hjálp!
Ljúfa missti af pistli hjá mér um daginn og lái ég henni ekki, hef verið með hálfgerða bloggræpu undanfarið. Stafar að vissu leyti af því að ég var hálflasin OG bíllaus og hef því ekki verið mikið á ferðinni. Svo langar mig heldur ekkert að vera að flækjast um borgina einmitt núna, er ekki alveg komin úr rólegheitasveitagírnum og langar ekkert að hrökkva upp í stórborgargírinn alveg strax. Nógur tími til þess samt.Ég er í mikilli angistarkvöl og krísu eftir nokkrar bréfaskriftir við vinkonur mínar sem allar eru spenntar yfir afmælinu stóra á mánudaginn. Mig langar svooooo að vera með líka. Oh. Ég vildi að ég ætti flugfélag og gæti skroppið þegar ég vildi. Greinin í Guardian er stórfín en við vinkonurnar erum allar sammála um að EKKI eigi að mæta með potta og pönnur til að vera með læti. Ó nei, þetta á að vera smart og kvenlegt, við þurfum ekki að stíga niður á eitthvað ungbarnastig þó við fáum okkur frí með stelpunum einn eftirmiðdag. Nei, við erum flottar og fínar og hegðum okkur alltaf mjög vel með stelpunum.
Mér finnst að allar eigi að hafa hvíta rós með sér.
Hvítt er litur sorgarinnar en í þessum degi er líka pínulítil sorg. Sorg yfir þeim konum sem voru þá en eru ekki lengur á lífi. Yfir því hversu langt er enn í land með almennilegt alvöru algebrulega skothelt jafnrétti á Íslandi. Yfir því að karlmenn eru víst og verða alltaf karlmenn og þess vegna hvín nú í körlum víðs vegar um landið sem finnst óréttlátt að fyrirtækin ætli að veita konunum frí. Ha? Er ekki í lagi heima hjá sumum?
En rós er alltaf rós og er blóm okkar kvenna. Hvort sem við þiggjum þau af körlum eða færum þau karli eða konu.
Ég vildi óska þess að ég gæti verið þarna. Verð með ykkur í anda og langar að geta hlustað á útvarpið sem er einmitt það sem þessi pistill á að fjalla um:
Ég er komin með nýja tölvu á heimilið. Pínulitla og fallega ibook. Hún er með Tiger stýrikerfið og mér tekst ekki að hlaða windows media player inn í hana. Hún segir að einhverja "application" vanti. Segir samt ekki hvaða. Getur einhver hjálpað?
Reyndar er annað vandamál sem ég þarf að fara með til sölustaðarins, hún getur víst ekki brennt diska heldur og varar við því þegar ég ræsi dvd-spilarann. En hvaða applikasjónir þarf maður fyrir wmp? Ég setti hann inn án nokkurra vandræða í gamla jálkinn (svo eyðilagði ég hann og hef ekki getað hlustað á RÚV síðan en það er önnur saga).
Mig langar svoooo að geta hlustað á fréttir og viðtöl sem ég býst við að verði í kringum þetta á mánudaginn.
Ég elska konur. Ég elska femínisma. Ég var þarna 1975 og man vel eftir söngnum og hvað mér fannst þær flottar í pilsum og stígvélum, dálítið eins og tískan er í dag. Ég varð rauðsokka með móðurmjólkinni og kann móður minni bestu þakkir fyrir það. Vonandi getur einhver hjálpað mér.
Svo ef einhver kann að gera við gersamlega dauðan bíl sem startast ekki einu sinni með startköplum má hann koma í heimsókn. Ég skal borga með gönguferð um alla borg.
Lifið í friði.
<< Home