12.9.06

hafragrautur

Í hvert skipti sem ég fæ mér hafragraut spyr ég sjálfa mig hvers vegna ég geri það ekki á hverjum degi. Málið er að ég er léleg morgunmatmanneskja og á það til að þamba bara kolsvart kaffi fram eftir morgni og setja ekkert ofan í magann fyrr en ég er orðin viðþolslaus af hungri í hádeginu. Ég er ekki stolt af þessu, þetta er bara staðreynd.
Stundum set ég ávexti í hafragrautinn, elda hann með banana eða epli, rúsínum eða döðlubitum. Stundum langar mig bara í hann alveg eintóman eins og Lauga gamla bar hann fram á Útnyrðingsstöðum. Hún var nú reyndar oft með slátur með en það er ekki til hér og kannski er það vel. Amma Helga bar hann fram með rjómanum sem hún fleytti af mjólkurbrúsanum í Kjósinni.

Ekki nóg með að grauturinn sjálfur er ljúfmeti og fer vel í maga minn heldur fyllir hann mig af minningum um horfnar miklar konur sem settu mark sitt á æsku mína og unglingsár.

Verð að gera þetta að reglu. Börnin vilja orðið ekkert annað. Pabbinn býður þeim kornfleks en þau taka grautinn fram yfir það.

Lifið í friði.

p.s. ég ætlaði að skrifa eitthvað allt annað en grauturinn fór líklega með blóðinu beint upp í heila.