frænkurnar
Í dag koma frænkur mínar í heimsókn til Parísar. Flestar að koma í fyrsta skipti og allar að koma að heimsækja mig í fyrsta skipti. Ég hlakka til, þetta verður fjör, við eigum ættir okkar að rekja vestur á firði (er Siglufjörður ekki annars fyrir vestan? Er ég núna búin að kúka á mig opinberlega?) og yfirleitt mikið fjör þegar þetta fólk kemur saman.Ég er búin að vera jafnstressuð yfir þessum hóp og öðrum hópum, það er ekki einleikið hvað ég get gert mig hrædda um að hlutir klúðrist, að ég standi mig ekki, að þeim líki illa við mig o.s.frv. Núna þarf ég ekki að óttast neitt slíkt að ráði, en samt er ég spennt, með stífar axlir og hnút í maga.
Kannski var það ekki að ástæðulausu því ég var vakin kl. 7.15 (5.15 að íslenskum tíma) með fréttir af breytingum á stærð hópsins. Ég gekk því beint í að breyta rútupöntunum (vorum einmitt einni of margar í minnstu rútuna) og afpanta rúm á hótelinu. Vona að þetta verði allt í lagi, allt saman þó leiðasti hlutinn sé einmitt fækkunin í hópnum.
Gulla systir datt út fyrir þó nokkru síðan vegna þess að RÚV hefur ákveðin völd yfir fótboltanum og niðurröðun leikja og gat, með skömmum fyrirvara, pínt KSÍ til að færa einn af aðalleikjum sumarsins. Systir mín er fótboltadrottning og getur vitanlega ekki sagst vera forfölluð þegar stórleikir fara fram. Ég var búin að jafna mig á svekkelsinu með hana, enda á hún ennþá miða út til mín og ætlar að koma síðar. Ég er þó alls ekki sátt við völdin sem RÚV hefur til að breyta dagskrá sumarsins, og alls ekki sátt við að aðalleikur kvennadeildarinnar er settur á stóra ferðahelgi. Þetta finnst mér hneisa, en maður hefur þurft að heyra svo margt slæmt um kvennaboltann í gegnum tíðina að skrápurinn er farinn að harðna.
Verra er að nú vantar eina af systrunum átta sem ferðin snýst um. Og að hópurinn byrjaði að vera vesen áður en hann lagði af stað í flugið.
Ég er farin að taka til. Frænkurnar (og mamma) eru að koma!
Lifið í friði og góða helgi.
<< Home