17.10.05

tvennt og tvennt í viðbót við það

Tvennt liggur mér á hjarta áður en ég byrja að vinna:

1. Lesbókin. Mér finnst hún vera mjög fín og skemmtileg aflestrar oftast. Hins vegar finnst mér þetta einum of uppskrúfað stundum og algerlega vanta í hana persónulegar upplýsingar um fólkið sem ritað er um. Ég er ekki að biðja um neinn Séð og Heyrt stíl en það má samt alveg láta okkur leikmenn vita hver er maki listamannsins og aldur og svona. Ha? Stundum er ég alveg að drepast úr forvitni um slíkt meðan ég les vitrar analýsur á listinni og missi alveg af vitruninni fyrir vikið.

2. Íslandshatur á Makkanum. Hef lent í ýmsum vandræðum í gegnum tíðina fyrir að vera Makkari og fundið fyrir vorkunnsemi eins og ég væri fötluð eða gift múslíma sem píndi mig til að vera með slæðu þegar ég hef þurft á hjálp frá íslenskum tæknimönnum að halda. Nú síðast ákvað ég að bæta íslenskt tónlistarsafn mitt örlítið og fjárhag íslenskra tónlistarmanna um leið og viti menn, Tónlist.is býður ekki Mökkurum upp á að kaupa hjá sér!

Annað hef ég ekki fram að færa á þessum mánudagsmorgni. Jú, annars eitt enn: Mæli eindregið með ferdalangur.net, alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast þar. Hvet ykkur til að skrá ykkur í áskrift að fréttabréfinu hennar.

Og enn annað: Tékkið á nýjasta og áreiðanlega mest spennandi bókasafni Íslands, Bókasafni Andspyrnu í Tónlistarþróunarstöðinni Hólmaslóð 2 (hvar í fjandanum sem það nú er). Einnig er útibú hjá snilldarhjónunum í Ranimosk á Klapparstígnum við hliðina á Nonnabúð (veit sko alveg hvar það er). Ókeypis útlán og enginn fer á lista svo óþarfi fyrir alla SUS-arana sem lesa mig að vera hræddir við að opna hug sinn örlítið í laumi.

Lifið í friði.