17.6.06

Marie Antoinette

Ég hef varla hætt að hugsa um myndina síðan ég sá hana. Ég er nefninlega alveg skipt í tvennt í áliti mínu: Flott mynd og góð, léleg amerísk stórmynd í lit um viðkvæmt efni.

Það er vitanlega alltaf erfitt að horfa á frjálslega meðferð á sögu sem maður þekkir vel. En allt sem kemur fram í myndinni kannast ég við úr bókunum, fyrir utan eitt lítið atriði sem ég held áreiðanlega að sé fölsun til hagræðingar. Það er aðallega spurning um það sem er sleppt og hvernig það afskræmir eðlilega framvindu lífshlaups Marie Antoinette.

Kvikmyndaformið er flóknara söguform en bókin, vegna þessa ramma sem tíminn er. Myndin nær tveimur tímum, sléttum. Sofia Coppola hefur sem betur fer ekki enn farið út í þá vitleysu sem margir kvikmyndagerðarmenn lenda í, að hafa myndirnar of langar. Tveir tímar er, að mínu viti, hámarkslengd fyrir bíómyndir. Yfirleitt getur maður auðveldlega séð atriði sem máttu missa sín í myndum sem fara yfir þá lengd.

Ég þarf miklu meiri tíma en þann sem ég hef núna til að virkilega kryfja þessa mynd. Það eina sem ég ætla að segja núna er: Farið og sjáið hana Í BÍÓ þegar hún kemur til Íslands. Tónlistin, fljótandi kampavínið og allt hitt sem sýnir vellystingarnar í Versölum njóta sín tvímælalaust betur í myrkum sal með góðum hljómgæðum.

Mikið er annars gaman að fara í bíó. Sérstaklega svona á miðjum degi í kældan sal og í landi þar sem ekki eru þessi bölvuðu hlé sem eru eyðilegging á öllum myndum, góðum og slæmum.

Hér skín sólin og hitastigið er akkúrat eins og það á að vera, 24 stig. Dásamlegt. Ég sendi ykkur nokkrar gráður og sólargeisla í DHL til Íslands á dögunum, en það virðist hafa horfið á leiðinni, líklega farið til Írlands fyrir mistök. Óska ykkur öllum innilega til hamingju með daginn í dag og vona að ekki rigni upp í nefin á ykkur þegar þið horfið upp til fjallkonunnar.

Lifið í friði.