ohhh
Ég hlakka svo til að fara í frí. Að fara.
Að vera
farin.
búin að pakka.
búin að raða í bílinn og sjá að allt komist nú fyrir í honum.
búin að öllu eins og fyrirmyndarhúsmóðir á fyrsta sunnudegi aðventunnar.
Farin.
En þangað til verður allt brjálað, það er á tæru.
Lifið í friði.
dilemma
Alltaf sama dilemman þegar börnin sofna seint á daginn. Á maður þá að vekja þau um fjögurleytið? Vitandi að ef ég geri það ekki, sofna þau líka seint í kvöld, finnst mér þó svo yfirmáta freistandi að leyfa þeim að sofa, það er eitthvað svo miklu auðveldara að vera mamma sofandi barna.
Ég var búin að skrifa fullt fullt af bulli en fannst ég svo leiðinleg að ég strokaði það út. Svona er maður nú góðhjartaður á köflum.
Veðrið er í engu samræmi við spána, sól og hiti en ekki rigning og hiti.
Ég er í góðu skapi og er vitanlega langbest í fótbolta, en það var svosem aldrei vafamál.
Lifið í friði.
afskræming
Mér finnst svartklædda konan í kuflinum sínum með slæðuna yfir hárinu og í fallegu skónum sem hún keypti sér í tískubúð, þessi sem heilsar mér alltaf svo glaðlega í almenningsgarðinum, alltaf eitthvað svo hrein og hugguleg og góð við börnin sín eins og við íslensku konurnar erum góðar við börnin okkar, mér finnst þessi kona einhvern veginn svo þúsund sinnum heilbrigðari og lík mér sjálfri, líkleg til að geta orðið vinkona mín, heldur en strekkta konan sem ég sé stundum á gangi hér um hverfið, með strekktar varir en samt bólgnar, strekkt undir augunum og ekkert blik í þeim, lítur aldrei framan í mig hvernig sem ég reyni að glápa á hana og kanna viðbrögðin, engin viðbrögð, bara tóm.
Kannski er ég bara fordómafull og kannski er þessi kona mjög ánægð með árangurinn af aðgerðinni. Kannski er sú svartklædda með slæðuna óhamingjusöm og kúguð og ég neita að horfast í augu við það af því ég er hræsnari. Kannski.
Ég hvet ykkur til að lesa grein kj á Múrnum frá í dag. Er það virkilega orðið svona óhugnalegt þetta litla land mitt í fjarskanum? Á ég að hafa áhyggjur af ykkur? Ég sem fylltist svo mikilli von eftir kynni mín af fólki hér í síðustu viku sem býr í íbúð í blokk með 3 börn og fer í strætó í vinnuna og eyðir frekar smá aur í ferðalög með fjölskylduna. Ég sem hélt að kannski væri Ísland bara besta land í heiminum. En hvað?
Lifið í friði.
Prinsessan þyrst
Prinsessan þyrst
Originally uploaded by parisardaman.
Prins í silkiblússu
Prins í silkiblússu
Originally uploaded by parisardaman.
Spegillinn
Spegillinn
Originally uploaded by parisardaman.Og hér er svo spegillinn minn fíni. Ég mun fjarlægja alla skítagulbleikhvítu málninguna og svo sé ég til hvort ég mála hann upp á nýtt eða hvað ég geri. En hann er kominn upp á vegg og fer sko ekkert í taugarnar á mér svona eins og hann er svo það verður spennandi fyrir mig að sjá hvenær ég lýk við hann.
Lifið í friði.
Þvottahrúga
Þvottahrúga
Originally uploaded by parisardaman.Ég lofaði því ekki beint, en hér er mynd af þvottahrúgunni frá því í síðustu viku. Þarna var ég búin að fara með fötin mín inn í skáp, fyrir utan nýja sumarkjólinn sem liggur efst til hægri á myndinni samanbrotinn.
Vert er að láta vita að nú er ekki ein einasta spjör ófrágengin á heimilinu. Lausnin: Hætta að setja í vél!
Lifið í friði.
sumarfrí
Einhvern tímann í vetur ákvað ég, að einræðisherra sið, að fjölskyldan færi saman í frí í byrjun júlí. Það er mín reynsla af túristabransanum að flestir Íslendingar vilja vera heima á Íslandi á þessum tíma, enda nætur bjartar og ágætis von um yl og þurrk.
Það var strax ljóst að við færum í tjaldferð og snemma var lýðræðislega ákveðið að halda suður á bóginn þó að mig, einræðisherrann sjálfan, hafi á tímabili langað að fara til Danmerkur. Það kvaddi æstur múgurinn maðurinn minn niður í hvert skipti sem ég bryddaði upp á þeim möguleika.
Ég fór á dögunum að skoða tjaldstæði í boði hjá
bændum, datt ekki í hug að skoða stóru fínu stjörnum prýddu tjaldstæðin sem troðfull eru af lummó liði sem kúl fólk eins og við leggur ekki lag sitt við. Við fundum þrjú sem henta leið okkar mjög vel og erum búin að ganga frá pöntunum.
Fyrsta nóttin verður hjá
hollenskri fjölskyldu og fyrir frönskumælandi er alveg þess virði að kíkja á heimasíðuna, mér tókst að skilja hvað þau voru að meina með því að lesa það líka á hollensku, sem hefur nú aldrei verið mín sterkasta hlið. En sumt í frönsku lýsingunni getur bent til þess að þau séu til í kynlífsleiki með gestum.
Svo ökum við áfram í suðurátt og stoppum í þrjá daga hjá bændum sem hafa staðfest við okkur að karlinn fær að horfa á fótboltann ef svo undarlega skyldi fara að Frakkland komist áfram.
Eftir fjórar nætur í tjaldi förum við í heimsókn til vinafólks okkar og verður hjá þeim í þrjár nætur. Þau eiga von á sínu fyrsta barni og tel ég þeim hollt að sjá hvað fjölskyldulífið getur nú verið margslungið og misskemmtilegt á köflum.
Þá verða aftur nokkrar nætur á tjaldstæði nálægt sjó og svo förum við á eyjuna Ré (þar sem flóttamaðurinn Jospin býr eftir afhroðið í síðustu forsetakosningum) og er áætlað að borða sjávarréttabakka og súpa á hvítvíni eða kampavíni með vinafólki sem kemur sumt langt að.
Í gær, kannski á svipuðum tíma og Hengirúm Þórdísar var í loftinu, helltist allt í einu yfir mig að ef við værum á stóru tjaldstæði væru meiri líkur fyrir börnin að hitta önnur börn að leika sér við og kannski væri sundlaug og hvort við værum vond, foreldrarnir, að vilja vera með þau í rólegheitum á lífvænu bóndabýli í návígi við kanínur, endur og geitur. Þetta bráði fljótt af mér eftir fundahöld sem voru á þessa leið:
Einræðisherrann: Æ, erum við kannski vitlaus að fara ekki á stórt tjaldstæði með sundlaug og fullt af börnum fyrir okkar börn að leika við?
Æstur múgurinn: Nei, það eru svo mikil læti á þannig stöðum og ég bara nenni því ekki.
Einræðisherrann: Já, þau eru líka svo dugleg að leika sér saman af því við vorum svo dugleg (mætti líka lesast heimsk) að búa þau til með svona stuttu millibili.
Æstur múgurinn: Einmitt.
Og
Þórdís í hengrúmi undir himinbláma eyddi síðasta efafræinu úr huga mér. Af hverju er maður alltaf svona hræddur við að leiðast og að fólki í kringum mann leiðist? Hvernig í ósköpunum getur maður látið sér detta í hug að tveggja og fjögurra ára börnum geti leiðst á sveitabæ með dýrum?
Lifið í friði.
systir
Systir mín er í útvarpinu að tala við Lísu Páls. Hún er stjarna, þó hún sé KRingur í Breiðablik. Þátturinn var á dagskrá á föstudaginn.
Hér rignir eins og hellt sé úr fötu, börnin og kallinn úti, ég í tölvunni og narta í fíkjur og möndlur, barnaafmæli seinna í dag, eins gott að hann hætti að rigna, það er heitt, ég hef brennandi áhuga á einhverju en ekki því sama og systir mín, en það skal nú viðurkennast að þökk sé fótboltanum hef ég nú náð að ræða aðeins við manninn minn, hann hefur annað augað á sjónvarpinu á kvöldin en leyfir mér svo að tala og mala, nú segir systir mín að íþróttaáhugi sé á heimilinu, það er satt að stundum horfði ég á fjölskylduna mína stökkva upp úr sófanum og fagna og spurði mig hvort ég væri ættleidd, úpps nú spurði Lísa um eiginmann systur minnar, hann er ekki til, systir mín hefur aldrei verið við karlmann kennd enda smekkmanneskja þó hún sé KRingur í Breiðablik og vill heldur konur, ég nenni engu, þarf að taka niður fatapoka og athuga hvort ég sé með eitthvað að láta Evu Sól fá af Sólrúnu, hvað er þetta með Sólarnöfnin þessa dagana, var að eignast Sóley frænku, jæja þetta er farið að verða tóm vitleysa, sunnudagur á að vera sólardagur, hvað er þetta, ætlar hann ekki að hætta að rigna?
Mér finnst vert að taka það fram að ég er hætt að segja fólki hér frá þessari hneisu yfir 14.000 krónunum sem þarf að reiða fram til að horfa á HM. Reyndar fann Hnakkus leið til að horfa ókeypis í tölvunni. Það er flott hjá honum. Ég bara næ því ekki að auglýsendur hafi ekki beitt þrýstingi, það hlýtur að koma niður á þeim, færri horfa á keppnina en ella.
Lifið í friði.
slæmt er
að fljóta sofandi að feigðarósi, en verra hlýtur að vera að gera það vakandi.
Lifið í friði.
detta mér nú allar
Ég ÞOLI EKKI símasölufólk, símakönnunarfólk, símaplatara. Það er sífellt verið að hringja hingað, bæði frá fyrirtækjum sem ég skipti nú þegar við sem reyna að veiða mann inn í dýrari áskriftir og hef ég stundum orðið fyrir dónaskap þegar ég hef varist með kjafti og klóm (nota bene alltaf yfirmáta kurteis) og samkeppnisaðilum í leit að nýjum kúnnum.
En rétt í þessu var verið að grípa mig, ég eitthvað annars hugar og svaraði einhverri kellingu um vín, vegna þess að mér fannst það áhugavert efni. Haldiði ekki að hún klykki út með að ég hafi unnið mér inn einhvers konar gjöf? Þá varð mér ekki um sel en þar sem ég er svo kurteis sagði ég bara takk og bless. Ég er ekki svo græn að ég viti ekki hvað "gjöf" frá einhverju markaðsrannóknafyrirtæki þýðir. Það þýðir náttúrulega ýmsar skyldur eða að maður á að punga út nokkrum evrum eða eitthvað þaðan af verra (svo sem gefa annað barnið sitt eða...).
Þeir mega taka þessa gjöf og stinga henni upp í óæðri endann á sér. Af hverju sagði ég ekki bara strax að ég gæti ekki talað við hana? Ég geri það alltaf! Af hverju þarf maður við og við að vera tekinn í rass í heiminum eins og hann er í dag?
Lifið í friði.
fête de la musique
Í dag er lengsti dagur ársins. Sem þýðir að frá og með morgundeginum fer sól LÆKKANDI á lofti. Það finnst mér ekki góðar fréttir.
Hins vegar er tónlistarhátíð í Frakklandi í dag. Gengur út á að allir sem kunna að spila eða syngja mega fara út á götur og framreiða tónlist án leyfis borgaryfirvalda.
Frábær stemning víðsvegar um borgina París og bara alls staðar í Frakklandi. Allt ókeypis. Gaman gaman.
Get t.d. nefnt að Placebo er í kvöld úti í La Défense. Ekki það að mér finnist vælið í þeim merkilegt, bara eina nafnið sem mér datt í hug að þið heima á skerinu góða þekkið.
Og munið: dagarnir fara að styttast á morgun. Það hlýtur að þýða styttri haustrigningardagar?
Lifið í friði.
klukk
1. Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?
Mjög erfið spurning. Margar bækur hafa haft mikil áhrif á mig, enda er ég afar áhrifagjörn manneskja. Ég man vel eftir upplifuninni sem Sjálfstætt fólk og Salka Valka voru. Meðan ég las Sölku Völku fannst mér ég vera hún. Þórbergur kremur alltaf í mér hjartað, Milan Kundera var á tímabili mitt leiðarljós og er Brandarinn líklega sú sem ég man hvað best eftir úr hans brunni. Einhver ein sem stendur upp úr? Kannski Birtíngur e. Voltaire í þýðingu HKL. Já, ég held ég geti sæst á það með sjálfri mér... í bili.
Auðvitað hafði líka Draumalandið nýlega mikil áhrif á mig, en það er eiginlega of banalt að nefna það einmitt núna. Eða hvað?
2. Hvaða tegund bóka lestu helst? Skáldsögur, krimma, ævisögur, ljóð eða eitthvað annað?
Ég er alger alæta, les á íslensku, frönsku og ensku allt sem ég kemst yfir. Ljóð get ég þó eingöngu lesið á íslensku. Næ mjög sjaldan að verða fyrir hughrifum á öðrum tungumálum í þeim flokki.
Ég á langerfiðast með að lesa heimspekirit, sem ég hef helst reynt á frönsku og yfirleitt gefist upp.
Les mikið sögubækur vegna vinnunnar, en var með sögufóbíu í skóla og þess vegna hvæsti sögukennarinn minn á síðasta ári í menntó á mig að hann skildi alls ekki hvernig ég hefði komist þangað.
Allar góðar skáldsögur eru jafnar fyrir mér, hvaða flokk sem fólk vill setja þær í. Vondar skáldsögur vekja hins vegar yfirleitt mikla reiði- og vonbrigðatilfinningu með mér.
3. Hvaða bók lastu síðast?
Var að ljúka við Yosoy e. Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Var hálfnuð með Risafurur og tíminn e. Jón Kalman Stefánsson en tókst glæsilega að skilja hana eftir á hótelherbergi þar sem henni var líklega hent (nema skúringakonan hafi ákveðið að stela henni og að kvöldsögurnar á afrísku heimili í úthverfi Parísar séu nú á íslensku).
Er núna með Um Anarkisma e. Nicolas Walter í þýð. Sigurðar Harðarsonar (mæli eindregið með að þið kaupið ykkur þetta og lesið) og The Luck of Barry Lyndon e. William M. Thackeray sem er hin besta skemmtun.
Ég geri mér fulla grein fyrir að ég ofsvaraði spurningunum, en ég hef beðið svo lengi eftir því að einhver spyrði mig svona spurninga (var nú að vona að það yrði Lesbókin eða annað menningartímarit en verð víst að láta bloggvin mér duga) að ég bara gat ekki haldið í mér.
Ég klukka Uppglenning, Ljúfu, Hildigunni og Rustakusu. Og hvet alla óklukkaða til að svara þessu líka, eða er ég þá að eyðileggja leikinn?
Lifið í friði.
bolti
Nokkrar ástæður til að fyrirlíta fótboltann:
Laun atvinnumanna eru svo svimandi há að manni getur ekki annað en ofboðið. Þeir eru ekki eina oflaunaða starfstéttin í heiminum, það skal alveg viðurkennast, en þeir eru oflaunaðir og það finnst mér ógeðfellt.
Nefni tvö dæmi: Ronaldinho skilst mér að hafi unnið sér inn 120 milljónir evra á ferlinum. Það þarf enginn á slíkum svimandi fjárhæðum að halda. Togo-liðið hefur verið í fréttum því þeir fá ekki greitt. Þeir vilja 120.000 evrur fyrirfram, summa þessarar tölu fyrir allt liðið er hærri en samanlögð árslaun alls verkafólks í Togo. Þetta finnst mér óviðurkvæmileg ójafna.
Til að "þjóna" betur áhorfendum voru fluttar inn hórur til Berlínar, tímabundið. Klukkustundin hjá þeim er ódýrari en miði á leik. Reyndar er leikurinn aðeins lengri en klukkustund, en samt, hvað er í gangi?
Alvöru áhugamenn, áhangendur liða til margra ára, fólkið sem gerir það að verkum að hægt var að umbreyta fótboltakeppnum í markaðsvöru, er nú úti í kuldanum hvað varðar aðgang að miðasölu. Hópar frá McDonalds strolla vel merktir upp í stúkuna, meðan venjulegir bjórþambarar úr sveitinni sem hefðu verið tilbúnir til að greiða háar summur fyrir miða, standa svekktir á "reykmettuðum knæpum" og horfa á leikinn af skjá.
Hvernig er hægt að þola svona leiki þar sem algert einræði ríkir? Frakkarnir hafa ekkert staðið sig með stakri prýði þetta árið, en þeir skoruðu nú samt TVÖ heiðarleg mörk gegn Kóreu á dögunum. Málið er að dómarinn sá ekki annað markið. Á meðan skoruðu Englendingar algerlega ólöglegt mark, skorarinn hélt bókstaflega í rastafléttur varnarmannsins meðan hann skallaði boltann í netið, en dómarinn missti af þessu og því er markið gilt.
En þó ég sé í fyrsta lagi ekki mjög áhugasöm um íþróttir almennt og í öðru lagi þyki mér þetta fótboltamarkaðssponsoradæmi ógeðfellt skal það hér með viðurkennast að einhverjar tilfinningar bærast í brjósti mér þegar Frakkland klúðrar hlutum OG að á dögunum greip ég, eins og í vímu, lítinn bol handa Kára, merktan franska liðinu, í HogM. Ég, sem var svo hégómleg að telja að ég gæti samsvarað lýsingu Andra Snæs á "markaðslega einhverfri" manneskju.
Svona er ég nú veik og óstaðföst eftir allt saman.
Lifið í friði.
19.
Hæ hó jibbí jæ... mér finnst endilega að einhver ætti að semja gott stuðlag um þennan dag.
TIl hamingju konur nær og fjær.
Lifið í friði.
Guð sagði:
Það verða til svartir menn og hvítir menn.
Það verða til litlir menn og stórir menn.
Það verða til fallegir menn og ljótir menn.
Allir þessir menn eiga að vera jafnir. Það verður erfitt.
Það verða til svartir, litlir og ljótir menn. Fyrir þá verður þetta sérstaklega erfitt.
Það eru tuttugu ár í dag síðan Coluche dó. Hann var grínisti eða trúður sem réðst á öll tabú og var mjög vinsæll í Frakklandi.
Hann stofnaði Restos du Cœur, ókeypis veitingahús sem gefa fátækum að borða á veturna.
Hann var feitur og ljótur í útliti, en samt finnst manni hann svo fallegur að maður kemst við þegar maður sér myndir af honum.
Hann dó þremur árum áður en ég kom til Frakklands, en ég vissi samt hver hann var svo til strax, svo mikið er hann endursýndur í sjónvarpi, endurspilaður í útvarpi og fjallað um hann í pressunni.
Á morgun opnar nýtt listasafn í París,
Quai Branly. Var að horfa á viðtal við
Jean Nouvel, arkitektinn, í hádegisfréttum. Ég skildi ekki helminginn af ræðunni en ætla að reyna að ryðja fram nokkrum punktum sem ég náði: húsið á að segja manni að þetta sé eitthvað sem komi ekki frá okkur, þetta kemur langt að, verkin eiga að vera "laus" ekki lokuð bakvið lás og slá, birtan á að leika um þau, maður á að geta horft á þau meðan ský dregur frá sólu og sjá áhrifin, á terrössunni á þakinu finnst manni Eiffelturninn vera að detta yfir mann, í tjörnunum þar speglast turninn í heild sinni, enda var ekki hægt að keppa við hann um athygli og því varð hann að fá að vera með. Ég held líka að það felist einhver hógværð í að húsið mun verða falið innan um gróður, einn veggurinn er t.d. gróðurveggur.
Ég ætla að kíkja á þetta safn hið fyrsta. En fyrst verð ég að fara og sjá vatnaliljurnar hans Monet í
Orangerie safninu.
Ég veit ekki hvort þið gerið ykkur grein fyrir stórvirkinu sem felst í þessum pistli: þrír tenglar!
Lifið í friði.
flug til Parísar
Vil bara vekja athygli á því að Terra Nova (punkturis) býður nú upp á ferðir á skikkanlegum tíma til Parísar í sumar. Á árum áður hefur komutíminn verið undarlegur, eða um fimm að morgni. Þetta sumarið er lagt af stað frá Íslandi um fjögurleytið á eftirmiðdegi og lent um tíu að kvöldi hér. Brottför til Íslands er um þrjúleytið að eftirmiðdegi og lent um hálffjögur á Íslandi.
Þetta eru góðir flugtímar, að mínu viti, ég er með örlítið ofnæmi fyrir því að þurfa að vakna um fjögur að morgni þegar ég þarf að komast heim til mín frá Íslandi. Og munið að ég get oftast hent mér upp í rúm við komu, þarf hvorki að drífa mig upp í Eiffel né niður í Latínuhverfi til að nýta nú tímann vel.
Annars er ég að hlusta á Þórdísi og finn að ég á erfitt með að skrifa á meðan.
Lifið í friði.
drengjakór
Tónleikar Drengjakórs Reykjavíkur í gær voru frábærir. Yndislegur söngur, yndislegir drengir, yndislegt veður, yndisfagur salur í Ráðhúsi 16. hverfis, fín ræða sendiherra, mælskur að vanda og svo fórum við hjónin við fjórða mann eins og verstu túristar og leyfðum einu af kaffihúsunum við Trocadéro að ræna okkur með okurverði á mat. En það var sannarlega þess virði.
Gott að komast aðeins út með manninum sínum, finnst ég bara nota heimilið sem stað til að skipta um föt, skelli í eina vél við og við og ætla ekki að segja ykkur hvað hrúgan sem á eftir að ganga frá er orðin stór. Það gerir maðurinn minn ekki, enda hefur hann ekki leyfi til þess þar sem ég hef engan áhuga á að þurfa að leita dyrum og dyngjum að fötunum mínum sem gætu allt eins ratað í eldhússkápa, það gleymdist alveg að setja skápaskilningsselluna í hann. En það er gaman að fara með honum út og svo er margt annað sem hann gerir á heimilinu og gerir vel svo ég er ekkert að kvarta. En stóra hrúgan skal hverfa á morgun, því get ég lofað. Svo þarf ég bara að fara að sjá ógurlegu myndina um lykil nokkurn og svo er það náttúrulega bara hneisa að Vatnaliljur Monets hafa nú verið til sýnis í mánuð án þess að ég hafi farið. En ég er að spá í að skoða þær á miðvikudaginn með börnunum, því þessi verk eru sannarlega barnvæn. Reyndar er Fête de la Musique á miðvikudag, sem gæti sett strik í þá reikninga.
En í dag er hitinn að hækka, ekki gott mál, og ég á leið í Versali, gott mál.
Lifið í friði.
Marie Antoinette
Ég hef varla hætt að hugsa um myndina síðan ég sá hana. Ég er nefninlega alveg skipt í tvennt í áliti mínu: Flott mynd og góð, léleg amerísk stórmynd í lit um viðkvæmt efni.
Það er vitanlega alltaf erfitt að horfa á frjálslega meðferð á sögu sem maður þekkir vel. En allt sem kemur fram í myndinni kannast ég við úr bókunum, fyrir utan eitt lítið atriði sem ég held áreiðanlega að sé fölsun til hagræðingar. Það er aðallega spurning um það sem er sleppt og hvernig það afskræmir eðlilega framvindu lífshlaups Marie Antoinette.
Kvikmyndaformið er flóknara söguform en bókin, vegna þessa ramma sem tíminn er. Myndin nær tveimur tímum, sléttum. Sofia Coppola hefur sem betur fer ekki enn farið út í þá vitleysu sem margir kvikmyndagerðarmenn lenda í, að hafa myndirnar of langar. Tveir tímar er, að mínu viti, hámarkslengd fyrir bíómyndir. Yfirleitt getur maður auðveldlega séð atriði sem máttu missa sín í myndum sem fara yfir þá lengd.
Ég þarf miklu meiri tíma en þann sem ég hef núna til að virkilega kryfja þessa mynd. Það eina sem ég ætla að segja núna er: Farið og sjáið hana Í BÍÓ þegar hún kemur til Íslands. Tónlistin, fljótandi kampavínið og allt hitt sem sýnir vellystingarnar í Versölum njóta sín tvímælalaust betur í myrkum sal með góðum hljómgæðum.
Mikið er annars gaman að fara í bíó. Sérstaklega svona á miðjum degi í kældan sal og í landi þar sem ekki eru þessi bölvuðu hlé sem eru eyðilegging á öllum myndum, góðum og slæmum.
Hér skín sólin og hitastigið er akkúrat eins og það á að vera, 24 stig. Dásamlegt. Ég sendi ykkur nokkrar gráður og sólargeisla í DHL til Íslands á dögunum, en það virðist hafa horfið á leiðinni, líklega farið til Írlands fyrir mistök. Óska ykkur öllum innilega til hamingju með daginn í dag og vona að ekki rigni upp í nefin á ykkur þegar þið horfið upp til fjallkonunnar.
Lifið í friði.
j'ai envie de vous écrire
"J'ai envie de vous écrire, mais je n'ai rien à vous dire" skrifaði Voltaire í bréfi til vinkonu sinnar.
Á íslensku gæti þetta hljómað:
Mig langar til að skrifa þér en ég hef ekkert að segja.
Einmitt svona líður mér núna. Mig langar svo að skrifa ykkur eitthvað en ég hef fjandakornið ekki neitt að segja. Bendi ykkur á að fara inn á Vangaveltur Vésteins þar sem hann og fleiri velta vöngum yfir áhrifum drekkjum-spjaldsins á baráttuna gegn stóriðju. Fullt af áhugaverðum punktum. Fyrsta færslan um þetta er frá föstudeginum síðasta og þar verður líka að lesa svörin, og svo langlokuna hans frá því í gær.
Svo var ég að flakka, fór í gegnum tengil hjá Hönnu litlu yfir á Málbein og þaðan úr kommenti yfir á síðu sem ég hóf að lesa og sé allt í einu að 7. maí tengdi hann yfir á mig og svei mér ef hann sakar mig ekki um að vera geðsjúk.
Allt af því að ég, í svipuðu letikasti og núna, benti fólki á að lesa frásögn Önnu.is af ömurlegri viðreynslu og segi að karlmenn geti verið ÖM. Það má víst ekki alhæfa svona. Nenni ekki að benda honum, né ykkur hér að vitanlega geta konur líka verið ÖM og vitanlega er til fullt af góðum körlum og vitanlega er alhæfing alltaf röng (hef líklega skrifað það hundrað sinnum í ýmsum myndum hér). Það er alltaf skrýtið að sjá sjálfan sig á öðrum síðum svona óforvarendis. Ég gleymi því oft að ég þekki ekki helminginn af þeim sem koma hingað inn og hafði t.d. ekki hugmynd um þennan bloggara þangað til í gær.
En ég er farin í metró í bæinn í bíó á Marie-Antoinette. Kannski mun ég hafa eitthvað að segja ykkur eftir þá reynslu?
Lifið í friði.
yosoy
Yosoy er góð bók, finnst mér. Samt svolítið vond. Þetta er dæmigerð svona bók sem maður þarf að leggja niður og geyma í nokkra mánuði og lesa svo aftur. Sem og ég ætla að gera. Finn ekkert almennilegt um hana á netinu. Svekkjandi. Sé að Gauti Kristmanns hefur dásamað hana og reyndar fleiri gagnrýnendur, en finn enga rýni í heild til að lesa.
Í gær fór ég með börnin í almenningsgarðinn eftir skóla. Þar var varla nokkur sála sem var undarlegt þar sem yfirleitt er troðningur og læti á þessum tíma dags og í svona veðri. Ég hugsaði með mér að fólk hlyti bara að vera komið með nóg af 32 stigunum og hefði flúið inn til sín í kalda sturtu.
Í garðinum sat þó einn eymingjans maður, frekar skítugur og illa til fara með slitinn bakpoka hjá sér. Hann var að súpa á bjór og borða snakk. Ég settist á bekk í skugga þó að sólin væri einmitt á bak við ský. Svo braust sólin fram og þá kom eymingjans maðurinn yfir á bekkinn til mín, umlaði á bjagaðri frönsku að sólin væri of sterk og settist niður. Ég brosti bara og færði skólatöskurnar til svo hann hefði nóg pláss fyrir dótið sitt. Hann benti á litla stelpu og sagði "fille, fille?" borið fram eins og fillet í nautafillet en ekki fíj eins og maður á að gera á frönsku. Ég hristi höfuðið og benti á einn garçon og eina fíj. Hann brosti. Svo rétti hann bjórdósina til mín og bauð mér sopa. Ég þáði ekki. Þá bauð hann mér snakk. Aftur afþakkaði ég með bros á vör. Kári kom til mín og skreið upp í fangið á mér, að leka niður úr hita. Við röbbuðum saman á íslensku. Eymingjans maðurinn spurði mig hvort ég væri frá Alsír (!). Ég neitaði því og sagði Iceland, Islande. Ah, það fannst honum merkilegt og sagðist sjálfur vera frá Rúmeníu, Búkarest. Ah, sagði ég, mig langar að koma þangað, hef heyrt að hún sé falleg, borgin Búkarest. Hann brosti og allt í einu fékk ég sting í magann yfir því að hér situr hann, einn með pokann sinn, allt sem hann á, og er að leita að betra lífi í þessu landi þar sem fallega borgin Búkarest gat ekki boðið honum mannsæmandi líf.
Þegar hann var búinn með bjórinn stóð hann upp og fór. Kvaddi mig með virktum, kjáaði framan í Kára og gekk léttum skrefum út úr garðinum. Stoppaði aftur við hliðið og vinkaði okkur í síðasta sinn.
Ég veit að maður á ekki að skammast sín fyrir það sem maður á. Ég hef alltaf barist harkalega gegn því að við leyfum okkur að sökkva í pytt sjálfsvorkunnar yfir því að vera forréttindahópur.
En stundum fyllist maður samt einhvers konar sorg og örvinglan þegar fólkið sem á ekki neitt kemur of nálægt manni. Það er bara staðreynd.
En yfirleitt næ ég að vera bara glöð og ánægð með að vera svona heppin. Og ekki vildi ég láta skera úr mér blygðunartilfinningaheilastöðina.
Ég er... fín eins og ég er.
Veðrið er frábært í dag. 26 stig og ekki alveg heiðskýrt þannig að maður fær pásu frá sólinni við og við. Svona á þetta að vera næstu fjóra mánuðina takk.
Og ég var næstum búin að gleyma: Garðurinn var tómur því það voru víst 11 spengilegir Frakkar að sperra sig eitthvað í beinni útsendingu á þessum sama tíma.
Lifið í friði.
karlakór
Ég verð nú að plögga það að þátturinn ÚT OG SUÐUR frá sunnudeginum 11. júní er um Karlakór Kjalnesinga og ferð þeirra til Parísar. Ég undirbjó ferðina fyrir þá og sést þarna nokkrum sinnum að skenkja rauðvín og lifa mig inn í sönginn.
Ég lýsi ánægju minni með þennan fína þátt og Gísli Einarsson hlýtur að vera besti sjónvarpsmaður okkar Íslendinga.
Til Björns Friðgeirs: Gott að geta gengið endanlega fram af þér, he he he... var að senda 12 gráður og sól í DHL upp í Tungur fyrir helgina.
Lifið í friði.
alltaf eins
Ég held að það sé alltaf eins, á hverju ári bíður maður spenntur eftir góða veðrinu. Góða veðrið kemur svo af því líku offorsi að maður byrjar strax í fyrstu vikunni að þrá rigninguna og rokið á skerinu góða.
Lifið í friði.
o sole mio
Versalir í dag, heiðskýrt og þrjátíu stig. Eins gott að muna eftir sólkreminu og hattinum.
Annars er ég gersamlega blokkeruð. Er að lesa Yosoy og finnst ég passa einum of vel við lýsinguna á Ástu sem bloggar. Þ.e.a.s. hvernig hún þrífst á blogginu, ekki annað. Skrýtin bók. Þori ekki að segja að hún sé góð því ég er ekki búin. En hingað til hefur hún sérkennileg áhrif á mig.
Sársaukapælingar eru líka hlutur sem ég hef áhuga á. Hefði ég kannski átt að verða læknir eins og pabbi trúði alltaf?
Lifið í friði.
hey
hey dmdmdmdmdm
must be a devil between us...
ferlega er gaman að vera til
Tölum á ensku og verum villt: LIVE IN PEACE
mér finnst
en það er ekki þess vegna sem ég er
Lifið í
eggin
Kíkið á Eggin(a) og sjáið hvað Alcoa greiðir fyrir orkuverð hérna. Slökkvið svo öll ljós, takið öll tæki úr sambandi og neitið að nota rafmagn þangað til að mismunurinn hefur verið leiðréttur. Upp með prímusana.
Það er nóg komið af því að heimilin séu látin blæða fyrir stórfyrirtækin.
Lifið í friði.
Parísardömur 2006
Parísardömur 2006
Originally uploaded by parisardaman.Stytturnar í Versölum geta verið inspírerandi. Við hættum þó við að vera allsberar enda allt morandi í vörðum og eins og allir vita hafa garðverðir aðeins of mikil völd og nýta sér þau óspart.
Lifið í friði.
heiður himinn en ekkert hengirúm
Sem ég hlusta á Þórdísi eðalbloggara (í tenglalista) meðan ég brýt saman þvottinn fæ ég skyndilega verk fyrir brjóstið yfir svölunum sem við skoðuðum og fylgdu íbúð sem við ákváðum að hafa ekki efni á. Þetta voru undarlega "óhentugar" svalir, einhvers konar lítið skot sem greinilega komst aldrei sólarglæta á. Íbúðin var búin öðrum betri svölum þar sem hægt var að vera með stóla og borð og skála í pastís á góðum eftirmiðdegi. Litla skotið var búið eðalhengirúmi. Þetta skot er líklega það sem ég sakna langmest úr öllum íbúðunum sem ég skoðaði.
En það þarf ekki eðalhagfræðing til að sjá að ég hefði ekki verið að njóta hengirúmsins með því að vinna daginn út og daginn inn fyrir afborgunum af þessu skuggsæla skoti.
Svona er nú lífið skemmtilegt.
Rödd Þórdísar er falleg. Sólin skín á heiðum himni og ég ætla út um leið og ég er búin að ganga frá hérna og skrifa nokkra tölvupósta.
Lifið í friði.
frænkurnar
Í dag koma frænkur mínar í heimsókn til Parísar. Flestar að koma í fyrsta skipti og allar að koma að heimsækja mig í fyrsta skipti. Ég hlakka til, þetta verður fjör, við eigum ættir okkar að rekja vestur á firði (er Siglufjörður ekki annars fyrir vestan? Er ég núna búin að kúka á mig opinberlega?) og yfirleitt mikið fjör þegar þetta fólk kemur saman.
Ég er búin að vera jafnstressuð yfir þessum hóp og öðrum hópum, það er ekki einleikið hvað ég get gert mig hrædda um að hlutir klúðrist, að ég standi mig ekki, að þeim líki illa við mig o.s.frv. Núna þarf ég ekki að óttast neitt slíkt að ráði, en samt er ég spennt, með stífar axlir og hnút í maga.
Kannski var það ekki að ástæðulausu því ég var vakin kl. 7.15 (5.15 að íslenskum tíma) með fréttir af breytingum á stærð hópsins. Ég gekk því beint í að breyta rútupöntunum (vorum einmitt einni of margar í minnstu rútuna) og afpanta rúm á hótelinu. Vona að þetta verði allt í lagi, allt saman þó leiðasti hlutinn sé einmitt fækkunin í hópnum.
Gulla systir datt út fyrir þó nokkru síðan vegna þess að RÚV hefur ákveðin völd yfir fótboltanum og niðurröðun leikja og gat, með skömmum fyrirvara, pínt KSÍ til að færa einn af aðalleikjum sumarsins. Systir mín er fótboltadrottning og getur vitanlega ekki sagst vera forfölluð þegar stórleikir fara fram. Ég var búin að jafna mig á svekkelsinu með hana, enda á hún ennþá miða út til mín og ætlar að koma síðar. Ég er þó alls ekki sátt við völdin sem RÚV hefur til að breyta dagskrá sumarsins, og alls ekki sátt við að aðalleikur kvennadeildarinnar er settur á stóra ferðahelgi. Þetta finnst mér hneisa, en maður hefur þurft að heyra svo margt slæmt um kvennaboltann í gegnum tíðina að skrápurinn er farinn að harðna.
Verra er að nú vantar eina af systrunum átta sem ferðin snýst um. Og að hópurinn byrjaði að vera vesen áður en hann lagði af stað í flugið.
Ég er farin að taka til. Frænkurnar (og mamma) eru að koma!
Lifið í friði og góða helgi.
ha já já jú jú
Er það ekki einmitt eitthvað sem þessir markaðsfræðingar segja: "neikvæð umfjöllun er betri en engin umfjöllun"? Mótmælin frá laugardeginum eru i alla fall á mbl.is í dag. Valgerður, ég skil vel hræðslu hennar, og virði.
Lifið í friði.