veðurblíða
Það er svo gott veður að það hálfa væri nóg. 29 stig og sól í dag. Spá rigningu á fimmtudag en hver trúir því? Ekki ég.Sumar og sól.
Undanfarið hef ég hnotið um auglýsingu í Mogganum sem talar um "fullvaxna fána". Það finnst mér undarlegt orðalag.
Og í laugardagsmogganum frá því fyrir rúmri viku er talað um að teppin fáist í "barnalegum stærðum".
Jamm. Þetta er það sem brýst um í mínum fagra kolli í dag. Ásamt mörgu fleiru.
Í morgun skrifaði ég 2 tölvupósta sem voru farnir að leggjast á sál mína. Annar var svar við pósti frá því í júlí. Ég er ekki að monta mig, ég skammast mín svo mikið að ég ætlaði varla að þora að senda bréfið. Hinn var nú bara tveggja vikna. Það er ekki neitt. Ég er þó samt þannig að ég vil helst svara fólki um hæl, finnst það almenn kurteisi. Sumt er bara einhvern veginn erfiðara en annað og stundum get ég látið einfalda hluti sitja á hakanum vegna þess að mér vaxa þeir í augum á undarlegan hátt. Þegar ég var búin að skrifa þessi tvö bréf fannst mér dagsverkinu lokið. En það er nú ekki svo gott. Kannski ég fari út og hjóli út í garð með stílabók og penna og skrái hugsanir sem ég þarf að reyna að raða upp á einhvern skiljanlegan hátt. Ha? Eða þá að ég hangi hér fyrir framan tölvuna áfram og hugsi meira um veðrið en það sem ég á að vera að pæla í. Hm. Fyrri lausnin hljómar óneitanlega betur. Spennandi að vita hvað ég geri.
Lifið í friði.
<< Home