18.6.06

drengjakór

Tónleikar Drengjakórs Reykjavíkur í gær voru frábærir. Yndislegur söngur, yndislegir drengir, yndislegt veður, yndisfagur salur í Ráðhúsi 16. hverfis, fín ræða sendiherra, mælskur að vanda og svo fórum við hjónin við fjórða mann eins og verstu túristar og leyfðum einu af kaffihúsunum við Trocadéro að ræna okkur með okurverði á mat. En það var sannarlega þess virði.
Gott að komast aðeins út með manninum sínum, finnst ég bara nota heimilið sem stað til að skipta um föt, skelli í eina vél við og við og ætla ekki að segja ykkur hvað hrúgan sem á eftir að ganga frá er orðin stór. Það gerir maðurinn minn ekki, enda hefur hann ekki leyfi til þess þar sem ég hef engan áhuga á að þurfa að leita dyrum og dyngjum að fötunum mínum sem gætu allt eins ratað í eldhússkápa, það gleymdist alveg að setja skápaskilningsselluna í hann. En það er gaman að fara með honum út og svo er margt annað sem hann gerir á heimilinu og gerir vel svo ég er ekkert að kvarta. En stóra hrúgan skal hverfa á morgun, því get ég lofað. Svo þarf ég bara að fara að sjá ógurlegu myndina um lykil nokkurn og svo er það náttúrulega bara hneisa að Vatnaliljur Monets hafa nú verið til sýnis í mánuð án þess að ég hafi farið. En ég er að spá í að skoða þær á miðvikudaginn með börnunum, því þessi verk eru sannarlega barnvæn. Reyndar er Fête de la Musique á miðvikudag, sem gæti sett strik í þá reikninga.

En í dag er hitinn að hækka, ekki gott mál, og ég á leið í Versali, gott mál.

Lifið í friði.