27.6.06

afskræming

Mér finnst svartklædda konan í kuflinum sínum með slæðuna yfir hárinu og í fallegu skónum sem hún keypti sér í tískubúð, þessi sem heilsar mér alltaf svo glaðlega í almenningsgarðinum, alltaf eitthvað svo hrein og hugguleg og góð við börnin sín eins og við íslensku konurnar erum góðar við börnin okkar, mér finnst þessi kona einhvern veginn svo þúsund sinnum heilbrigðari og lík mér sjálfri, líkleg til að geta orðið vinkona mín, heldur en strekkta konan sem ég sé stundum á gangi hér um hverfið, með strekktar varir en samt bólgnar, strekkt undir augunum og ekkert blik í þeim, lítur aldrei framan í mig hvernig sem ég reyni að glápa á hana og kanna viðbrögðin, engin viðbrögð, bara tóm.
Kannski er ég bara fordómafull og kannski er þessi kona mjög ánægð með árangurinn af aðgerðinni. Kannski er sú svartklædda með slæðuna óhamingjusöm og kúguð og ég neita að horfast í augu við það af því ég er hræsnari. Kannski.

Ég hvet ykkur til að lesa grein kj á Múrnum frá í dag. Er það virkilega orðið svona óhugnalegt þetta litla land mitt í fjarskanum? Á ég að hafa áhyggjur af ykkur? Ég sem fylltist svo mikilli von eftir kynni mín af fólki hér í síðustu viku sem býr í íbúð í blokk með 3 börn og fer í strætó í vinnuna og eyðir frekar smá aur í ferðalög með fjölskylduna. Ég sem hélt að kannski væri Ísland bara besta land í heiminum. En hvað?

Lifið í friði.