lestir og bátar, hugsjónir og hnöttur blár
Lestir eru fullkominn ferðamáti, a.m.k. stundum. Í gær missti ég af lest. Ekki svona metafórískri lest heldur alvöru lest sem rann af stað út af brautarpallinum og skildi mig eftir í lestinni við hliðina, ásamt tveimur öðrum konum. Okkur leið örlítið eins og fávitum.Um kvöldið var ég búin að panta fyrir 14 manns í bátsferð með dinner á Signu en það hefur líklega orðið "bilun vegna véla" eins og einu sinni var sagt og engin kom rútan og enginn fékkst leigubíllinn og ekkert varð af bátsferð. Þar sem þetta var jákvæðasti hópur sem ég held ég hafi nokkurn tímann kynnst, hlógu þau bara að þessu og borðuðu annars staðar.
Ég legg til að þið lítið í moggann og ef það stendur í stjörnuspá vogarinnar í gær að hún eigi að liggja undir sæng, dagurinn sé einfaldlega ekki þess virði, er eitthvað að marka stjörnuspá. Líklegra er að þar standi eitthvað um að vogin þurfi að huga að sambandi sínu við samstarfsfélaga því júpíter í húsi þýði sterk vinatengsl sem einmitt er svo mikilvægt að eiga með samstarfsfélögum. Verst að ég á eiginlega enga samstarfsfélaga. Nema kannski blessuð Emilie hjá rútufyrirtækinu sem hefur enn ekki sent mér útskýringu á klúðri þeirra í gær og er því ekki að treysta vinaböndin einmitt núna.
Á dögunum las ég stutta skáldsögu eftir Patrick Besson sem er hálfur Rússi og hálfur Króati en samt franskur rithöfundur og blaðamaður ef maður á að trúa wikipedia sem ég geri alveg í þessu tilfelli. Besson þessum sinnaðist við kollega sinn, rithöfundinn Didier Daeninckx, upp kom ósætti í pólitískri grúppu sem leiddi af sér einhvers konar bilun í kolli Didier sem fór að "afhjúpa" fyrrverandi vini sína rithöfunda í grúppunni, m.a. Patrick Besson sem hann ásakar um að vera afneitunarsinni (ég held að þetta hljóti að vera íslenska orðið yfir negasjónisma).
Skáldsagan sem ég las heitir Didier dénonce eða Didier afhjúpar og fjallar um tólf ára strák sem fær tölvu og byrjar að safna upplýsingum um skólafélaga, kennara og alla sem hann umgengst, upplýsingum á borð við að afinn var í öfgahægriflokki o.fl.
Allar samræður í bókinni eru milli persóna sem eru mjög skoðanaríkar og hafa sett sig í ákveðinn flokk og þarna er sem sagt kommúnistinn, hægrisinninn, fasistinn o.s.frv. Bókin er á léttum nótum en samt frekar óhugnaleg á köflum, bæði vegna morðsins á litlu arabastelpunni og vegna þess hvað það er óþægilegt að horfa upp á svona fullkomnar staðalmyndir af hugsjónafólki sem í kjaftæði sinnar hugmyndafræði verður stundum svo fáránlegt. Dæmi eftir minni, ekki sem sagt orðrétt þýðing úr bókinni,né listræn á nokkurn hátt: "Ég er á móti hatri á heimskingjum. Heimskingjar fæðast bara svona og geta ekkert að því gert að vera heimskir, þess vegna er ekki hægt að vera á móti þeim."
Gvuð hvað mér líður stundum eins og það að hafa skoðanir á málunum sé að vera heimskur og fáránlegur. Stundum. Ekki alltaf. Er skoðanleysi endilega merki um fáfræði? Þarf að melta þetta.
Annars er að kólna. Ennþá fallegt veður en mun svalara í dag en aðra daga. Mér er kalt á puttunum hér við tölvuna. Það á nú samt að hlýna aftur en spáin fyrir Drôme, en þar verð ég um helgina í tjaldi, er alls ekki nógu góð fyrir minn prinsessusmekk.
Ég keypti barnabókina eftir Andra Snæ á frönsku á Íslandssýningunni í Caen í gær.
Lifið í friði.
<< Home