sumt fólk
Ég gæti kvalið ykkur með nákvæmlegri frásögn af ferð minni með bílinn í skoðun, 9 mánuðum of seint. Og að ég mun þurfa að reiða fram 700 evrur í viðgerðir, reyndar eru bara 400 evrur til að ná skoðun, hitt bara svona stöff sem hefur lengi þurft að gera og þar sem ég missi alltaf alla skynjun og rökvísi þegar talað er um péninga ákvað ég að láta bara gera þetta allt. Jánkaði öllu og sagðist m.a.s. vilja aðeins það besta fyrir bílinn minn þegar hann fór að spá í olíurnar! Hvaðan í fjandanum kom það eiginlega?Ég hlýt að vera hinn fullkomni kúnni í huga bílaviðgerðarmanna um heim allan, það ætti að gefa út dagatal fljótlega með myndum af mér bláeygðri, ógreiddri í skítugum buxum og útslitinni treyju kinkandi kolli stanlaust í stað íturvaxinna fáklæddra meyja, ég er viss um að ég örva þá meira en einhverjar bimbógellur sem eiga ekki einu sinni bíl heldur aka um á kostnað klámframleiðenda með einkabílstjóra á allt of fínum bílum til að þurfa á bílaverkstæði. EN ég ætla ekki að blogga um þetta heldur hvað það er gaman að ganga heim frá bílaverkstæðinu, bíllaus þar til á morgun (sem þýðir áreiðanlega fram yfir helgi).
Á leiðinni sá ég nokkrar götur sem ég hef aldrei tekið eftir þegar ég þýt um hverfið á mengunarspúandi bíldruslunni. Litlar og vel faldar götur með stórum einbýlishúsum og görðum. Eitt húsið var með þetta líka flotta hlið með prjónandi hestum á stöplum til hliðanna. Minnti bara á hégómann og mikilmennskubrjálæði konunganna á 17. öld. Ég var frekar svekkt að hafa tekið myndavélina úr töskunni í morgun.
Á ljósum við stóru gatnamótin sat akfeit kona í eldgömlum Renault (eða einhverjum gömlum, skítugum og skrámuðum bíl sem gæti allt eins verið Citroën eða Jagúar, hvað veit ég?). Hún var í hvítum blúndukjól með stórt hvítt blóm í dökku hárinu. Máluð í skærum litum, varir, kinnar og augnalok. Í afturgluggann (hvað kallar maður þetta spjald sem hylur skottið í fimm dyra bílum?) var hún búin að klippa út skrautlegan plastdúk og leggja yfir þetta spjald/gluggakistuna og á því var plastpottur með fallegum plastblómum, litlir bangsar og styttur og fleira dúllerí. Einnig héngu bangsar víðsvegar um bílinn og efast ég um að útsýni hennar til allra átta hafi verið óskert. En þetta kom mér í hið fínasta skap og fékk mig til að hætta að hugsa um það hvernig í ósköpunum ég eigi að leysa bílinn út á morgun eftir helgina.
Sumt fólk bara hreinlega kann að lifa lífinu meðan aðrir búa til púl og leiðindi úr minnstu smámunum. Hvor týpan ert þú?
Lifið í friði.
<< Home