miðvikudagur
Maternelle-leikskólarnir eru kannski dálítið strembnari upplifun en íslenskir leikskólar, ég veit það ekki. Kári er í 26 barna bekk með einn kennara, hann Jerôme og eina aðstoðarkonu, hana dásamlegu Valou sem er stytting á Valérie. Valou hefur elskað og dáð Kára fyrir bláu augun og ljósa hárið frá því hann kom að sækja systur sína svo til daglega í fyrra. Hún verður með honum allan daginn, m.a.s. í hádegismatnum og hvíldinni. Valou þekkir öll börnin í skólanum með nafni og það var hreinlega vasaklútamóment að sjá hana hlaupa út í frímínúturnar fyrsta daginn til að faðma og knúsa eldri krakkana.En eitt er þó skemmtilegt við skólakerfið hérna og það er miðvikudagsfríið. Frakkar eru með langa daga og frekar strangt kerfi en þeim finnst ekki hægt að láta börnin þola fimm daga í röð í skólanum og því er miðvikudagurinn frídagur. Foreldrar sem verða að vinna og eiga ekki ömmur/afa eða frænkur/frændur sem hægt er að púkka upp á setja börnin þá í skólaskjólið sem er yfirleitt tómt gaman fyrir þau. Við Arnaud erum hins vegar það heppin að geta verið heima, enda bæði eigin herrar að mestu leyti.
Í dag fer Arnaud að vinna. Veðurspáin er svona. Einhverjar hugmyndir? Líklega verður Villette-garðurinn með lak og nesti og skóflur og fötur fyrir valinu.
Fyrsta árið sem ég var í Frakklandi var ég au-pair. Þá las ég niðurstöður rannsókna á sjálfsmorðum kvenna og línuritið sýndi djúpan dal á miðvikudögum. Konurnar kála sér ekki dagana sem börnin eru heima.
Annars er ég að fara í rop- og prumpkeppni í félagsheimilinu í Copavogure næstu helgi. Er á fullu að undirbúa mig. Því miður er ekki boðið upp á símakosningu en þeir Íslendingar sem vilja styðja landa sinn geta sent póstkort til ráðhússins.
Lifið í friði.
<< Home