31.10.05

hillur


hillur
Originally uploaded by parisardaman.

Hér gefur að líta hluta afraksturs síðustu daga.
Hillurnar eru flestar keyptar á flóamörkuðum og pússaðar og mismunandi oft málaðar. Svo eru þær bónaðar og hafa slétta og mjúka áferð.
Hillan með hjörtunum er skúffa úr kommóðu sem breyttist í dúkkuhús og þarf því ekki skúffurnar sínar lengur. Í götin fyrir hnúðana koma krókar og þar á að hengja ljósaseríu. Tilvalið í stelpuherbergið, er það ekki?
Litlu hólfahillurnar eru fyrir bréfin, eitt hólf fyrir ástarbréf, annað fyrir boðskort og þriðja fyrir reikninga ef fólk er fyrir þá. Annars fyrir t.d. flugmiðana og svoleiðis pappíra sem ekki má týna.
Ég set inn fleiri nærmyndir þegar ég hef betri tíma, eldhúsið mitt er líklega orðið smurt í ávaxtamauki ef ég skil hljóðin sem þaðan berast rétt.
Lifið í friði.

oh baby baby it's a wild world

Komin aftur í bæinn og biðst afsökunar á færslunni sem ég skildi eftir í fimm, sex daga. Auðvitað verðum við að berjast fyrir gildismati í peningum í þessu þjóðfélagi. Auðvitað. Lesið "skammirnar" sem ég fékk í kommentakerfinu, þakka þær og hef engu við að bæta... í bili. En bendi hins vegar á það að það er rétt hjá Meó, karlhelvítin eru með mestu neikvæðnina og hæðnina gagnvart þessu.
Svo legg ég til að næsta afmæli verði skipulagt af Þórdísi og að í boði FL verði öllum konunum flogið til Parísar, þar sem öll stóru konungatorgin eru og eitt þeirra verður hertekið og svo verður pique-nique við Signubakka um kvöldið...

Annars eru blendnar tilfinningar í huga mér einmitt núna. Okkur stöllum gekk gífurlega vel í vinnuferð í sveitinni, máluðum og pússuðum og aðallega pússuðum og mér er illt í hægri hendi við að pikka á tölvuna og nú eigum við fullt af litlum fínum hillum og ýmislegt að selja og nú er bara að finna út úr því hvar við getum selt og fyrir hvað mikið og og og... veröldin er villt og ég er villtari, áttavillt stúlka á leiðinni út í alvöru heim, heim karlmannanna, sölumannanna, græðginnar og framagirninnar, verðum við frægar, verður eftir okkur tekið, verðum við komnar með fagra karlmenn með stinna bossa í vinnu við að pússa áður en við vitum af?

Ég er svo manísk einmitt núna að ég væri pottþétt að hlaða inn myndum í þessarri andránni ef ég fyndi helv djö ansdsk snúruna milli vélarinnar og vélarinnar bis. Gæti grátið af frústrasjón og pirringi. Hvert í jevla fór snúran? Leyfi börnunum ekki að leika sér við slíkt dót svo ég hlyti, HLYTI að hafa tekið hana af þeim. Eða hvað? Er hún kannski inni í draslinu þeirra? Eða bak við gömlu bókahilluna hérna? Hún hékk alltaf hér hjá dagatalinu á nagla á sínum stað og nú einmitt nú þegar mikið liggur við er hún ekki á sínum stað.
Best að fara að leita, get ekki beðið eftir að fá viðbrögð frá lesendum mínum.

En hér kemur bloggið sem mig langaði mikið að blogga, snúru og vélarlaus í sveitinni á fimmtudagskvöld:
Hér er hiti og stjörnubjart.
Máluðum á hlírabolum og stuttbuxum í dag og sitjum úti við grillið að borða.
Október hvað?

Lifið í friði.

26.10.05

bless elskurnar

Ég er mikið að velta vöngum yfir vangaveltum Vésteins (vangaveltur-vesteins.blogspot.com) um það að kvennabaráttan snúist um ranga hluti. Sem var einmitt að vefjast fyrir mér í pistlinum á undan. Eru það meiri peningar sem við viljum? Er hægt að mæla manngildi í peningum? Er það ekki einmitt samþykkt þessa ofurkapítalíska þjóðfélags sem trúir því virkilega (sjáið athugasemdina sem ég fékk fyrir neðan) að það gefi lífinu GILDI að þurfa að "berjast" fyrir hærri launum? Að það sé leyndardómur hamingjunnar. Að ef við þurfum ekki lengur að "berjast" að ákveðnum fjárhagslegum takmörkum verði óhjákvæmilega stöðnun og rotnun?
Mér finnst það næstum ómöguleg tilhugsun að ég þurfi að skrifa undir það að öskra á hærri laun og meira af háum stöðum í þjóðfélagspýramída sem ég fyrirlít. Ég er ekki sammála öllu hjá Vésteini og þessar pælingar breyta engu um það að mér fannst þessi fundur á mánudag og þessi mikla þáttaka vera eitthvað merkilegt og fallegt. Og ég held að það sé hálfgert einsdæmi í heiminum hvernig konur ná að standa saman á Íslandi, vera vinkonur og elska hver aðra, burtséð frá stéttaskiptingu og pólitískum skoðunum. Við konur og kannski við Íslendingar öll, afmáum mjög auðveldlega þessi "gildi", lítum sjaldan á mismikla menntun eða misstóra bankareikninga sem hindranir í að eiga samskipti okkar á milli og ég hef ekki séð dæmi um þetta í nokkru öðru landi. Hvorki í Frakklandi né í Danmörku sem eru ríkin sem ég þekki best.
Margar vinkvenna minna kjósa allt aðra flokka en ég myndi nokkurn tímann gera en ég elska þær og virði þeirra skoðanir þó mig dreymi auðvitað stundum um að leiða þær á "réttar" brautir. Hvað er rétt og rangt? Maður trúir einhverju og svo trúa aðrir einhverju allt öðru og hvað með það? Höfum við ekki öll rétt til að trúa því sem við viljum? Trúfrelsi.
Kannski hafa konur látið launabaráttuna sitja dálítið á hakanum og því orðið undir einmitt vegna þess að við höfum minni áhuga á að græða meira og meira af peningum. Okkar áhugamál liggja annars staðar, í mannréttindum og annars konar bótum á þjóðfélaginu okkar. Kannski. En kannski erum við bara kapítalískir lúserar. Kannski.

Ég er farin í sveitina fram á sunnudag. Burt frá tölvum og börnum og kalli. Ætla að mála meira af hillum og skápum. Lofa myndum eins og ég geri alltaf, sé til hvort ég stend við það í þetta sinn.

Lifið í friði og verið þæg og góð hvert við annað.

25.10.05

taugar titra

Ferlega finnst mér bloggin sem heimta innritun pirrandi því þá birtist þessi slæma mynd af mér með.
Og Bryn, gerir þú þér grein fyrir því að með þessu ertu að útiloka allar vinkonurnar? Við hvað eruð þið hrædd, að ógurlegir geðsjúklingar birtist og segi að þið séuð feit og heimsk?

Lifið í friði.

einir fara...

Einhverra hluta vegna get ég ekki haft kommur yfir stöfunum í fyrirsögninni þegar ég blogga úr litlu fínu nýju tölvunni sem ég þarf að gera þegar ég er að hlusta á útvarpið. Það getur stundum verið smá þraut að finna titil án broddaðra sérhljóða.
En alveg eins og í lífinu fara bloggarar og aðrir koma í stað. Því hef ég kippt Uppglenningi út og setti vinkonu mína nýgræðing í bloggheimum inn í staðinn.
Hún er sú eina af vinkonum mínum sem bloggar og ein af fáum sem les mig reglulega. Hún sagði í tilkynningunni til mín að hún væri hrædd við að standast samanburðinn við mig. Ég hló við fót enda er ég ekki í neinni keppni heldur bara að fá útrás fyrir allt helvítis kjaftæðið sem ómar stöðugt í höfði mínu. Og eins og þegar ég hleypti blótinu út er ég mun rólegri yfir röddunum í höfðinu síðan ég hóf að blogga.
Kæru lesendur, má ég kynna: Bryn parísardömu og nýbúa á Íslandi! Njótið heil.

Lifið í friði.

sigur

Já, örugglega stórsigur í höfn með fundinum í gær. Ég spái því að stjórnvöld skelli saman einum lagabálki og leiðrétti óréttlætið afturvirkt til þrjátíu ára strax í dag.
Þannig gætu konur t.d. keypt FL Group af Hannesi og sýnt körlum hvernig á að stjórna einokunarfyrirtæki í útrás.
En sem betur fer hefðu þær ekki áhuga á því. Miklu gáfulegra að gera eitthvað skemmtilegt við peningana, láta þessa karla sjá um leiðindamálin áfram. Er víst að konur hafi nógu mikinn áhuga á stjórnunarstöðum? Fyrir mína parta hef ég alls engan áhuga. Og mér er nokk sama hvort það er karl eða kona sem ræður yfir mér, hef lent í ótrúlega óréttlátum yfirmönnum af báðum kynjum í gegnum tíðina og alið í brjósti mér kenningu um það að góðir yfirmenn og réttlátir stjórnendur eru svo fágætir að þau ættu heima á sérstöku safni.
Auðvitað er það ómögulegt og ótrúlegt og óásættanlegt að konur skuli ekki vera jafnar körlum. Auðvitað. Alveg eins og útlendingar og hommar og einfættir og heyrnadaufir. Spurningin er bara hversu langt við viljum ná. Ég held að heimurinn væri betri, væri honum stjórnað af konum. Ég held að þær leituðu síður en karlar í vopnabúrið til að útkljá deilur. Ég held það en minni aftur á það sem karlinn minn skellti framan í mig einhvern tímann þegar ég var að básúna þetta hérna í stofusófanum: Hvað með Margréti Thacher? Jamm. Ekki einfalt.
En það er einfalt að konur og karlar eigi að fá sömu laun. Allir eiga að fá sömu laun. Skúringakonan og forstöðukonan, öskukallinn og ráðherrann, fóstran og forsetinn. Allir eiga að vera jafnir fyrir guði okkar nútímamanna, hvort sem við viljum kalla hann dollara, jen, evru eða krónu. Þetta er sami guðinn. Það ríkir eingyðistrú í heiminum í dag og ótrúlegt að ekki skuli allir þegnar hans vera jafnir. Og gífurlega stórt og mikið gap milli þeirra verst settu og þeirra best settu. Og ógurlega fæ ég mikla löngun til að kasta upp þegar ég se menn eins og þann sem sat fyrir svörum í imbakassanum í gær. Mikill kontrast milli fréttanna af kvennafundinum og þeirrar fréttar. Súkkatí múkkatí kaupa meira fínerí. Er þetta ekki brjálæði?
Kannski er það málið með þessi þrjátíu ár sem liðu án róttækra breytinga í launamálum og stjórnunarstöðuveitingum? Við berjumst vitanlega ekki fyrir einhverju sem við höfum ekki áhuga á. En þó ég persónulega hafi ekki áhuga á því að stjórna vil ég geta verið viss um að fá sömu laun fyrir sömu störf og karlar. Og ég vil fá fleiri konur í æðri stöður ef einhverjar eru þarna úti sem gætu haft áhuga. Mér dettur nú nokkrar flottar í hug. Bæði þjóðþekktar og á fullu í baráttunni, eins og t.d. Ingibjörg Sólrún. Og nokkrar síður þekktar góðar vinkonur.
Sem minnir mig á: Ég er líka vinkona hennar nöfnu minnar Hafsteinsdóttur sem talað var við í fréttum í gær þar sem hún stóð vel greidd og máluð með bindi í jakkafötum. Kristín stóra unga, þú varst alveg frábær! Ligga ligga lá. Ég þekki hana, hef tekið í hendina á henni, faðmað hana og sakna hennar á hverjum degi. Hún er ekkert smá falleg og klár kona. Eins og flestar konur eru, ef ekki allar - nema sumar...

Varðandi staðsetningu:
Ég var búin að spá í það hvort þetta væri ekki lítið torg, en þorði ekki að yrða það hér af ótta við að það yrði rekið ofan í mig sem stórborgarrembingur. En hvað þarf löggan að búast við mörgum til að samþykkja að loka stærri umferðaræðum en Austurstræti og Aðalstræti sem eru götur sem maður forðast eins og miðaldargötur Parísar og heitan eld?

Takk enn og aftur allar konur og karlar sem voruð þarna í gær fyrir mig og dóttur mína. Nú þarf að fylgja þessu máli eftir og sjá til þess að fyrirtækin hafi ekki misnotað daginn til að birta hræsnifullar heillaóskir á heilsíðum í lit. Nú þurfa þau að sýna samstöðu í verki. Og ekki má heyrast sami vonsviknistónninn eftir þrjátíu ár um að þó ýmislegt hafi breyst ríki enn misrétti á Íslandinu góða. Fundurinn tókst vel og honum þarf að fylgja kröftuglega eftir.

Og í lokin er best að ég geri risastóra játningu: Ég felldi nokkur tár við að horfa á ykkur þarna í gær á netinu. Og skalf eins og hrísla í vindi.

Lifið í friði.

p.s. Ekkert kom um þetta í sjónvarpsfréttum á TF1 eða France2 í gær. Hins vegar var talað um þetta í útvarpi í gærmorgun, frétti ég. Ég ætla að fylgjast með fréttum í kvöld aftur.

24.10.05

minning um mann

Uppglenningur er farinn. Ég hef engar skýringar á brotthvarfinu en lýsi því hér með yfir að hans er sárt saknað.
Allt of margir bloggarar að hætta. Er þetta einhvers konar sjálfsmorðsplága. Bloggsjálfsmorð framin í hverri viku. Eitthvað til að hafa stórar áhyggjur af?

Lifið í friði.

pælingar

Mikið hef ég séð ritað og spáð í kvennafrídaginn. Ég er búin að segja frá því hér að ég er mjög ánægð með þetta framtak en ég hef séð a.m.k. tvo bloggara sem ég virði mikils tala á móti þessari uppákomu í dag. Auðvitað verður maður að spá í það sem fólk sem maður virðir hefur að segja.
Hér í Frakklandi hefur mikið verið rætt um hópa, minnihlutahópa, skiptingu í hópa og hvort rétt sé að undirstrika einkenni ákveðinna hópa með ýmsum hætti. Til dæmis hefur áætlun um að halda Hýra ólympíuleika í París 2010 kveikt á umræðu um það hvort samkynhneigðir eigi eða þurfi að undirstrika það að þau séu "öðruvísi". Er samkynhneigt fólk ekki einmitt alltaf að berjast fyrir því að falla inn í hópinn, vera samþykkt sem eðlilegt fólk jafnt gagnkynhneigða eða kynlausa fólkinu?
Ég er alveg sammála því að auðvitað eru samkynhneigðir alveg eins og hinir og er alltaf jafn hissa þegar ég heyri talað um fordóma gegn þeim. Ennþá? Málið er að það eru bullandi fordómar gagnvart samkynhneigðum og þannig verður það áreiðanlega lengi enn. Þrátt fyrir að mörg fjöll hafi verið flutt úr stað og jafnvel nokkrum jafnað við jörðu er það sorgleg staðreynd að hrækt er framan í karla sem kyssast og sparkað í konur sem leiðast á götum út um allan heim, hvort sem það er í hinni frjálsu og opinhuga París, sem stjórnað er af myndugleik af samkynhneigðum manni eða í útkjálkaþorpi fullu af þröngsýnum "verkfærum Guðs". Þess vegna finnst ákveðnum aðilum ástæða til að sýna hópinn saman í fjöri og stuði (þetta á líka við um Gay Pride) í veikri von um að kannski sjái hinir "venjulegu" að allt er í lagi með hommana og lellurnar.
Það sama má segja um konur og jafnrétti. Margt hefur breyst svo mikið að maður trúir varla minningum sínum um hlutverkaskiptinguna sem ríkti á heimilum í Breiðholtinu fyrir þrjátíu árum síðan. Þá var öskrað að ekki yrði eldað í kvöld, sem færir glott á andlit okkar kvenna í dag. Eldað? Ha? Átti JónPalliGummi ekki hvort sem er að henda pastanu í pott í kvöld? Ég held að ég sé ekki að fara með fleipur, en ég þekki ekki nokkurt heimili þar sem konan eldar ein. Þessu er skipst á eins og flestum heimilisstörfum.
Hins vegar er það púra stærðfræði og það sér það hver heilvita maður að þessi launamismunur er eitthvað óheilbrigt fyrirbrigði, undarlegur skuggi á svokölluðu jafnrétti. 64,15 prósent! Það er næg ástæða fyrir mig til að langa til að ganga, ásamt fylkingu kvenna og vitanlega allra karla sem vilja hjálpa okkur, niður Skólavörðuholtið og vekja þjóðina og leiðtoga hennar til alvarlegrar umhugsunar um að þennan blett þarf að má af okkar svokallaða nútíma jafnréttissinnaða samfélagi.

Hópefli er leiðinlegt orð sem minnir á alla orðanotkun kapítalista og annarra gúrúa. Hópdjamm er eitthvað sem ég á bágt með að þola þó ég hafi mjög gaman af því að sjá homma og lellur dilla sér í Gay Pride göngunni og fann alveg hjartað taka kipp og fór að dilla mér sjálf óforvarendis síðast þegar ég varð vitni að þessu, sem var reyndar fyrir alllöngu síðan. Og yfirleitt forðast ég stórar skemmtanir á götum úti.
En hópdjamm er allt annað en MÓTMÆLAFUNDUR. Þannig forðast ég 17. júní en finnst skylda mín að mæta í göngu 1. maí. Og þó að mótmælafundurinn í dag sé fullur af skemmtiatriðum og eigi að fara ljúflega fram má alls ekki gleyma því að það að þögn er sama og samþykki, að ekki er hægt að samþykkja þennan kynbundna launamun og að einmitt þess vegna er þessi fundur haldinn í dag.
Ég verð þar í anda. Og óska öllum mótmælendum, konum og körlum, góðrar skemmtunar í dag um leið og ég þakka þeim fyrir að gera þetta fyrir mig og dóttur mína.

Lifið í friði.

23.10.05

Mon mari est un génie.

Chers lecteurs et lectrices,

je vous signale que le blog de mon mari est de plus en plus génial et que ça ne vous fera pas de mal, vous insulaires nordiques, de le consulter de temps en temps.

Cordialement,

La femme du génie.

jibbi jei

Ég hitti mann sem hafði gaman af vinnu sinni við að þjóna fólki og hann fann út fyrir mig að mig vantaði stuffit expander í tölvuna mína til að geta sett upp tækið sem þarf til að hlusta á RÚV. Ég fór heim glöð í hjarta og gerði þetta í morgun og nú sit ég og hlusta á orð skulu standa í fyrsta sinn á ævinni. Hef bara lesið um þann indæla þátt í laugardagsmogganum lengi.
Og hlakka til að heyra í ykkur konur á morgun og vona að Uppglenningur fari með myndavélina sína niður í bæ þó hann sé svo bældur að þola ekki hópefli.
Áfram stelpur. Þor'ég vil ég get ég JÁ!

Lifið í friði.

21.10.05

blót

Ókei, ég er aftur komin með bloggræpu. Fyrirgefiði mér.
En mig langaði til að biðja þá sem þola illa blót afsökunar á mínu blóti. Málið er að í mörg ár bældi ég blótþörf mína niður og svo ákvað ég einn daginn að hætta því og ég er sannfærð um að síðan þá er geðheilsa mín betri. Blótið er þarna (eins og vinir mínir vita býr norskur sjóari í mér og drekkur t.d. í gegnum mig) og verður að fá að komast út. Ég veit að margir eru viðkvæmir fyrir þessu en ég er voðalega góð og blíð þrátt fyrir þetta.

Lifið í friði.

máttur orðsins

er mikill og oft er nóg að breyta rangri orðnotkun til að laga ýmislegt sem betur má fara. Gott dæmi um þetta er á síðunni VESTAN (sjá tengil). Harpa er frábær bloggari, gaman að lesa hana og aldrei hefur hún fengið mig til að líða illa þó hún sé kona sem lifir með erfiðum sjúkdómi. Hugrekki og bjartsýni einkenna hana og nú ætla ég að hætta því þetta fer að verða væmið. En ég skipa ykkur öllum að lesa pistil hennar um BARÁTTU. Og svo skipa ég ykkur öllum að breyta hugsunarhætti ykkar. Og svo skipa ég... nei, nú æstist ég eitthvað upp.

Það vill oft vera þannig að ef eitt er ekki í lagi heima hjá manni þá fara aðrir hlutir að hætta að vera í lagi líka. Undarlegur andskoti. Þannig fékk ég heimsókn pípara áðan sem komst að þeirri niðurstöðu að ofurhallærislega nýuppgerða baðherbergið á hæðinni fyrir neðan (hvar voru Vala Matt og Oprah, gat ekki einhver hjálpað þeim að velja liti?) er með húðsjúkdóm í lofti og á veggjum út af lélegu baðkari mínu og að ég hafi valið milli þess að láta setja nýtt almennilegt stálbaðkar sem fari UNDIR flísarnar en ekki ofan á þær fyrir 1400 evrur eða borga 150 evrur á þriggja mánaða fresti í viðhald á kíttinu (sem ég gæti svo sem kannski gert sjálf en mér leiðist samt þetta ódýra plastkar með sinni undarlegu hönnun og vil held ég frekar skipta). Hvað skyldi bílaviðgerðin kosta? Íslandsferð um jólin? Í hættu.

Lifið í friði.

Hlýja til sölu

Hér er enn 17-19 stiga hiti þó að sólin sé feimin og feli sig bak við skýin. En í gær fór ég samt í pílagrímaferð hagsýnu húsmóðurinnar niður í HogM til að kaupa húfur og trefla á börnin. Það er nefninlega svo, að þó maður eigi stundum erfitt með að læra af reynslunni er ýmislegt að síast inn með árunum og þó maður sé gleyminn man maður sumt afskaplega vel. Þannig eru mér í fersku minni allar skammirnar sem ég fékk yfir týndum húfum, treflum og vettlingum og eftir áralanga dvöl í París veit ég að maður á að kaupa bikini í mars og húfur og trefla í október í síðasta lagi. Millistuttar kápur fást í ágúst, síðkápurnar eru á slánum núna. Jólakjólarnir farnir að sjást en væntanlega stutt í vortískuna...
Þess vegna fór ég í HogM í gær, eins og þúsund aðrar stúlkur (það eru alltaf a.m.k. þúsund manns í þessari búð) og valdi húfur og trefla á börnin. Lét nægja eitt sett fyrir Kára enda eru það foreldrarnir sem klæða hann úr og í og fötin hans eru geymd í skáp svo minni hætta er á týningum þar þessa tvo daga sem hann fer úr okkar umsjá. Hins vegar keypti ég þrennar húfur og ætlaði að kaupa þrenna vettlinga en eitthvað virðist hafa týnst (sko, strax byrjað!) úr hrúgunni - það er ekki boðið upp á körfur í HogM - svo hún á þrennar húfur og tvenna vettlinga og svo bara einn trefil því ég fékk allt í einu samviskubit yfir því að vera með of mikið og hætti við annan trefil en nú sé ég að það er fásinna því ekki kemur til mála að hún fái einn af mínum þrjátíuogþremur treflum lánaða þegar hún týnir sínum og þarf víst að henda mér aftur inn í brjálæðið þarna í HogM til að kaupa meira af hlýju.
Ég gæti auðvitað farið í t.d. Carrefour sem er svo stórt að þó að þar væri öll Reykjavík er samt pláss því það eru ekki GANGAR milli rekkanna þar heldur BÚLUVARÐAR. Málið er að Svíarnir eru bæði smartastir (og það skiptir vissulega máli fyrir smekkmanneskju eins og mig) og líka þeir einu sem bjóða náttúruleg efni á þessu viðráðanlega verði. Ég gæti ekki, þó mér yrði borgað fyrir það, sett hundrað prósent nælon á höfuð og kringum háls barna minna. Jú, kannski flísið, enda reyndust vettlingar Kára verða flísmúffur. Flísið er líklega eina gerfiefnið sem ég get nokkuð sætt mig við. Þó ég noti afar lítið flottu dísæn flíspeysuna úr 66N sjálf og kjósi alltaf heldur aðra af tveimur lopapeysunum sem ég á eftir ömmu mína heitna.
Elsku amma. Mikið sem ég gæti bloggað um hana og er hún mér einmitt sterklega í huga þessa dagana þar sem ég sit með tunguna út á kinn (ekki ýkjur, ég áttaði mig á þessu í metró í gær, smá meðvituð um að fólk var að glápa á aðfarir mínar með heklunálina) að draga lykkjur gegnum lykkjur. Það er ótrúlegt að hún amma skyldi hafa þessa þolinmæði sem hún hafði þegar hún sat við að kenna okkur stúfunum sínum að prjóna. Ég átti alltaf í mestu erfiðleikum með að halda garninu strekktu og það er einmitt mitt helsta vandamál núna í heklinu. Þó ég vefji vel upp á litla fingur tekst mér alltaf að glenna vísifingur of langt út og... well, ég ætla að hlífa ykkur, geri mér grein fyrir að ekki hafa margir áhuga á þessu. Mér finnst þetta hins vegar príma skemmtilegt þó að afraksturinn sé bágur enn sem komið er. Allt rakið upp eftir blóð svita og tár. Sem amma reyndi einmitt alltaf að útskýra fyrir okkur að væri stundum nauðsynlegt og þá vildi ég ekki trúa henni en skil svo vel núna. Það borgar sig ekki að geyma uppásnúnar beyglaðar og misgötóttar prufur heldur á að byrja aftur og aftur þar til maður er fullkomlega ánægður. Eða ég vona að einn góðan veðurdag verði ég fullkomlega ánægð og þá lofa ég því að barbídúkkan verður gersamlega fordekruð! (vil sko ekki setja takmarkið hærra en á barbísjal enn þó ég neyðist til að viðurkenna að í dimmustu hugskotum leynist ég í silki-móher peysusetti eftir sjálfa mig).

Af bílamálum er ekkert að frétta. Það eru allir svo uppteknir við eigin líf að enginn hefur getað komið og athugað það eina sem hægt er að athuga áður en ég neyðist til að fara út í stóran fjárútaustur við að koma bílnum á verkstæði og flikka upp á hann.
Af tölvumálum er heldur ekkert að frétta þar sem húfuleiðangurinn var of erfiður í gær. Á dagskránni í dag. Búin að brynja mig upp af þolinmæði gagnvart manni sem mun líta niður á mig fyrir vanþekkingu og aulagang og reyna að komast hjá því að laga það sem þeim ber að laga og og og... ferlega kvíður manni alltaf að þurfa að eiga viðskipti við fólk í stórverslununum. Ef hægt er að kalla þessi vinnudýr fólk. Þau fara á námskeið og læra að vera vélmenni. Endurtaka sömu setningarnar með undarlega frosið bros á frosnu andliti. Þess vegna á maður alltaf að versla í litlum búðum. Sem gleymist um leið og stórverslanirnar slá upp risatilboðum sem ekki er hægt að hafna. Djöfull kvíði ég fyrir.

Lifið í friði.

19.10.05

hjálp!

Ljúfa missti af pistli hjá mér um daginn og lái ég henni ekki, hef verið með hálfgerða bloggræpu undanfarið. Stafar að vissu leyti af því að ég var hálflasin OG bíllaus og hef því ekki verið mikið á ferðinni. Svo langar mig heldur ekkert að vera að flækjast um borgina einmitt núna, er ekki alveg komin úr rólegheitasveitagírnum og langar ekkert að hrökkva upp í stórborgargírinn alveg strax. Nógur tími til þess samt.
Ég er í mikilli angistarkvöl og krísu eftir nokkrar bréfaskriftir við vinkonur mínar sem allar eru spenntar yfir afmælinu stóra á mánudaginn. Mig langar svooooo að vera með líka. Oh. Ég vildi að ég ætti flugfélag og gæti skroppið þegar ég vildi. Greinin í Guardian er stórfín en við vinkonurnar erum allar sammála um að EKKI eigi að mæta með potta og pönnur til að vera með læti. Ó nei, þetta á að vera smart og kvenlegt, við þurfum ekki að stíga niður á eitthvað ungbarnastig þó við fáum okkur frí með stelpunum einn eftirmiðdag. Nei, við erum flottar og fínar og hegðum okkur alltaf mjög vel með stelpunum.
Mér finnst að allar eigi að hafa hvíta rós með sér.
Hvítt er litur sorgarinnar en í þessum degi er líka pínulítil sorg. Sorg yfir þeim konum sem voru þá en eru ekki lengur á lífi. Yfir því hversu langt er enn í land með almennilegt alvöru algebrulega skothelt jafnrétti á Íslandi. Yfir því að karlmenn eru víst og verða alltaf karlmenn og þess vegna hvín nú í körlum víðs vegar um landið sem finnst óréttlátt að fyrirtækin ætli að veita konunum frí. Ha? Er ekki í lagi heima hjá sumum?
En rós er alltaf rós og er blóm okkar kvenna. Hvort sem við þiggjum þau af körlum eða færum þau karli eða konu.
Ég vildi óska þess að ég gæti verið þarna. Verð með ykkur í anda og langar að geta hlustað á útvarpið sem er einmitt það sem þessi pistill á að fjalla um:
Ég er komin með nýja tölvu á heimilið. Pínulitla og fallega ibook. Hún er með Tiger stýrikerfið og mér tekst ekki að hlaða windows media player inn í hana. Hún segir að einhverja "application" vanti. Segir samt ekki hvaða. Getur einhver hjálpað?
Reyndar er annað vandamál sem ég þarf að fara með til sölustaðarins, hún getur víst ekki brennt diska heldur og varar við því þegar ég ræsi dvd-spilarann. En hvaða applikasjónir þarf maður fyrir wmp? Ég setti hann inn án nokkurra vandræða í gamla jálkinn (svo eyðilagði ég hann og hef ekki getað hlustað á RÚV síðan en það er önnur saga).
Mig langar svoooo að geta hlustað á fréttir og viðtöl sem ég býst við að verði í kringum þetta á mánudaginn.
Ég elska konur. Ég elska femínisma. Ég var þarna 1975 og man vel eftir söngnum og hvað mér fannst þær flottar í pilsum og stígvélum, dálítið eins og tískan er í dag. Ég varð rauðsokka með móðurmjólkinni og kann móður minni bestu þakkir fyrir það. Vonandi getur einhver hjálpað mér.

Svo ef einhver kann að gera við gersamlega dauðan bíl sem startast ekki einu sinni með startköplum má hann koma í heimsókn. Ég skal borga með gönguferð um alla borg.

Lifið í friði.

18.10.05

Jólin koma

Þið sem eruð hneyksluð á fyrirtækjum fyrir að vera byrjuð með jólaauglýsingar og -útstillingar ættuð að kíkja inn á síðu Nönnu og lesa kommentin við smákökuspurninguna. Ég er búin að liggja yfir mögulegum dagsetningum á heimferð í desember og spá og spekúlera í ýmsu varðandi það og var komin með nettan fiðring en við lesturinn fylltist munnur minn af jólabragði og jólastemningin hríslaðist um kroppin.
Ég undrast oft hvað mamma var dugleg að baka þangað til að einn veturinn henti hún svo til öllum bakstrinum um páskana. Ég man líka að aðrar mömmur í blokkinni bökuðu þessar skrýtnu kökur eins og gyðingakökur og spesíur. Mamma bakaði piparkökur, loftkökur, vanilluhringi (eða kransa?) og súkkulaðibitakökur. Ég átti lengi í vandræðum með þær því eitt sinn var mamma aðeins of lengi í símanum og á meðan át ég allt deigið og varð hrikalega veik um nóttina. Í dag þykja mér þær hið mesta lostæti enda súkkulaði í þeim. Súkkulaði. MMMM, ha, nei, úpps, matardagbók matardagbók matardagbók. Hugsa um eitthvað annað. Haframjöl, mjólk, tómatar, súkk... ó nei!

Lifið í friði.

morgunverður

Í nýhafinni matardagbók kom fram um hádegisbilið að ég hafði sleppt morgunmat. Það er ósiður sem ég hef lengi barist við, ég vakna yfirleitt hálfsvöng en er samt hálfóglatt og svo drekk ég kaffi og ákveð að borða seinna og svo fer ég að gera hluti og svo er ég sársvöng um ellefuleytið og þá er of stutt í hádegismat... nú er klukkan 9.50 og ég ætla fram í eldhús að fá mér múslí með mjólk. Og hana nú!

Og fyrir Þórdísi (og aðra sem forvitnir eru): Það hjálpar óneitanlega til við þetta að við hjónin ákváðum að fara í smá vínbindindi fram í desember. Þ.e.a.s. að við drekkum ekki bara tvö saman, bara ef við fáum gesti eða okkur er boðið eitthvert. Illar tungur hlógu nú að okkur og búast við matarboðum í lange baner en hingað til erum við sterk og dugleg. Ég verð samt að viðurkenna að í gærkvöldi þurfti ég að berjast við ósjálfráðar hreyfingar þegar ég lagði á borð og var næstum búin að taka fram vínglösin og tappatogarann.
Sterk og dugleg. Lýsir okkur best.

Lifið í friði.

barnalega konan og vinkona hennar

Það vantar algerlega tvö skemmtileg dæmi í söguna hér neðar um barnalegu konuna.
Hún er alls ekki eina barnalega konan í heiminum og margar vinkvenna hennar tilheyra þessum undarlega hópi fólks. Þannig lenti ein þeirra í því að þegar hún fór til að innrita son sinn í skóla, kom skólastjórinn til hennar þar sem hún stóð í ganginum, klappaði vinalega á öxl hennar og spurði: "Ert þú að koma í 10. bekk hjá okkur vinan?" Hann varð eins og kúkur í framan þegar hún útskýrði erindi sitt og forðaðist hana í nokkurn tíma eftir þetta.

Barnalega konan sjálf kenndi einn vetur valfag í menntaskóla. Hún þurfti afar sjaldan að koma inn á kennarastofuna en það brást ekki, í hvert skipti sem hún gekk þar inn spurði kaffisölukonan hana væmnislega: "Já, vinan, hvað vantar þig?" Og varð alltaf jafn kúkaleg í framan þegar ég sagðist kenna hjá þeim og líklega kúkalegri í hvert skipti.

Lifið í friði.

p.s. þið verðið að kíkja á barnið hennar Möggubest, glænýr tengill hjá mér.

17.10.05

Sjálfsskoðun

Komst að því á smá bloggtölti áðan að ég er foodporn-perri. Hef og mun líklega aldrei skilja sjálfa mig en þetta bætir við púsluspilið.

Lifið í friði.

nýtt líf?

Í dag hóf ég að skrifa matardagbók. Í dag bruggaði ég mér bolla af grænu tei í fyrsta sinn í margar vikur. Hvað ætli góðar fyrirætlanir mínar um betri lífsstíl muni endast lengi? Verð ég kannski orðin heklandi hörklædd lífræn fyrirmyndarhúsmóðir alltaf með grænt á könnunni áður en árið er liðið?

Ég er alltaf að rembast við að skilja eftir spurnarpistla, en fátt þykir mér um svör. Enda þarf ég svo sem ekkert á svörum við þessum spurningum að halda, meira svona að hugsa upphátt kannski. Ykkur er fyrirgefið og megið vera þöglir lesendur áfram. Greyin mín.

Lifið í friði.

tvennt og tvennt í viðbót við það

Tvennt liggur mér á hjarta áður en ég byrja að vinna:

1. Lesbókin. Mér finnst hún vera mjög fín og skemmtileg aflestrar oftast. Hins vegar finnst mér þetta einum of uppskrúfað stundum og algerlega vanta í hana persónulegar upplýsingar um fólkið sem ritað er um. Ég er ekki að biðja um neinn Séð og Heyrt stíl en það má samt alveg láta okkur leikmenn vita hver er maki listamannsins og aldur og svona. Ha? Stundum er ég alveg að drepast úr forvitni um slíkt meðan ég les vitrar analýsur á listinni og missi alveg af vitruninni fyrir vikið.

2. Íslandshatur á Makkanum. Hef lent í ýmsum vandræðum í gegnum tíðina fyrir að vera Makkari og fundið fyrir vorkunnsemi eins og ég væri fötluð eða gift múslíma sem píndi mig til að vera með slæðu þegar ég hef þurft á hjálp frá íslenskum tæknimönnum að halda. Nú síðast ákvað ég að bæta íslenskt tónlistarsafn mitt örlítið og fjárhag íslenskra tónlistarmanna um leið og viti menn, Tónlist.is býður ekki Mökkurum upp á að kaupa hjá sér!

Annað hef ég ekki fram að færa á þessum mánudagsmorgni. Jú, annars eitt enn: Mæli eindregið með ferdalangur.net, alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast þar. Hvet ykkur til að skrá ykkur í áskrift að fréttabréfinu hennar.

Og enn annað: Tékkið á nýjasta og áreiðanlega mest spennandi bókasafni Íslands, Bókasafni Andspyrnu í Tónlistarþróunarstöðinni Hólmaslóð 2 (hvar í fjandanum sem það nú er). Einnig er útibú hjá snilldarhjónunum í Ranimosk á Klapparstígnum við hliðina á Nonnabúð (veit sko alveg hvar það er). Ókeypis útlán og enginn fer á lista svo óþarfi fyrir alla SUS-arana sem lesa mig að vera hræddir við að opna hug sinn örlítið í laumi.

Lifið í friði.

16.10.05

valkvölin

Líf mitt hefur flækst til muna: Í stund milli stríða, hekla eða lesa?
Kannski ég verði að tékka á hljóðbókum á bókasafninu?

Lifið í friði.

14.10.05

barnalega konan

Einu sinni var kona sem var barnaleg með afbrigðum. Ekki kannski inni í sér, og þó... líka kannski dálítið stundum... en aldurinn bara virtist ekki geta ákveðið sig að færast eðlilega yfir hana eins og aðra í kringum hana. Framan af þótti henni þetta nokkuð skemmtilegt, sérstaklega þegar hún var mjög ung og naut hróssins yfir því hvað hún "skrifaði rosalega vel" án þess að geta þess að hún væri átta ára en ekki fimm ára við konuna á pósthúsinu og borgaði barnamiða í strætó alveg þangað til að hún byrjaði í MR, en þá fattaði strætóbílstjórinn að hún gæti ekki verið tólf ára lengur. Já, það er ekki að vitinu í strætóbílstjórum að hæða.
Meira pirrandi var að komast ekki svo glatt inn á skemmtistaðina ÁÐUR en maður hafði aldur til, til dæmis var vinahópnum oft hent úr Fellahelli bara út af henni og svo reyndist Fellahellir óspennandi staður þegar nafnskírteinið var komið úr plastpressunni og þá var tími til að redda sér annarrar konu skírteini til að komast í D14, Best og Traffic.
Og svo lenti hún einu sinni í frekar pirrandi dæmi þegar hún ætlaði að skella sér á hallærislega tískusýningu í Tunglinu vegna þess að gður vinur var óforvarendis orðinn módel því hann þótti svo skemmtilega ljótur og barnalega konan þurfti að berjast gegnum blindhríð hálfan hring kringum Tjörnina til að sækja ökuskírteinið í bílinn. Dyravörðurinn stóð fastur á því að barnið kæmist sko ekki inn á þessa tískusýningu þar sem áfengi var í boði! Mest pirrandi var að konan hafði ansi oft svindlað sér inn á Tunglið UNDIR röðina, framhjá dyraverðinum og notfærði sér þar líkamlega smæð sína sem ýtti vitanlega alltaf undir barnalegt útlitið. Henni hafði bara ekki dottið í hug að leggjast svo lágt á venjulegu miðvikudagskvöldi bláedrú.
Áfengiskaup voru aldrei vandamál og eftir að konan hafði aldurinn til að fara sjálf í Ríkið hafði hún orðið mjög gaman af því að vera ungleg og í raun var það erfitt skref fyrir hana að stíga að sætta sig við það 28 ára gömul að vera ekki lengur beðin um skilríki á þeim fróma stað.
Í dag vinnur konan vinnu þar sem hún hittir nýtt og nýtt fólk í hverri viku. Hún var mjög fljót að átta sig á því að gott var að koma réttum aldri að í viðkynningum sínum sem fljótast því stundum fór um ferðamenn að vera aleinir í stórborg upp á barn komnir!
Síðasta skondna atvikið sem henti hana í sambandi við aldurinn var þegar hún var orðin ófrísk að seinna barninu og mætti stolt með nýsprottna bumbuna á kaffihús sem hún stundaði reglulega. Konan í afgreiðslunni hrópaði upp yfir sig: "Eruð þér ófrískar aftur ungfrú? Hvað eruð þér eiginlega gamlar?" Hún hafði þá alltaf litið á eldra barnið sem leiðinlegt slys fyrir unglingsstúlku. Barnalega konan strauk bumbuna værðarlega og glotti út í annað: 34 ára og klukkan tifar!
Nú er barnalega konan orðin 36 ára og þakkar allar kveðjur sem henni bárust í kringum afmælisdaginn.

Lifið í friði.

roop

þurfti bara aðeins að laga stemninguna eftir ofurvæmna síðustu setningu í síðustu færslu

lifið í friði

bækur og sma Spann

Ég er búin að juða í mig ýmislegt misviturt og skemmtilegt um bókmenntir. Ég hef svo sem engu við að bæta enda má segja það sama um Lesbókargreinar og pistla á bloggum að ef þeim er ekki svarað strax finnst manni það vera of seint. Að lesa greinar frá 17. september er eins og að glugga í blöð frá gömlum gleymdum tíma. Eða hvað? Er ég kannski bara að fela mig af feimni við að svara jafn klárum gögum og Hermanni og Eiríki eða jafn sterkum gaga og Kristjáni?
Annars finnst mér flottustu skrifin vera Torfa Tuliniuss um Paul Auster. Í sjálfu sér sýnir sú grein að allt raus um dauða og upprisu og svartsýni og snobb er grundlaust hjal. En ég blogga kannski meira um þetta allt saman síðar. Þegar ég hef melt þetta með mér.

Varðandi Spánarferð er vert að koma því að að við hjónin náðum að kíkja á einhvers konar alvöru Spán einn morgun þegar við ókum á brott frá ömmunni með börnin til Orihuela. Vonandi setti ég háið á réttan stað. Sú borg er kannski ekki fegursta borg á jarðríkinu en öllu skemmtilegri en Lególandið sem við bjuggum í. Eftir ráf um götur borgarinnar og nokkrar kirkjuskoðanir og annað skemmtilegt var mér orðið illilega mál að pissa og við orðin þokkalega svöng. Erfiðlega gekk að finna veitingahús og eftir stefnuleysislega leit hnippti ég í manninn minn, benti á litla og þrönga götu beint á móti Benetton og tilkynnti honum að í þessari götu væri staðurinn. Og viti menn, norninni í mér hafði ekki brugðist bogalistin. Þarna var lítil tasqua (sem ég giska á að þýði eitthvað svipað og restaurant þó ég hafi ekki græna glóru um það) sem hét Pepe og hann sjálfur stóð bak við barinn. Hann talaði ekki eitt orð í ensku, skildi ekki einu sinni yes. Ekki þóttust nokkrir viðskiptavinir sem sátu þarna með vino tinto og tapas geta hjálpað nokkuð. Allir voru þeir, eins og Pepe sjálfur það sem Íslendingar myndu dæma sem elliheimilismat, pínulitlir, hrjúfir og gamlir. Við völdum tapas úr borðinu (guði sé lof fyrir tapasborðin) og hann spurði okkur einhvers og við kinkuðum kolli og svo gátum við beðið um cerveza og agua con gas áfallalaust.
Eftir smá bið kom bolli með tveimur teskeiðum og rjúkandi seyði og tveimur kjötbollum og einni hvítri bollu sem við gátum ekki defínerað. Þetta borðuðum við með bestu lyst, mjög gott. Tapasin voru rækjur með miklum hvítlauk og saltfiskstautar. Ekki var meira úrval hjá honum nema hann hafi lumað á einhverju fleiru en þessari undarlegu kjötsúpu aftur í eldhúsi þar sem konan hans ríkti.
Eins og allir Spánverjar sem ég sá í þessari ferð voru andlit Pepe og viðskiptavina hans uppljómuð af einhvers konar brosi án þess að munnurinn væri í brosi. Ljúfir og yndislegir og hjálplegir með afbrigðum eru orðin sem ég vil nota til að lýsa Spánverjum.

Lifið í friði.

æ æ æ

Ég vissi að það var eitthvað sem ég var að gleyma, ég gat bara ekki munað hvað það var.

Lifið í friði.

13.10.05

eftir bloggrúnt

Eftir smá bloggrúnt sé ég að heimurinn breytist lítið þó að oft hafi mig langað að svara margra vikna gömlum færslum en það gefur auga leið að það er vonlaust. Líklega lifir bloggfærsla eingöngu fram að næstu færslu, kannski tvo þrjá daga í viðbót við það.
Helst að maður hafi eitthvað að segja um stúlkuna sem var misnotuð fyrir framan nefið á skólayfirvöldum og nágrönnum sem stóðu ósjálfbjarga og horfðu á. Vitanlega samsek. Allir sem þegja og láta svona viðgangast eru samsekir. Mér er skítsama um að það er hrikalega erfitt að skipta sér af svona málum, það er samt alltaf hægt eins og allt annað þegar viljinn er fyrir hendi.
Ég var mjög glöð að komast að því að ég á góða nágranna þegar hér um árið hófust skyndilega afar hávaðasamar ryskingar í stigaganginum. Það var 11 ára gamla stúlkan á 2. hæð sem öskraði og grét hástöfum undan barsmíðum mannsins sem hún þarf að búa hjá þar sem foreldrar hennar eru pappírslaus og geta ekki haft hana í einhverju viðbjóðslegu greni sem þau þurfa að fela sig í. Við stukkum fram á gang og það kom fólk úr hverri einustu íbúð fram með okkur. Við reyndumst sterkur her gegn mannfíflinu og lögreglan var m.a.s. strax sótt á staðinn. Reyndar hefur nú tekist að reka mennina úr húsinu og dálítið erfitt að vita ekki almennilega hvað varð um stúlkuna, en ég hitti hana um daginn og bar hún sig vel. Fólk í eymd og volæði ber sig oft vel. Brosir og ber höfuðið hátt því auðvitað er erfitt og vont að láta vorkenna sér og viðurkenna að maður þurfi á hjálp. Eru það ekki bara aumingjar sem þurfa hjálp?
Mér finnst a.m.k. gott að vita til þess að fólkið í húsinu mínu skiptir sér af málum nágranna sinna þegar því ofbýður. Hugmyndin um stórborgir þar sem hlutir gerast án afskiptasemi er kannski röng. Kannski er auðveldara að "fela" sig og glæpi sína í litla þorpinu þar sem öll afskiptasemi verður strax mjög persónuleg?

En ég er sammála Pullu um að ekki ætla ég að lesa bókina. Ég hef ekki taugar í alvöru óhugnað. Þess vegna finnst mér kannski svona gaman að lesa platóhugnað.

Lifið í friði.

heimkoma

Ég var síst að skilja pirringinn í mér. Búin að opna búnka af gluggaumslögum og rita langan lista af fólki og stofnunum sem þarf að hringja í en veigra mér við það því ég er hálfraddlaus. Stofan troðfull af ferðatöskum troðfullum af sandi og skítugum fötum (en umm hvað saltlyktin er samt góð). Enginn sjór fyrir utan gluggann, engin mamma og pabbi, bara hversdagurinn kominn aftur. Ég var síst að skilja þetta þar til mér var gengið inn í svefnherbergið og sá þar kaffibollann minn ósnertan og ískaldan. Ha? Gleymdi ég að drekka kaffið mitt? Það hlaut að vera!

6.10.05

elskurnar mínar

Thar sem ég ligg eins og hvalur á strámottu á strond í sól og sumaryl, thegar eg geng óoruggum skrefum út í svalan sjó, thegar ég skrepp á barinn og kaupi mér tapas, thegar ég dansa fugladansinn med bornunum og afanum, thegar fyrsta rosavínsglasid er fyllt og bara meira ad segja thegar eg skríd í rúmid adframkomin af drykkju og sól erud thid alltaf fremst í huga mínum.
Ég bara get ekki haett ad hugsa um ykkur. Vorkenni ykkur ógurlega fyrir fjarveru mína. Ad thid skulid ekki oll geta verid hérna med mér á strondinni.
Sjórinn er náttúruundur og samt staersta klósett og ruslatunna í heiminum. Skamm skamm fólk og menning sem rímar vid kenning. Skamm skamm bresk lyklabord sem eru ekki med íslenska stafi. Skamm skamm Kristín fyrir ad vera hér inni á bresku netkaffi í stadinn fyrir ad sitja í sandinum med fotu og skóflu og alsael born.
Hélt ég vaeri ad fara til Spánar en hef ekki hitt einn einasta Spánverja enn. Smá ýkjur en ekki miklar samt. Hér hafa Bretar numid land enda ólíft heima hjá theim fyrir Pakistonum sagdi einn íslensku landnemanna grafalvarlegur á svip vid mig um daginn. Hvar sem Bretar byggja bae heima hjá sér er komin moska og arababúllur ádur en their vita af. Hér eru ekki kirkjur. Bara breskir og írskir pobbar. Og bjór. Og konan í búdinni veit ekki hvad Gazpacho er. Spánn! Hvar ertu?
Annars hef ég thad drullugott, ekki hafa neinar áhyggjur af mér. Barnvaent svaedi og gott ad vera med fjoskyldunni.

Lifid i fridi.