Hlýja til sölu
Hér er enn 17-19 stiga hiti þó að sólin sé feimin og feli sig bak við skýin. En í gær fór ég samt í pílagrímaferð hagsýnu húsmóðurinnar niður í HogM til að kaupa húfur og trefla á börnin. Það er nefninlega svo, að þó maður eigi stundum erfitt með að læra af reynslunni er ýmislegt að síast inn með árunum og þó maður sé gleyminn man maður sumt afskaplega vel. Þannig eru mér í fersku minni allar skammirnar sem ég fékk yfir týndum húfum, treflum og vettlingum og eftir áralanga dvöl í París veit ég að maður á að kaupa bikini í mars og húfur og trefla í október í síðasta lagi. Millistuttar kápur fást í ágúst, síðkápurnar eru á slánum núna. Jólakjólarnir farnir að sjást en væntanlega stutt í vortískuna...Þess vegna fór ég í HogM í gær, eins og þúsund aðrar stúlkur (það eru alltaf a.m.k. þúsund manns í þessari búð) og valdi húfur og trefla á börnin. Lét nægja eitt sett fyrir Kára enda eru það foreldrarnir sem klæða hann úr og í og fötin hans eru geymd í skáp svo minni hætta er á týningum þar þessa tvo daga sem hann fer úr okkar umsjá. Hins vegar keypti ég þrennar húfur og ætlaði að kaupa þrenna vettlinga en eitthvað virðist hafa týnst (sko, strax byrjað!) úr hrúgunni - það er ekki boðið upp á körfur í HogM - svo hún á þrennar húfur og tvenna vettlinga og svo bara einn trefil því ég fékk allt í einu samviskubit yfir því að vera með of mikið og hætti við annan trefil en nú sé ég að það er fásinna því ekki kemur til mála að hún fái einn af mínum þrjátíuogþremur treflum lánaða þegar hún týnir sínum og þarf víst að henda mér aftur inn í brjálæðið þarna í HogM til að kaupa meira af hlýju.
Ég gæti auðvitað farið í t.d. Carrefour sem er svo stórt að þó að þar væri öll Reykjavík er samt pláss því það eru ekki GANGAR milli rekkanna þar heldur BÚLUVARÐAR. Málið er að Svíarnir eru bæði smartastir (og það skiptir vissulega máli fyrir smekkmanneskju eins og mig) og líka þeir einu sem bjóða náttúruleg efni á þessu viðráðanlega verði. Ég gæti ekki, þó mér yrði borgað fyrir það, sett hundrað prósent nælon á höfuð og kringum háls barna minna. Jú, kannski flísið, enda reyndust vettlingar Kára verða flísmúffur. Flísið er líklega eina gerfiefnið sem ég get nokkuð sætt mig við. Þó ég noti afar lítið flottu dísæn flíspeysuna úr 66N sjálf og kjósi alltaf heldur aðra af tveimur lopapeysunum sem ég á eftir ömmu mína heitna.
Elsku amma. Mikið sem ég gæti bloggað um hana og er hún mér einmitt sterklega í huga þessa dagana þar sem ég sit með tunguna út á kinn (ekki ýkjur, ég áttaði mig á þessu í metró í gær, smá meðvituð um að fólk var að glápa á aðfarir mínar með heklunálina) að draga lykkjur gegnum lykkjur. Það er ótrúlegt að hún amma skyldi hafa þessa þolinmæði sem hún hafði þegar hún sat við að kenna okkur stúfunum sínum að prjóna. Ég átti alltaf í mestu erfiðleikum með að halda garninu strekktu og það er einmitt mitt helsta vandamál núna í heklinu. Þó ég vefji vel upp á litla fingur tekst mér alltaf að glenna vísifingur of langt út og... well, ég ætla að hlífa ykkur, geri mér grein fyrir að ekki hafa margir áhuga á þessu. Mér finnst þetta hins vegar príma skemmtilegt þó að afraksturinn sé bágur enn sem komið er. Allt rakið upp eftir blóð svita og tár. Sem amma reyndi einmitt alltaf að útskýra fyrir okkur að væri stundum nauðsynlegt og þá vildi ég ekki trúa henni en skil svo vel núna. Það borgar sig ekki að geyma uppásnúnar beyglaðar og misgötóttar prufur heldur á að byrja aftur og aftur þar til maður er fullkomlega ánægður. Eða ég vona að einn góðan veðurdag verði ég fullkomlega ánægð og þá lofa ég því að barbídúkkan verður gersamlega fordekruð! (vil sko ekki setja takmarkið hærra en á barbísjal enn þó ég neyðist til að viðurkenna að í dimmustu hugskotum leynist ég í silki-móher peysusetti eftir sjálfa mig).
Af bílamálum er ekkert að frétta. Það eru allir svo uppteknir við eigin líf að enginn hefur getað komið og athugað það eina sem hægt er að athuga áður en ég neyðist til að fara út í stóran fjárútaustur við að koma bílnum á verkstæði og flikka upp á hann.
Af tölvumálum er heldur ekkert að frétta þar sem húfuleiðangurinn var of erfiður í gær. Á dagskránni í dag. Búin að brynja mig upp af þolinmæði gagnvart manni sem mun líta niður á mig fyrir vanþekkingu og aulagang og reyna að komast hjá því að laga það sem þeim ber að laga og og og... ferlega kvíður manni alltaf að þurfa að eiga viðskipti við fólk í stórverslununum. Ef hægt er að kalla þessi vinnudýr fólk. Þau fara á námskeið og læra að vera vélmenni. Endurtaka sömu setningarnar með undarlega frosið bros á frosnu andliti. Þess vegna á maður alltaf að versla í litlum búðum. Sem gleymist um leið og stórverslanirnar slá upp risatilboðum sem ekki er hægt að hafna. Djöfull kvíði ég fyrir.
Lifið í friði.
<< Home