18.9.06

margt í gangi

Það er svo mikið að gera hjá mér að mér líður stanslaust eins og ég sé að gleyma einhverju. Bólur springa út á höku minni, hver annarri stærri og fegurri. Maginn er í hálfgerðum hnút.
Panta rútur, panta veitingastaði, ákveða matseðla og dagskrá fyrir ókunnuga.
Þvo þvotta, ganga frá þvotti.
Hringja í rafvirkja (hvar í fjandanum finnur maður góðan slíkan hér í borg ljósanna?)
Fundur í ráðhúsinu á miðvikudag því ég er orðin harðákveðin í að gera allt sem ég get til að eignast svalir eða garð, segi ykkur betur frá því seinna).
Skrifa grein.
Skipuleggja helgina, boðið í fertugsafmæli í S-Frakklandi, börnin fara til ömmu og við verðum með tjald og maður veit ekki hvernig veðrið verður og hvað þarf að hafa með sér og og og...
Kannski maður bara fari yfir um og láti leggja sig inn?

Annars var ekkert smá gaman í göngutúr með þjóðdönsurum í morgun.

Og bara alltaf gaman að vera til, næstum því, stundum bara smá læti.
Ég sofnaði í metró á leiðinni heim.
Ég borðaði fallafel í Rue des Rosiers í hádeginu mmmmm... ennþá svo gott bragð upp í mér að ég tími ekki að fá mér neitt þó ég sé orðin hálfsvöng og það sé kominn drekkutími.
Ég hef klukkustund þar til ég þarf að sækja börnin: sofa meira, skrifa smá, lesa áfram skáldsöguna, lesa áfram Marie Antoinette, baka vínartertu, skrifa nokkra meila, ha, sagði ég sólarhring? Nei, klukkustund. Best að leggja sig.

Lifið í friði.