29.9.06

rétt að geta margs

Mér finnst rétt að geta þess að frasanum enska úr síðustu færslu skaut upp í huga mér þar sem ég lá í baði og var að hugsa um allt þetta mál með mótmælin síðbúnu á Íslandi og hvort við myndum læra einhverja lexíu af þessu eða yppa bara öxlum.
Leiddist hugurinn þá m.a. að atriðinu sem ég var búin að pirra mig á hér áður, að náttúruverndarsinnarnir skyldu nota hræðsluáróðursaðferðina à la valdhafar um allan heim sem með aðstoð fjölmiðla stunda slíkan áróður á öllum vígstöðvum til að geta kúgað okkur aðeins betur.
Datt mér þá í hug frasinn "If you can't beat them, join them" sem er einmitt það sem andstæðingar stíflunnar gerðu þarna. Og af honum leiddist frasinn "If you can't convince them, scare them". Mér þótti hann góður og hugsaði með mér að hann hlyti að vera til nú þegar en ég finn hann ekki á gúgglinu sem sannfærir mig þó ekki um að ég hafi verið fyrst en kitlar samt hégómagirnd mína. Ég reyndi að setja frasann yfir á íslensku en það gekk ekki, ekki frekar enn hinn fyrri frasi um að sigra eða ganga í lið með óvininum.
Ef einhver kemur með góða íslenska þýðingu á þessum tveimur ágætu klisjufrösum fær sú hin sama verðlaun. Hver þau eru veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá.

Annars er líka rétt að geta þess að í gær hitti ég bloggara á flugvellinum ásamt fríðu föruneyti og mun ég hitta þau betur á morgun. Og ég fékk fríðan hóp kvenna, fór með þær niður að Eiffel-turni þar sem við settumst í grasið með samlokur og rósavín og nutum sólarinnar. Hitinn fór upp í 24° í gær. Sumarið sem týndist í ágúst er alveg áreiðanlega komið til baka.

Að síðustu finnst mér líka hárrétt að geta þess að ég ætla að taka saman pistil um allt sem er jólalegt í París fyrir þá sem gæti langað til að koma hingað á aðventunni sem byrjar snemma í nóvember ef ég man rétt. Ekki verður hægt að treysta á gönguferðir með mér í nóvember þar sem ég verð í Jólasveinalandi þann mánuðinn, en í desember verð ég mætt, hress að vanda.
París er góð á öllum árstíðum, það er engin spurning.

Lifið í friði.