26.10.05

bless elskurnar

Ég er mikið að velta vöngum yfir vangaveltum Vésteins (vangaveltur-vesteins.blogspot.com) um það að kvennabaráttan snúist um ranga hluti. Sem var einmitt að vefjast fyrir mér í pistlinum á undan. Eru það meiri peningar sem við viljum? Er hægt að mæla manngildi í peningum? Er það ekki einmitt samþykkt þessa ofurkapítalíska þjóðfélags sem trúir því virkilega (sjáið athugasemdina sem ég fékk fyrir neðan) að það gefi lífinu GILDI að þurfa að "berjast" fyrir hærri launum? Að það sé leyndardómur hamingjunnar. Að ef við þurfum ekki lengur að "berjast" að ákveðnum fjárhagslegum takmörkum verði óhjákvæmilega stöðnun og rotnun?
Mér finnst það næstum ómöguleg tilhugsun að ég þurfi að skrifa undir það að öskra á hærri laun og meira af háum stöðum í þjóðfélagspýramída sem ég fyrirlít. Ég er ekki sammála öllu hjá Vésteini og þessar pælingar breyta engu um það að mér fannst þessi fundur á mánudag og þessi mikla þáttaka vera eitthvað merkilegt og fallegt. Og ég held að það sé hálfgert einsdæmi í heiminum hvernig konur ná að standa saman á Íslandi, vera vinkonur og elska hver aðra, burtséð frá stéttaskiptingu og pólitískum skoðunum. Við konur og kannski við Íslendingar öll, afmáum mjög auðveldlega þessi "gildi", lítum sjaldan á mismikla menntun eða misstóra bankareikninga sem hindranir í að eiga samskipti okkar á milli og ég hef ekki séð dæmi um þetta í nokkru öðru landi. Hvorki í Frakklandi né í Danmörku sem eru ríkin sem ég þekki best.
Margar vinkvenna minna kjósa allt aðra flokka en ég myndi nokkurn tímann gera en ég elska þær og virði þeirra skoðanir þó mig dreymi auðvitað stundum um að leiða þær á "réttar" brautir. Hvað er rétt og rangt? Maður trúir einhverju og svo trúa aðrir einhverju allt öðru og hvað með það? Höfum við ekki öll rétt til að trúa því sem við viljum? Trúfrelsi.
Kannski hafa konur látið launabaráttuna sitja dálítið á hakanum og því orðið undir einmitt vegna þess að við höfum minni áhuga á að græða meira og meira af peningum. Okkar áhugamál liggja annars staðar, í mannréttindum og annars konar bótum á þjóðfélaginu okkar. Kannski. En kannski erum við bara kapítalískir lúserar. Kannski.

Ég er farin í sveitina fram á sunnudag. Burt frá tölvum og börnum og kalli. Ætla að mála meira af hillum og skápum. Lofa myndum eins og ég geri alltaf, sé til hvort ég stend við það í þetta sinn.

Lifið í friði og verið þæg og góð hvert við annað.