skordýr
Á dögunum útrýmdi ég ættbálki silfurskotta sem hafðist við á baðherberginu. Ég var í marga mánuði að spekúlera hvort ég ætti að vera að þessu, var búin að lesa um skaðleysi vesalings silfurskottanna sem eru þar að auki með elstu verum jarðarinnar svo mér fannst næstum eins og þetta væru fallegar eðlur og bara lét þær ekki trufla mig mikið. En svo fór að þær voru orðnar aðeins of margar fyrir minn smekk og einhvern daginn þegar börnin fóru snemma út og áttu ekki að koma heim fyrr en seint og um síðir tók ég upp Baygon-bombu ógurlega og sprautaði í öll horn og skúmaskot á baðherbergi og klósetti (sem er ekki eitt og sama herbergið í Frakklandi, hér þykir ósmekklegt að þvo sér í sama herbergi og maður kúkar í).Aðkoman eftir nokkurra klukkutíma virkni var ekkert sérlega skemmtileg og tók mig smá hugrekki að sópa upp líkunum. En ég hef ekki séð tangur eða tetur af þessum dýrum síðan.
Mér fannst ég ekkert sérstaklega undarleg að vera með ákveðna væmni gagnvart þessum dýrum, þekki konu sem náði aftur í könguló sem hún hafði hent út þegar hún fann hvað það var skítkalt úti og veit að stór hluti mannkyns er miklir dýravinir.
Hins vegar finnst mér nágrannakona frænku mannsins míns ekki alveg vera með fulla fimm: Henni finnst ekkert tiltökumál að öll fjölskyldan er með lús. Þetta eru nú bara lítil sæt skordýr sem gera svo sem ekkert mein! Frænkan og hennar fjölskylda fengu þarafleiðandi aftur og aftur lús, sem og væntanlega restin af skólabörnum hverfisins og þar með líklega hverfið allt.
Mig klæjar við tilhugsunina um að þurfa að hringja í frænkuna í kvöld og öll plön um að hitta þau bráðum voru lögð niður um óákveðinn tíma.
Lifið í friði.
p.s. skilaboð til Hildigunnar sem ég get ekki lengur kommentað hjá: Ég kem sko á tónleika í nóvember. Ekki spurning. Strax farin að hlakka til.
<< Home