14.10.05

bækur og sma Spann

Ég er búin að juða í mig ýmislegt misviturt og skemmtilegt um bókmenntir. Ég hef svo sem engu við að bæta enda má segja það sama um Lesbókargreinar og pistla á bloggum að ef þeim er ekki svarað strax finnst manni það vera of seint. Að lesa greinar frá 17. september er eins og að glugga í blöð frá gömlum gleymdum tíma. Eða hvað? Er ég kannski bara að fela mig af feimni við að svara jafn klárum gögum og Hermanni og Eiríki eða jafn sterkum gaga og Kristjáni?
Annars finnst mér flottustu skrifin vera Torfa Tuliniuss um Paul Auster. Í sjálfu sér sýnir sú grein að allt raus um dauða og upprisu og svartsýni og snobb er grundlaust hjal. En ég blogga kannski meira um þetta allt saman síðar. Þegar ég hef melt þetta með mér.

Varðandi Spánarferð er vert að koma því að að við hjónin náðum að kíkja á einhvers konar alvöru Spán einn morgun þegar við ókum á brott frá ömmunni með börnin til Orihuela. Vonandi setti ég háið á réttan stað. Sú borg er kannski ekki fegursta borg á jarðríkinu en öllu skemmtilegri en Lególandið sem við bjuggum í. Eftir ráf um götur borgarinnar og nokkrar kirkjuskoðanir og annað skemmtilegt var mér orðið illilega mál að pissa og við orðin þokkalega svöng. Erfiðlega gekk að finna veitingahús og eftir stefnuleysislega leit hnippti ég í manninn minn, benti á litla og þrönga götu beint á móti Benetton og tilkynnti honum að í þessari götu væri staðurinn. Og viti menn, norninni í mér hafði ekki brugðist bogalistin. Þarna var lítil tasqua (sem ég giska á að þýði eitthvað svipað og restaurant þó ég hafi ekki græna glóru um það) sem hét Pepe og hann sjálfur stóð bak við barinn. Hann talaði ekki eitt orð í ensku, skildi ekki einu sinni yes. Ekki þóttust nokkrir viðskiptavinir sem sátu þarna með vino tinto og tapas geta hjálpað nokkuð. Allir voru þeir, eins og Pepe sjálfur það sem Íslendingar myndu dæma sem elliheimilismat, pínulitlir, hrjúfir og gamlir. Við völdum tapas úr borðinu (guði sé lof fyrir tapasborðin) og hann spurði okkur einhvers og við kinkuðum kolli og svo gátum við beðið um cerveza og agua con gas áfallalaust.
Eftir smá bið kom bolli með tveimur teskeiðum og rjúkandi seyði og tveimur kjötbollum og einni hvítri bollu sem við gátum ekki defínerað. Þetta borðuðum við með bestu lyst, mjög gott. Tapasin voru rækjur með miklum hvítlauk og saltfiskstautar. Ekki var meira úrval hjá honum nema hann hafi lumað á einhverju fleiru en þessari undarlegu kjötsúpu aftur í eldhúsi þar sem konan hans ríkti.
Eins og allir Spánverjar sem ég sá í þessari ferð voru andlit Pepe og viðskiptavina hans uppljómuð af einhvers konar brosi án þess að munnurinn væri í brosi. Ljúfir og yndislegir og hjálplegir með afbrigðum eru orðin sem ég vil nota til að lýsa Spánverjum.

Lifið í friði.