4.9.06

ah bú

Allt gekk vel, mér tókst að narra hann í fötin og út í bíl og við vorum tuttugu mínútum of snemma á staðnum. Fullt af mömmum mættar með börnin og örfáir feður líka. Fljótlega myndaðist þessi dæmigerða æsingastemning, einhver kona var mætt, barnlaus, til að espa upp þá átta foreldra sem höfðu náð að skrá börnin í mat í dag og töldu sig geta skilið börnin eftir allan daginn.
Það var mér ljóst frá því í vor að fyrstu tvo dagana væri ekki boðið upp á hádegismat, að fyrri daginn væru foreldrarnir með og rétt farið yfir formsatriði og kennarinn rabbaði aðeins við okkur og að seinni daginn yrði að sækja börnin fyrir hádegi.
Þetta heitir aðlögun og er alveg ágætis fyrirbrigði þó vitanlega séu sum börn þannig að þau þoli vel að hoppa inn í nýja stofnun og hálfýti foreldrunum út eins og t.d. Sólrún var og er. Hún er víst fyrsta barnið sem skólastarfsmenn sáu gráta þegar mamman kom að sækja hana of snemma, hún vildi vera áfram í skólaskjólinu og varð það lausnin eftir þessa mislukkuðu góðmennsku í upphafi. Við ætlum að sjá til með Kára, hvort hann verður jafnlengi og hún eða hvort við sækjum hann klukkan hálffimm. Miðað við hvernig þetta gekk í dag sýnist mér hann muni vilja vera áfram með stóru systur, hann var mjög ósáttur að fara og vældi alla leiðina heim.
En einhverjir höfðu skilið málið þannig að barnið byrjaði á fullu fyrsta daginn og þetta fólk hafði því ekki gengið frá því að vera í fríi í dag. Mikil læti urðu því í upphafi og saknaði ég skólastjórans frá því í fyrra sárt, hún var röggsöm og klár og hefði tekið betur á málum en sú nýja. Ekki beint léleg, en aðeins of týnd, stóð ekki vel í hárinu á þessari æstu konu né móðurinni sem bókstaflega grýtti dóttur sinni í hana með þeim orðum að hún væri löngu vön að vera skilin eftir á stofnunum, að hún væri sjötta barnið hennar og alltaf hefðu börnin getað byrjað strax allan daginn og hvort ekki væri nóg af atvinnulausu fólki í Frakklandi. Mjög dramatísk sena sem skildi skólastýruna eftir gapandi gáttaða. Elizabeth hefði boðið konunni fram og rætt við hana í ró og náð betri tökum á þessu öllu saman.
Ég og kambódíska móðirin sem þekkjumst frá því að börnin okkar voru saman í gæslu í fyrra glottum bara og hvísluðum: C'est ça la France!"
Ég er mjög ánægð með þennan part í þjóðarsál Frakka að standa á rétti sínum og allt það. En þetta var nú dálítið eins og skilnaðarrifrildi þar sem barnið er notað sem vopn og það kann ég aldrei almennilega við.

En tvær myndir náðust af litlum spenntum strák og verða þær settar inn við fyrsta tækifæri, eða þriðja.

Lifið í friði.