eftir bloggrúnt
Eftir smá bloggrúnt sé ég að heimurinn breytist lítið þó að oft hafi mig langað að svara margra vikna gömlum færslum en það gefur auga leið að það er vonlaust. Líklega lifir bloggfærsla eingöngu fram að næstu færslu, kannski tvo þrjá daga í viðbót við það.Helst að maður hafi eitthvað að segja um stúlkuna sem var misnotuð fyrir framan nefið á skólayfirvöldum og nágrönnum sem stóðu ósjálfbjarga og horfðu á. Vitanlega samsek. Allir sem þegja og láta svona viðgangast eru samsekir. Mér er skítsama um að það er hrikalega erfitt að skipta sér af svona málum, það er samt alltaf hægt eins og allt annað þegar viljinn er fyrir hendi.
Ég var mjög glöð að komast að því að ég á góða nágranna þegar hér um árið hófust skyndilega afar hávaðasamar ryskingar í stigaganginum. Það var 11 ára gamla stúlkan á 2. hæð sem öskraði og grét hástöfum undan barsmíðum mannsins sem hún þarf að búa hjá þar sem foreldrar hennar eru pappírslaus og geta ekki haft hana í einhverju viðbjóðslegu greni sem þau þurfa að fela sig í. Við stukkum fram á gang og það kom fólk úr hverri einustu íbúð fram með okkur. Við reyndumst sterkur her gegn mannfíflinu og lögreglan var m.a.s. strax sótt á staðinn. Reyndar hefur nú tekist að reka mennina úr húsinu og dálítið erfitt að vita ekki almennilega hvað varð um stúlkuna, en ég hitti hana um daginn og bar hún sig vel. Fólk í eymd og volæði ber sig oft vel. Brosir og ber höfuðið hátt því auðvitað er erfitt og vont að láta vorkenna sér og viðurkenna að maður þurfi á hjálp. Eru það ekki bara aumingjar sem þurfa hjálp?
Mér finnst a.m.k. gott að vita til þess að fólkið í húsinu mínu skiptir sér af málum nágranna sinna þegar því ofbýður. Hugmyndin um stórborgir þar sem hlutir gerast án afskiptasemi er kannski röng. Kannski er auðveldara að "fela" sig og glæpi sína í litla þorpinu þar sem öll afskiptasemi verður strax mjög persónuleg?
En ég er sammála Pullu um að ekki ætla ég að lesa bókina. Ég hef ekki taugar í alvöru óhugnað. Þess vegna finnst mér kannski svona gaman að lesa platóhugnað.
Lifið í friði.
<< Home