9.9.06

Ég, Nigella og aðrar gellur

Ég er með saumaklúbb í kvöld. Eins og fastir gamlir lesendur vita eru saumaklúbbar parísardamanna fín matarboð með fullt af kampavíni. Mér óx dálítið í augum að halda boð í lok mikillar vinnuviku en eitt kvöldið þegar ég sá tvöfalt úr þreytu slumpaðist ég í tölvuna og fór inn á brallið í bauknum hennar Hildigunnar og félaga og þar fann ég uppskrift frá Hallveigu Vælu systur Hildigunnar að laxasneiðum, salati og sósu sem ég hripaði niður. Hún gaf svo tengil í desert eftir Nigellu sem ég ætla að hafa líka. Ég ætla sem sagt að vera svo kræf að endurskapa matarboð sem haldið var á Íslandi fyrir nokkru. Reyndar verð ég með forrétt líka (hún minntist að ég held ekkert á slíkt hún Hallveig) en það verður afar einfalt og létt.
Nú er klukkan 12 mínútur gengin í fjögur að staðartíma. Best að henda sér í eldhúsverkin. Saumaklúbbarnir eru sem betur fer ekki keppni í húsmóðurhlutverkinu eins og manni skilst að gerist sums staðar, en hér skal samt allt vera spikk og span, dýrlega lagt á borð og börnin og pabbinn fara í útlegð yfir í 15. hverfi enda íbúðin of lítil til að börnin sofi undir fjórum skríkjandi konum í kampavínsvímu.
Ég veit ekki hvort ég hlakka meira til að djúsa og blaðra við vinkonurnar í kvöld eða vakna hérna alein í fyrramálið, geta snúið mér yfir á hina hliðina og a.m.k. þóst sofna aftur.

Lifið í friði.