yosoy
Yosoy er góð bók, finnst mér. Samt svolítið vond. Þetta er dæmigerð svona bók sem maður þarf að leggja niður og geyma í nokkra mánuði og lesa svo aftur. Sem og ég ætla að gera. Finn ekkert almennilegt um hana á netinu. Svekkjandi. Sé að Gauti Kristmanns hefur dásamað hana og reyndar fleiri gagnrýnendur, en finn enga rýni í heild til að lesa.Í gær fór ég með börnin í almenningsgarðinn eftir skóla. Þar var varla nokkur sála sem var undarlegt þar sem yfirleitt er troðningur og læti á þessum tíma dags og í svona veðri. Ég hugsaði með mér að fólk hlyti bara að vera komið með nóg af 32 stigunum og hefði flúið inn til sín í kalda sturtu.
Í garðinum sat þó einn eymingjans maður, frekar skítugur og illa til fara með slitinn bakpoka hjá sér. Hann var að súpa á bjór og borða snakk. Ég settist á bekk í skugga þó að sólin væri einmitt á bak við ský. Svo braust sólin fram og þá kom eymingjans maðurinn yfir á bekkinn til mín, umlaði á bjagaðri frönsku að sólin væri of sterk og settist niður. Ég brosti bara og færði skólatöskurnar til svo hann hefði nóg pláss fyrir dótið sitt. Hann benti á litla stelpu og sagði "fille, fille?" borið fram eins og fillet í nautafillet en ekki fíj eins og maður á að gera á frönsku. Ég hristi höfuðið og benti á einn garçon og eina fíj. Hann brosti. Svo rétti hann bjórdósina til mín og bauð mér sopa. Ég þáði ekki. Þá bauð hann mér snakk. Aftur afþakkaði ég með bros á vör. Kári kom til mín og skreið upp í fangið á mér, að leka niður úr hita. Við röbbuðum saman á íslensku. Eymingjans maðurinn spurði mig hvort ég væri frá Alsír (!). Ég neitaði því og sagði Iceland, Islande. Ah, það fannst honum merkilegt og sagðist sjálfur vera frá Rúmeníu, Búkarest. Ah, sagði ég, mig langar að koma þangað, hef heyrt að hún sé falleg, borgin Búkarest. Hann brosti og allt í einu fékk ég sting í magann yfir því að hér situr hann, einn með pokann sinn, allt sem hann á, og er að leita að betra lífi í þessu landi þar sem fallega borgin Búkarest gat ekki boðið honum mannsæmandi líf.
Þegar hann var búinn með bjórinn stóð hann upp og fór. Kvaddi mig með virktum, kjáaði framan í Kára og gekk léttum skrefum út úr garðinum. Stoppaði aftur við hliðið og vinkaði okkur í síðasta sinn.
Ég veit að maður á ekki að skammast sín fyrir það sem maður á. Ég hef alltaf barist harkalega gegn því að við leyfum okkur að sökkva í pytt sjálfsvorkunnar yfir því að vera forréttindahópur.
En stundum fyllist maður samt einhvers konar sorg og örvinglan þegar fólkið sem á ekki neitt kemur of nálægt manni. Það er bara staðreynd.
En yfirleitt næ ég að vera bara glöð og ánægð með að vera svona heppin. Og ekki vildi ég láta skera úr mér blygðunartilfinningaheilastöðina.
Ég er... fín eins og ég er.
Veðrið er frábært í dag. 26 stig og ekki alveg heiðskýrt þannig að maður fær pásu frá sólinni við og við. Svona á þetta að vera næstu fjóra mánuðina takk.
Og ég var næstum búin að gleyma: Garðurinn var tómur því það voru víst 11 spengilegir Frakkar að sperra sig eitthvað í beinni útsendingu á þessum sama tíma.
Lifið í friði.
<< Home