24.10.05

pælingar

Mikið hef ég séð ritað og spáð í kvennafrídaginn. Ég er búin að segja frá því hér að ég er mjög ánægð með þetta framtak en ég hef séð a.m.k. tvo bloggara sem ég virði mikils tala á móti þessari uppákomu í dag. Auðvitað verður maður að spá í það sem fólk sem maður virðir hefur að segja.
Hér í Frakklandi hefur mikið verið rætt um hópa, minnihlutahópa, skiptingu í hópa og hvort rétt sé að undirstrika einkenni ákveðinna hópa með ýmsum hætti. Til dæmis hefur áætlun um að halda Hýra ólympíuleika í París 2010 kveikt á umræðu um það hvort samkynhneigðir eigi eða þurfi að undirstrika það að þau séu "öðruvísi". Er samkynhneigt fólk ekki einmitt alltaf að berjast fyrir því að falla inn í hópinn, vera samþykkt sem eðlilegt fólk jafnt gagnkynhneigða eða kynlausa fólkinu?
Ég er alveg sammála því að auðvitað eru samkynhneigðir alveg eins og hinir og er alltaf jafn hissa þegar ég heyri talað um fordóma gegn þeim. Ennþá? Málið er að það eru bullandi fordómar gagnvart samkynhneigðum og þannig verður það áreiðanlega lengi enn. Þrátt fyrir að mörg fjöll hafi verið flutt úr stað og jafnvel nokkrum jafnað við jörðu er það sorgleg staðreynd að hrækt er framan í karla sem kyssast og sparkað í konur sem leiðast á götum út um allan heim, hvort sem það er í hinni frjálsu og opinhuga París, sem stjórnað er af myndugleik af samkynhneigðum manni eða í útkjálkaþorpi fullu af þröngsýnum "verkfærum Guðs". Þess vegna finnst ákveðnum aðilum ástæða til að sýna hópinn saman í fjöri og stuði (þetta á líka við um Gay Pride) í veikri von um að kannski sjái hinir "venjulegu" að allt er í lagi með hommana og lellurnar.
Það sama má segja um konur og jafnrétti. Margt hefur breyst svo mikið að maður trúir varla minningum sínum um hlutverkaskiptinguna sem ríkti á heimilum í Breiðholtinu fyrir þrjátíu árum síðan. Þá var öskrað að ekki yrði eldað í kvöld, sem færir glott á andlit okkar kvenna í dag. Eldað? Ha? Átti JónPalliGummi ekki hvort sem er að henda pastanu í pott í kvöld? Ég held að ég sé ekki að fara með fleipur, en ég þekki ekki nokkurt heimili þar sem konan eldar ein. Þessu er skipst á eins og flestum heimilisstörfum.
Hins vegar er það púra stærðfræði og það sér það hver heilvita maður að þessi launamismunur er eitthvað óheilbrigt fyrirbrigði, undarlegur skuggi á svokölluðu jafnrétti. 64,15 prósent! Það er næg ástæða fyrir mig til að langa til að ganga, ásamt fylkingu kvenna og vitanlega allra karla sem vilja hjálpa okkur, niður Skólavörðuholtið og vekja þjóðina og leiðtoga hennar til alvarlegrar umhugsunar um að þennan blett þarf að má af okkar svokallaða nútíma jafnréttissinnaða samfélagi.

Hópefli er leiðinlegt orð sem minnir á alla orðanotkun kapítalista og annarra gúrúa. Hópdjamm er eitthvað sem ég á bágt með að þola þó ég hafi mjög gaman af því að sjá homma og lellur dilla sér í Gay Pride göngunni og fann alveg hjartað taka kipp og fór að dilla mér sjálf óforvarendis síðast þegar ég varð vitni að þessu, sem var reyndar fyrir alllöngu síðan. Og yfirleitt forðast ég stórar skemmtanir á götum úti.
En hópdjamm er allt annað en MÓTMÆLAFUNDUR. Þannig forðast ég 17. júní en finnst skylda mín að mæta í göngu 1. maí. Og þó að mótmælafundurinn í dag sé fullur af skemmtiatriðum og eigi að fara ljúflega fram má alls ekki gleyma því að það að þögn er sama og samþykki, að ekki er hægt að samþykkja þennan kynbundna launamun og að einmitt þess vegna er þessi fundur haldinn í dag.
Ég verð þar í anda. Og óska öllum mótmælendum, konum og körlum, góðrar skemmtunar í dag um leið og ég þakka þeim fyrir að gera þetta fyrir mig og dóttur mína.

Lifið í friði.