21.6.06

klukk

1. Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?
Mjög erfið spurning. Margar bækur hafa haft mikil áhrif á mig, enda er ég afar áhrifagjörn manneskja. Ég man vel eftir upplifuninni sem Sjálfstætt fólk og Salka Valka voru. Meðan ég las Sölku Völku fannst mér ég vera hún. Þórbergur kremur alltaf í mér hjartað, Milan Kundera var á tímabili mitt leiðarljós og er Brandarinn líklega sú sem ég man hvað best eftir úr hans brunni. Einhver ein sem stendur upp úr? Kannski Birtíngur e. Voltaire í þýðingu HKL. Já, ég held ég geti sæst á það með sjálfri mér... í bili.
Auðvitað hafði líka Draumalandið nýlega mikil áhrif á mig, en það er eiginlega of banalt að nefna það einmitt núna. Eða hvað?

2. Hvaða tegund bóka lestu helst? Skáldsögur, krimma, ævisögur, ljóð eða eitthvað annað?
Ég er alger alæta, les á íslensku, frönsku og ensku allt sem ég kemst yfir. Ljóð get ég þó eingöngu lesið á íslensku. Næ mjög sjaldan að verða fyrir hughrifum á öðrum tungumálum í þeim flokki.
Ég á langerfiðast með að lesa heimspekirit, sem ég hef helst reynt á frönsku og yfirleitt gefist upp.
Les mikið sögubækur vegna vinnunnar, en var með sögufóbíu í skóla og þess vegna hvæsti sögukennarinn minn á síðasta ári í menntó á mig að hann skildi alls ekki hvernig ég hefði komist þangað.
Allar góðar skáldsögur eru jafnar fyrir mér, hvaða flokk sem fólk vill setja þær í. Vondar skáldsögur vekja hins vegar yfirleitt mikla reiði- og vonbrigðatilfinningu með mér.

3. Hvaða bók lastu síðast?
Var að ljúka við Yosoy e. Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Var hálfnuð með Risafurur og tíminn e. Jón Kalman Stefánsson en tókst glæsilega að skilja hana eftir á hótelherbergi þar sem henni var líklega hent (nema skúringakonan hafi ákveðið að stela henni og að kvöldsögurnar á afrísku heimili í úthverfi Parísar séu nú á íslensku).
Er núna með Um Anarkisma e. Nicolas Walter í þýð. Sigurðar Harðarsonar (mæli eindregið með að þið kaupið ykkur þetta og lesið) og The Luck of Barry Lyndon e. William M. Thackeray sem er hin besta skemmtun.

Ég geri mér fulla grein fyrir að ég ofsvaraði spurningunum, en ég hef beðið svo lengi eftir því að einhver spyrði mig svona spurninga (var nú að vona að það yrði Lesbókin eða annað menningartímarit en verð víst að láta bloggvin mér duga) að ég bara gat ekki haldið í mér.

Ég klukka Uppglenning, Ljúfu, Hildigunni og Rustakusu. Og hvet alla óklukkaða til að svara þessu líka, eða er ég þá að eyðileggja leikinn?

Lifið í friði.