18.10.05

morgunverður

Í nýhafinni matardagbók kom fram um hádegisbilið að ég hafði sleppt morgunmat. Það er ósiður sem ég hef lengi barist við, ég vakna yfirleitt hálfsvöng en er samt hálfóglatt og svo drekk ég kaffi og ákveð að borða seinna og svo fer ég að gera hluti og svo er ég sársvöng um ellefuleytið og þá er of stutt í hádegismat... nú er klukkan 9.50 og ég ætla fram í eldhús að fá mér múslí með mjólk. Og hana nú!

Og fyrir Þórdísi (og aðra sem forvitnir eru): Það hjálpar óneitanlega til við þetta að við hjónin ákváðum að fara í smá vínbindindi fram í desember. Þ.e.a.s. að við drekkum ekki bara tvö saman, bara ef við fáum gesti eða okkur er boðið eitthvert. Illar tungur hlógu nú að okkur og búast við matarboðum í lange baner en hingað til erum við sterk og dugleg. Ég verð samt að viðurkenna að í gærkvöldi þurfti ég að berjast við ósjálfráðar hreyfingar þegar ég lagði á borð og var næstum búin að taka fram vínglösin og tappatogarann.
Sterk og dugleg. Lýsir okkur best.

Lifið í friði.