20.6.06

bolti

Nokkrar ástæður til að fyrirlíta fótboltann:

Laun atvinnumanna eru svo svimandi há að manni getur ekki annað en ofboðið. Þeir eru ekki eina oflaunaða starfstéttin í heiminum, það skal alveg viðurkennast, en þeir eru oflaunaðir og það finnst mér ógeðfellt.
Nefni tvö dæmi: Ronaldinho skilst mér að hafi unnið sér inn 120 milljónir evra á ferlinum. Það þarf enginn á slíkum svimandi fjárhæðum að halda. Togo-liðið hefur verið í fréttum því þeir fá ekki greitt. Þeir vilja 120.000 evrur fyrirfram, summa þessarar tölu fyrir allt liðið er hærri en samanlögð árslaun alls verkafólks í Togo. Þetta finnst mér óviðurkvæmileg ójafna.

Til að "þjóna" betur áhorfendum voru fluttar inn hórur til Berlínar, tímabundið. Klukkustundin hjá þeim er ódýrari en miði á leik. Reyndar er leikurinn aðeins lengri en klukkustund, en samt, hvað er í gangi?

Alvöru áhugamenn, áhangendur liða til margra ára, fólkið sem gerir það að verkum að hægt var að umbreyta fótboltakeppnum í markaðsvöru, er nú úti í kuldanum hvað varðar aðgang að miðasölu. Hópar frá McDonalds strolla vel merktir upp í stúkuna, meðan venjulegir bjórþambarar úr sveitinni sem hefðu verið tilbúnir til að greiða háar summur fyrir miða, standa svekktir á "reykmettuðum knæpum" og horfa á leikinn af skjá.

Hvernig er hægt að þola svona leiki þar sem algert einræði ríkir? Frakkarnir hafa ekkert staðið sig með stakri prýði þetta árið, en þeir skoruðu nú samt TVÖ heiðarleg mörk gegn Kóreu á dögunum. Málið er að dómarinn sá ekki annað markið. Á meðan skoruðu Englendingar algerlega ólöglegt mark, skorarinn hélt bókstaflega í rastafléttur varnarmannsins meðan hann skallaði boltann í netið, en dómarinn missti af þessu og því er markið gilt.

En þó ég sé í fyrsta lagi ekki mjög áhugasöm um íþróttir almennt og í öðru lagi þyki mér þetta fótboltamarkaðssponsoradæmi ógeðfellt skal það hér með viðurkennast að einhverjar tilfinningar bærast í brjósti mér þegar Frakkland klúðrar hlutum OG að á dögunum greip ég, eins og í vímu, lítinn bol handa Kára, merktan franska liðinu, í HogM. Ég, sem var svo hégómleg að telja að ég gæti samsvarað lýsingu Andra Snæs á "markaðslega einhverfri" manneskju.

Svona er ég nú veik og óstaðföst eftir allt saman.

Lifið í friði.