31.10.05

oh baby baby it's a wild world

Komin aftur í bæinn og biðst afsökunar á færslunni sem ég skildi eftir í fimm, sex daga. Auðvitað verðum við að berjast fyrir gildismati í peningum í þessu þjóðfélagi. Auðvitað. Lesið "skammirnar" sem ég fékk í kommentakerfinu, þakka þær og hef engu við að bæta... í bili. En bendi hins vegar á það að það er rétt hjá Meó, karlhelvítin eru með mestu neikvæðnina og hæðnina gagnvart þessu.
Svo legg ég til að næsta afmæli verði skipulagt af Þórdísi og að í boði FL verði öllum konunum flogið til Parísar, þar sem öll stóru konungatorgin eru og eitt þeirra verður hertekið og svo verður pique-nique við Signubakka um kvöldið...

Annars eru blendnar tilfinningar í huga mér einmitt núna. Okkur stöllum gekk gífurlega vel í vinnuferð í sveitinni, máluðum og pússuðum og aðallega pússuðum og mér er illt í hægri hendi við að pikka á tölvuna og nú eigum við fullt af litlum fínum hillum og ýmislegt að selja og nú er bara að finna út úr því hvar við getum selt og fyrir hvað mikið og og og... veröldin er villt og ég er villtari, áttavillt stúlka á leiðinni út í alvöru heim, heim karlmannanna, sölumannanna, græðginnar og framagirninnar, verðum við frægar, verður eftir okkur tekið, verðum við komnar með fagra karlmenn með stinna bossa í vinnu við að pússa áður en við vitum af?

Ég er svo manísk einmitt núna að ég væri pottþétt að hlaða inn myndum í þessarri andránni ef ég fyndi helv djö ansdsk snúruna milli vélarinnar og vélarinnar bis. Gæti grátið af frústrasjón og pirringi. Hvert í jevla fór snúran? Leyfi börnunum ekki að leika sér við slíkt dót svo ég hlyti, HLYTI að hafa tekið hana af þeim. Eða hvað? Er hún kannski inni í draslinu þeirra? Eða bak við gömlu bókahilluna hérna? Hún hékk alltaf hér hjá dagatalinu á nagla á sínum stað og nú einmitt nú þegar mikið liggur við er hún ekki á sínum stað.
Best að fara að leita, get ekki beðið eftir að fá viðbrögð frá lesendum mínum.

En hér kemur bloggið sem mig langaði mikið að blogga, snúru og vélarlaus í sveitinni á fimmtudagskvöld:
Hér er hiti og stjörnubjart.
Máluðum á hlírabolum og stuttbuxum í dag og sitjum úti við grillið að borða.
Október hvað?

Lifið í friði.