum á þriðjudag er ekki sátt við að vera kölluð kona fyrir þrítugt. Það leiðréttist því hér með. Gaman að lesa hennar frásögn af París þó að tölvufæreyskan sé aldrei skemmtileg.

Ég er ekki enn búin með þessa viku, fjallganga á píslarvottahæð á eftir. Svo fæ ég "frí" fram á þriðjudag - allar aþrengdar eiginkonur og handlagnir heimilisfeður vita að fjölskyldulífið er í raun ekki frí, alveg gaman en ekki frí. Vinnan mín er skemmtileg en samt ekki frí. Frí er þegar maður liggur eins og klessa uppi í sófa, úti á strönd, í grænni lautu... með bók eða tónlist eða bæði. Ég væri til í slíkan dag bráðum. Hver veit, nú byrjar skólinn á mánudag og þó næsta vika sé aftur frekar þung virðist vikan þar á eftir verða rólegri.

Lifið í friði.

1.9.06

Indian summer?

Ég er búin að komast að einu mjög merkilegu: Loðvík 14. les blogg og skilur íslensku. A.m.k. var hann svo góður við Versalahópinn í gær að við vorum farin að emja í lokin og flýja í skugga trjánna.

Það minnir mig á: Veit einhver lesandi um einhvern sem er vel að sér í nöfnum trjáa á íslensku? Mér dettur strax Þórdís í hug, kannski ég reyni aðeins við hana en ég veit reyndar að nú er hún að losna úr markaðshöllinni þar sem hún var í álögum í sumar, búin að endurheimta fyrra útlit sem er víst ekki fallegt og ætlar að skúra heima hjá sér með Dofra svo hún er kannski upptekin.
Ég er nefninlega alveg hrikalega illa að mér í trjánöfnum en hef, með aldrinum, sífellt meiri áhuga á að þekkja þau með nafni, sérstaklega þessi dularfullu og exótísku 200 ára gömlu tré sem verða á vegi manns í enska garði Maríu Antóníettu í Versölum. Sum þeirra virðast beint úr sögunni um eldfærin þar sem hundar voru með augu á stærð við undirskálar.

Annars vil ég koma því á framfæri að ef Saving Iceland eða Draumalandið ætla að berjast gegn stofnun leyniþjónustu á Íslandi er ég með í slaginn og tilbúin til að gera hvað sem ég get til að veita yfirvöldum þessi völd yfir einkalífi okkar.
Líklega verður að stofna ný samtök, mér finnst hálferfitt að gera það svona úr fjarska. Ég segist vera tilbúin til að gera hvað sem er en ég get samt ekki rifið börnin úr skóla sem þau eru að byrja í á mánudaginn, svikið fólk um vinnu sem ég er búin að lofa og gerst útilegumanneskja á Íslandi til að berjast ein við helvítis vindmyllur.
Er fólk ekki almennt á móti þessu? Eða verður þetta eins og virkjanir og annað, skoðunin verður mynduð EFTIR að málið er í höfn á þingi? Ætlið þið að fljóta sofandi að feigðarósi eins vanalega?

En nú verð ég að rjúka í sturtu og bera á mig sólkrem. 25 stig og heiður himinn í dag og fullt af góðu fólki í göngutúrunum.

Lifið í friði.