Indian summer?
Ég er búin að komast að einu mjög merkilegu: Loðvík 14. les blogg og skilur íslensku. A.m.k. var hann svo góður við Versalahópinn í gær að við vorum farin að emja í lokin og flýja í skugga trjánna.Það minnir mig á: Veit einhver lesandi um einhvern sem er vel að sér í nöfnum trjáa á íslensku? Mér dettur strax Þórdís í hug, kannski ég reyni aðeins við hana en ég veit reyndar að nú er hún að losna úr markaðshöllinni þar sem hún var í álögum í sumar, búin að endurheimta fyrra útlit sem er víst ekki fallegt og ætlar að skúra heima hjá sér með Dofra svo hún er kannski upptekin.
Ég er nefninlega alveg hrikalega illa að mér í trjánöfnum en hef, með aldrinum, sífellt meiri áhuga á að þekkja þau með nafni, sérstaklega þessi dularfullu og exótísku 200 ára gömlu tré sem verða á vegi manns í enska garði Maríu Antóníettu í Versölum. Sum þeirra virðast beint úr sögunni um eldfærin þar sem hundar voru með augu á stærð við undirskálar.
Annars vil ég koma því á framfæri að ef Saving Iceland eða Draumalandið ætla að berjast gegn stofnun leyniþjónustu á Íslandi er ég með í slaginn og tilbúin til að gera hvað sem ég get til að veita yfirvöldum þessi völd yfir einkalífi okkar.
Líklega verður að stofna ný samtök, mér finnst hálferfitt að gera það svona úr fjarska. Ég segist vera tilbúin til að gera hvað sem er en ég get samt ekki rifið börnin úr skóla sem þau eru að byrja í á mánudaginn, svikið fólk um vinnu sem ég er búin að lofa og gerst útilegumanneskja á Íslandi til að berjast ein við helvítis vindmyllur.
Er fólk ekki almennt á móti þessu? Eða verður þetta eins og virkjanir og annað, skoðunin verður mynduð EFTIR að málið er í höfn á þingi? Ætlið þið að fljóta sofandi að feigðarósi eins vanalega?
En nú verð ég að rjúka í sturtu og bera á mig sólkrem. 25 stig og heiður himinn í dag og fullt af góðu fólki í göngutúrunum.
Lifið í friði.
<< Home