27.2.07

án titils

Sirkúsinn var náttúrulega æði, ég er nefninlega fædd með sirkúsþrá í blóðinu og sé mig alveg í anda ganga á stórum bolta, hjóla á einhjóli, kasta fimm boltum upp í loftið og grípa með tánum og auðvitað er ég í glitrandi níðþröngu cat-suit með glimmer á augabrúnum og bleikan kinnalit. Svo bý ég í marglitu hjólhýsi og ferðast milli staða með sýningaratriðið mitt.
Mér finnst dýraatriðin nauðsynleg í svona hefðbundnum sirkús og trúi því statt og stöðugt að dýratemjarar elski dýrin sín og fari vel með þau. Og að dýrin elski athyglina, sviðsljósið og sakni frumskógarins ekki neitt.
Ég hef hins vegar séð tvo óhefðbundna dýralausa sirkúsa og haft mjög gaman af. Annar þeirra var belgískur mínímalískur sirkús sem tjaldaði örsmáu tjaldi í Hljómskálagarðinum á Listahátíð í Reykjavík forðum. Comedia dell'Arte ásamt sígaunaþema. Frábær skemmtun.
Hinn var þungarokksirkús sem var mjög frægur í París fyrir 17 árum, götulistamenn sem sameinuðust og náðu mikilli velgengni í einhvern tíma. Veit ekki hvað varð um þau, líklega orðin kótilettukarlar og -kerlingar í dag.

Það sem mér finnst merkilegast við sirkúsinn er hvað ég samþykki staðalmyndirnar auðveldlega í atriðunum. Jonglarinn sem er kominn í einhvers konar framúrstefnu, þungarokkið ómar undir, búningurinn frekar pönkaður, er samt með ljóshærða íturvaxna konu til aðstoðar. Megnið af tímanum stendur hún eins og mjög vel gerður hlutur, fallegur skúlptúr, brjóstin þrýstast út í bolinn, skoran, vá, aldrei hef ég fundið haldarann sem býr til svona flotta skoru. Við og við raðar hún upp keilum eða tekur til eftir hann, hún fær ekki einu sinni að kasta til hans boltunum, það kemur hálfósýnilegur sviðsmaður fram til þess, líklega verið ákveðið að það væri of vandasamt fyrir hana, og í lokin, undir trylltu lófataki, gengur hann til hennar og tekur utan um hana á sama hátt og versti latínódurgur í gamalli New York mynd. Og hún vefur sér utan um hann, temmilega getnaðarlega og virðist honum gersamlega undirgefin. Og þetta truflar mig ekki neitt heldur finnst mér þetta skemmtilegt. Þetta er hluti af sirkússýningunni. Flottir sterkir karlar og fagrar hálfberar konur.
Róluatriðið gengur út á að karlarnir tveir, með axlir eins og He-Man, sýna heljarstökk og fleira hættulegt undir trommuslætti og dauðaþögn. Inn á milli grípur stærri maðurinn konurnar sem eru í g-strengsbolum, léttilega undir fögrum fiðlutónum. Þær eru skraut. Blóm á engi. Þeir eru atriðið sem fær áhorfendur til að grípa andann á lofti. Og ég læt það ekki trufla mig nógu mikið til að verða pirruð.

En samt er ég að skrifa um þetta hér þannig að kannski truflar þetta mig eitthvað.

En ekki jafnmikið og fréttin um manninn sem gekk stórslasaður um miðja nótt um götur Reykjavíkur (Höfðarnir eru Reykjavík, þið þarna 101bloggarar) og fékk enga hjálp. Það er náttúrulega eitthvað að. Er fólk virkilega svona hrætt í henni Reykjavík? Vinur minn, Benoît, rifjar stundum upp þegar hann var að segja Íslendingum frá Bogota og að hann gat aldrei farið út á kvöldin. Þau kinkuðu ákaft kolli, hjónin, og sögðu að nákvæmlega svona væri þetta orðið í Reykjavík líka. Þetta var fyrir 10-12 árum síðan. Hann ákvað að vera ekkert að reyna að ræða þetta frekar við þau. Leyfði þeim að halda að Reykjavík væri Bogota Norðursins.
Er það ekki málið að við höldum að allt sé svo slæmt? Og hverju skyldi það vera að kenna?

Lifið í friði.

26.2.07

Frökk

Ég er búin að vera afar frökk undanfarna daga í að reyna að finna tónleikastað fyrir kór nokkurn, það hefur líklega fyllt mig einhverju hugrekki/æðruleysi og gerðist ég nú rétt í þessu frökk fyrir sjálfa mig.

Miðað við svarleysið sem hingað til hefur fylgt mínum frökku sendingum, ætla ég ekki að gera mér neinar vonir, ég fer ekkert í það að kaupa flugmiðann núna strax. En ég krossa þó fingurna enda er ég þannig að ég held yfirleitt í vonina fram í rauðan dauðann, gefst ekki upp fyrr en í fulla hnefana og læt ekki bugast þó á móti blási.

Ég er reyndar í fýlu núna vegna svarleysis við frökku tölvubréfunum frá síðustu viku annars vegar og vegna þess að ég ætlaði að hlusta á eitthvað þægilegt á RÚV meðan ég flakkaði um netið í leit að fleiri stöðum til að senda frökk bréf til en vefurinn vill ekki opna síðurnar til að hlusta (hvað í ósköpunum á að kalla slíkar síður? Straumsíður?). En ég er aldrei lengi í fýlu.

Lifið í friði.

hvert er nafnið, hver ert þú?

Hví er ég Arinbjarnarson? En hvorki Kúld né Schiöth...

Þegar ljóst var að Terra Nova var selt og ákveðið að hætta með skipulagðar ferðir til Parísar, tók ég að mér hóp sem var eiginlega bæði síðasti hópurinn á þeirra vegum og fyrsti hópurinn á eigin vegum. Ég var sem sagt að hugsa minn gang og langaði til að halda áfram að taka á móti fólki hérna en vissi ekki alveg hvernig ég ætlaði að fara að því og vissi hreinlega ekki hvort ég hefði hugrekki til þess.
Ég var búin að spá í þetta í einhvern tíma og hafði m.a.s. fundið gott nafn, Leiðarljós. En í ljós kom að til er bókaútgáfa á Íslandi sem ber þetta nafn svo ég ákvað strax að hætta við það. Eina hugmyndin sem ég hafði var Parísardaman, en mér fannst það samt ekki neitt sérlega skemmtilegt, það vantar allan húmor, hljómar jafnvel dálítið uppskrúfað, býst ég við.
Þegar ég var að skila hópnum út á völl fóru þau að spyrja mig spjörunum úr, hvernig ég ynni og hvert ætti að vísa fólki í framtíðinni. Ég sagði þeim umhugsunarlaust að ég myndi markaðssetja mig sem Parísardaman og þau yrðu að fylgjast með því.
Stuttu síðar fór ég til Íslands og tók endanlega ákvörðun. Ég hringdi í öll dagblöðin og var komin með viðtöl um leið enda hafa fjölmiðlar ávallt áhuga á að vita um Íslendinga í útlöndum, sem betur fer fyrir mig. Ég er enn að fá fólk út á þessi fyrstu viðtöl og einnig út á þau sem síðar hafa verið tekin. Ég hef aldrei borgað fyrir auglýsingu, veltan hjá mér býður hreinlega ekki upp á það, en svo vel vill til að fólk les svona greinar og klippir þær út og geymir, jafnvel árum saman. Ég dáist að svona fólki, vildi óska að ég væri jafn skipulögð.
En ég efast enn þann dag í dag um nafnið og sé stundum eftir því að hafa ekki spáð meira í þetta. Aftur á móti er alveg ljóst að ég hef aldrei fundið neitt betra. Verst þykir mér að hafa notað sama nafn á bloggið, það var gert í sama bríaríi og annað sem ég geri.

Og nú ætla ég að skella Spilverkinu á fóninn og taka til. Hvíldarhelgar þarf að greiða dýru verði á mánudeginum.

Lifið í friði.

25.2.07

Pourqoi pas?

Fyrirsögnin vísar vitanlega í hátíðina sem nú stendur yfir á Íslandi. Fullt af spennandi frönsku efni að neyta, ég mæli eindregið með sýningum á myndum Depardon, sérstaklega þeirri sem fjallar um réttarkerfið, hún er stórkostleg.
Og ég myndi vilja komast á þessa sýningu sem fréttin vísar í, fer ef hún verður áfram í sumar. Breytt: Nú vísar fyrirsögnin í síðu hátíðarinnar en ekki frétt mbl.is um sýningu í Sandgerði.

Í dag er sunnudagur og hefur hann verið haldinn sérlega heilagur á þessu heimili í dag. Hvíld og hvíld og svo meiri hvíld. Og nú ætlum við í sirkús.

Lifið í friði.

23.2.07

að öllu alvarlegri málum

Álum.

Uppþvottavélin biluð. Viðgerðarmaðurinn kemur á miðvikudaginn.

Lifið í friði.

pensées à vendre

Þetta stóð á skilti við veginn þegar ég ók í gegnum Périgord á dögunum. Afskaplega ljóðrænt því ég skildi þetta vitanlega sem "hugsanir til sölu".

En pensée er ekki eingöngu hugsun heldur líka fjólutegund með fimm krónublöð: fjögur upp og eitt niður skv. wikipedíunni frönsku. Ég stoppaði ekki til að kaupa mér vönd af fjólum.

Lifið í friði.

vammleysið ógurlega

Ég er að mörgu leyti sammála Rafauganu, Hvalveiðimanni, Fjallabaksleið, Þórdísi og Reykvísku sápuóperusöngkonunni sem og Mengella (Mengellu?) sem kemur einmitt með orðið sem ég hef leitað að í marga daga, vammleysi en mér finnst samt ógurlega mikil einföldun af þeirra hálfu að skrifa þetta allt á siðgæðisvitund gerfivammlausra húsmæðra/bænda/framsóknarmanna...
Það er full ástæða til að minna á svartar hliðar þessa risastóra og blómstrandi bransa sem klámiðnaðurinn er og brýn nauðsyn að gleyma því ekki að þó til séu pæjur og gæjar með stór brjóst og typpi sem mæta galvösk og skemmtilega kjaftfor í spjallþætti og telja stolt hjásvæfurnar, fullnægingarnar og aðra sigra á sínu sérsviði sem klámstjörnur, er líka til fólk sem er hreinlega tekið höndum af grimmu fólki, lokað inni, dópað upp, nauðgað á hverjum degi í margar vikur þangað til engin lífslöngun er eftir, ekki snefill af sjálfsvirðingu og þá er hægt að nota það í kvikmyndir eða kasta þeim út á götu þar sem það stendur kynlífsneytendum til boða. Það er þessi hluti, þessi skuggalega veröld sem femínistar voru að benda á og hafa fullan rétt á að benda á.
Ég er fullkomlega meðvituð um að það getur meira en verið að fólkið sem var á leið hingað sé allt í fyrrnefnda hópnum, skemmtilega frjálst undan oki þess að líta á kynlíf sem tabú og einkamál, hafa þörf á því að sýna kynorku sína og njóta allrar athygli út í ystu æsar, fá kikk út úr því að ganga fram af meðaljónunum.
Ég býst m.a.s. fastlega við því að svo sé og sá einmitt alltaf fyrir mér reiðilega menn með heykvíslar á flugvellinum rekandi dónapakkið öfugt upp í vélina.
En vegna þess hve erfitt er að skilgreina klám og hve erfitt er að sjá á myndum hvort misbeiting hafi átt sér stað er í raun varla hægt að ræða þetta mál.
Auðvitað voru einhverjir moggabloggarar að ræða þetta á svarthvítu morfísnótunum en alls ekki femínistarnir, það er fals að tala um að allir sem voru á móti þessum hópi hafi skömm á "kynörvandi efni sem inniheldur konur" eins og gefið er í skyn t.d. í athugasemd hjá Hreini Hjartahlý.

Mig dreymir um heim þar sem þau sem vilja vera nakin, fái að vera það í friði. Að þau sem vilja vera með blæjur og slæður í ökklasíðum kjólum, fái að vera það í friði. Og að þessir tveir hópar nái þeim þroska að skilja og virða þarfir hvors annars sem og þeirra sem fara heldur hinn kræklótta og þrönga gullna meðalveg.

Mig dreymir um þrælalausan heim þar sem allir eru jafnir.

Ég hata mest í sjálfri mér alla hneykslunartilfinningu, vandlæting er syndum verst.

Lifið í friði.

22.2.07

Noh, hættir við

Nú gæti ég sem best trúað að tómleikatilfinning hellist yfir þjóðina.

Næsta mál á dagskrá: Eurovision, Islande douze points.

Lifið í friði.

léttar spurningar

sem ég svaraði í gær og því er eitthvað af svörunum úrelt. Kemur frá Heiðu:

1. Það er dinglað hjá þér tvö að nóttu. Hver myndir þú vilja að það væri? Einhver af mínum góðu vinkonum með kampavínsflösku að vopni.

2. Yfirmaður þinn segir að hann muni veita þér launahækkun ef ..? Enginn yfirmaður, enginn undirmaður, bara ég.

3. Þú í hnotskurn? Kát angist.

4. Hefur þú séð draug? Nei en ég hef talið mig sjá draug.

5. Ánægður með líkama þinn? Mátulega.

6. Ég myndi flytja til Akureyrar ef...: mér byðist áhugaverð vinna og maðurinn minn gæti einbeitt sér að skrifum eða fengi líka góða vinnu, a.m.k. að hann þyrfti ekki að fara í skúringar vegna tungumálaörðugleika.

7. Staður sem þú hefur búið á og saknar: Breiðholtið hefur alltaf sinn sjarma í mínum huga og ég er þess fullviss um að það verður tískuhverfi þegar 101 hrynur af sínum stalli.

8. Vinna sem þú myndir aldrei starfa við, sama hvað þú fengir borgað: Ég hef þá trú að ef ég ákveð að gera sem best úr því sem ég hef er allt í allra besta lagi. Mig óar samt við tilhugsuninni um að vinna hjá MacDonalds og ekki vildi ég þurfa að stunda vændi eða sölu á fíkniefnum.

9. Hljómsveit sem þér fannst "cool" þegar þú varst 13: David Bowie var alltaf flottastur, Talking Heads voru smart, sem og íslensku pönkararnir og Egó náttúrulega, eða var ég þá tólf ára?

10. Þú vaknar upp eftir slæma martröð, í hvern myndir þú hringja? Emblu ef ég verð að hringja eitthvert, yfirleitt er mér nóg að hnippa í manninn minn og hann huggar mig.

11. Langar þér að eignast börn fyrir þrítugt? Ég eignaðist börnin mín eftir þrítugt.

12. Sterkasta minningin þín úr framhaldsskólanum: Þegar Guðni kjaftur tók mig á teppið og tilkynnti mér: Þér eruð róni.

13. Einhvern tímann verið ástfangin af maka vinar? Nei.

14. Mesta prakkastrik sem þú hefur gert í vinnunni? Í sjálfboðaliðastarfi sem við vinirnir tókum að okkur einn veturinn, settum við upp leikrit til að safna fyrir Afríkuferð fyrir börn af afrískum uppruna. Á lokasýningunni setti ég íslenskt brennivín í lyfjaflösku sem var vanalega fyllt af vatni og sem ein lítil viðkvæm frönsk leikkona tók gúlsopa af á sviðinu. Hún hélt að hún hefði ruglast á flöskum og að hún myndi kannski líða út af á miðri sýningu en tókst samt að halda andlitinu nokkuð vel og er enn á lífi í dag en biður mig aldrei um að gefa sér skot af brennivíni.

15. Hvorum foreldra þínum líkist þú meira, móðir eða föður? Ég er fullkomin blanda af þeim báðum.

16. Eitthvað sem þú hefur alltaf viljað læra að gera: Rennismíði, stangastökk, mósaík ó, svo margt...

17. Ennþá vinur fyrrverandi maka? Já, þannig lagað. En betri vinur fyrrverandi tengdamóður.

18. Hvar myndir þú vilja vera eftir 10 ár: Þess vegna á sama stað. En það væri gaman að hafa aðgang að smá svölum fyrir pastísdrykkju á góðum dögum.

19. Eitthvað sem þú lærðir um sjálfan þig á þessu ári(2006): Áreiðanlega, er maður ekki alltaf að þroskast?

20. Hvað langar þig í í afmælisgjöf? Besta gjöfin er heimsókn vina.

21. Nefndu þrjá hluti sem þú gerðir í dag? Passaði þrjú börn í viðbót við mín, skrifaði formlegt bréf út af kór sem er að leita að sal í París, fór í eina þá snöggustu sturtu sem sögur fara af (meðan börnin fimm léku sér frammi).

22. Það síðasta sem þú verslaðir fyrir þig? Skíðabuxurnar.

23. Er eitthvað hangandi undir baksýnisspegilnum í bílnum? Ekki lengur. Ég sakna bangsans sem kom frá fyrri eiganda, en dóttir mín kippti honum niður fyrir löngu síðan.

24. Hvað fékkstu þér í morgunmat? Kaffi og bygggraut með peru og banana.

25. Hver í kringum þig er með flestu húðflúrinn: Enginn hefur slegið honum Dominique við, en ég hef ekki hitt hann í tja, fimmtán ár. Margir með eitt lítið, man ekki eftir neinum með almennilegan áhuga á slíku í kringum mig núna.

26. Hvað sefur þú að jafnaði í marga klukkutíma á sólahring? Þarf helst 8 tíma, hvorki meira né minna.

27. Hefur þú einhvern tímann verið bundinn? Ég var bundin við sjúkraflutningamann í sjúkrabíl svo ég gæti haft fótinn ofan í fötu.

28. Hvað hefðir þú frekar vilja vera gera þessa stundina? Ég sé mig nú alveg í anda á kaffihúsi með vinkonunum.

29. Hvaða nafn kemur fyrir fremst í símaskránni þinni? Addý er og verður alltaf fremst, bæði í farsímanum og litlu adressubókinni minni.

30. Hvenær varstu síðast vitni af slagsmálum? Börnin slást svo til daglega, telst það með? Svona hræðileg annarra manna slagsmál... man ekki en ég sé slíkt sjaldnar í París en í Reykjavík, sem segir nú sitt um það sorabæli, he he he.

31. Hvaða áfenga drykk drakkstu þú síðast? Rauðvín.

32. Finnst þér gott að láta toga í háríð þitt? Já, mmm. Gott gegn höfuðverk.

33. Nefndu þrjá staði sem þú myndir vilja ferðast til: Bara þrjá??? Mig langar út um allt. New York, Sikiley (aftur), Kaíró.

34. Ertu góð/ur á skautum? Úff er á leiðinni að athuga það fljótlega. Hef þó aldrei kunnað neinar listir aðrar en að teikna áttu á svellið.

35. Hvað finnst þér um BRAD PITT? Ha? Þekki hann ekki. Sætur súkkulaðigaur sem ég hef enga skoðun á.

36. Hvaða litur er á táneglunum þínum? Get ekki verið með naglalakk, fæ innilokunarkennd.

37. Við hvern talaðir þú síðast við í síma? Cristelle.

38. Átt þú eitthvað með hauskúpu á? Ég býst við að hér sé verið að meina föt eða skraut, nei, svei mér þá ég man ekki eftir neinu.

39. Hefur þú ferðast mikið innanlands? Sæmilega, ekki klifið neitt af fjöllunum utan mislukkaða ferð á Fimmvörðuhálsinn en jeppinn hans pabba bar okkur á ýmsa markverða og vel falda staði á sínum tíma.

40. Síðasta mynd sem þú sást? Hm, hugsa svo fast að það rýkur úr hausnum. Sú sem ég sá í bíó síðast var Little Miss Sunshine (Ungfrú Sólskinsbros) en ég hef örugglega séð eitthvað síðan í vídeó sem ég bara man alls ekki hvað var.

41. Hvar varst þú þegar þú fékkst fyrsta kossinn? Á leikvelli í Breiðholtinu.

42. Síðasta spil sem þú spilaðir? Yatzy, við Arnaud spilum það reglulega.

43. Hefur þú fengið glóðarauga? Já, en ekki eftir barsmíðar, bara vegna minnar skertu rýmisgreindar.

44. Á hvaða videoleigu ferð þú helst? Enga en Arnaud fær lánaðar myndir á bókasafninu.

45. Hefur þú gengið í sokkabuxum? Já, er mjög mikið í sokkabuxum, allt frá 20 denum upp í þykkustu gerðir ullarbróka.

46. Þekkir þú einhvern sem er í fangelsi? Nei, ekki í augnablikinu. En ég hef þekkt menn í fangelsi, er það kúl?


Lifið í friði.

21.2.07

súkkulaði og vín

Minni á námskeið Vínskólans í kvöld. Fullkomið fyrir þunga og þreytta. Súkkulaðið kætir og vínið bætir og saman er þetta symfónía sem getur ekki annað en heppnast.

Lifið í friði.

Tónleikar i kvöld

Í kvöld, 21. febrúar.
Olivier Manoury Quartet
Staður: Le Triton, 11bis, rue du Coq Français, Les Lilas (metró: Mairie des Lilas).
Mæting kl. 20:30, tónleikar hefjast kl. 21. Aðgangseyrir 15 evrur.
Pantanir: 01 49 72 83 13.

Og 27. febrúar verður sami kvartett með tónleika í New Morning í 10. hverfi í París.
Húsið opnar kl. 20, tónleikar hefjast kl. 21.

Lifið í friði.

Efnisorð:

19.2.07

hvað eigum við nú...

Dóttir mín fékk fallega myndskreytta bók um Búkollu í afmælisgjöf og er þessi klassíska saga lesin hér á hverju kvöldi um þessar mundir.

Það er allt í fína með frásögnina nema eitt sem truflar mig ógurlega. Í "minni" útgáfu spyr drengurinn: Hvað eigum við nú til bragðs að taka Búkolla mín? En í þessari bók verður það: Hvað eigum við nú að gera, Búkolla mín?

Lifið í friði.

Efnisorð:

17.2.07

Kannski eru allir hræddir við frjálsar ástir

Fyrirsögnin er tengill.
Þarna opnast einhver ný gátt fyrir mér og kannski er ég hrædd við að kíkja inn.

Kannski er miklu auðveldara að skrifa þetta á eðli og berjast fyrir réttindum minnihlutans?

Lifið í friði.

16.2.07

Einu sinni var

Fyrirsögnin er tengill. Ég segi það satt að ég myndi fara aftur, væri ég stödd á skerinu.

Svo ég haldi áfram í plögginu:
Vínskólinn er með nokkur spennandi námskeið á næstunni, t.d. um súkkulaði og vín, nammi nammi namm.

Og svo leyfi ég mér að benda á Málbein sem er með langtum skemmtilegasta innleggið í klámæsingamálið ógurlega sem ég ætla ekki að hafa nein orð um önnur en þau að mér finnst klámheimurinn ógnvekjandi.

Lifið í friði.

céréales: korn ≤ art: list

avoine: haframjöl
blé: hveiti
épautre: spelt
millet: hirsi
orge: bygg
seigle: rúgur
son: klíð

Mig dreymir um að einn góðan veðurdag geti ég búið til fransk-íslenskan orðabanka á netinu sem verður öllum aðgengilegur. En ég kann ekki einu sinni á Excel sem mér finnst einhverra hluta vegna vera nauðsynlegt forrit í slíkan banka. Ef einhver þarna úti vill hjálpa mér að koma þessu af stað er ég með ógrynni orða að gefa og ansi lunkin við að vinna á tölvu ef mér er sagt hvernig. Ég vann t.d. lengi á Skrifstofu Símaskrár við mjög flókinn gagnagrunn svo ég er ekki alger byrjandi.

Ég er að taka til í krókum og kimum sálu minnar, ermarnar voru orðnar svo troðfullar af óefndum loforðum að það stefndi í óefni. Ekki vil ég peysulaus kona verða.
Stefnan er nú tekin á að sem mest verði hreinsað upp fyrir mánudag. Sagði einhver helgi? Það er ekki til í mínu lífi, ég vinn og hvíli mig samkvæmt eigin þörfum, ekki neinum alþjóðlegum stöðluðum kerfum eins og launaþrælarnir gera. Stundum verður reyndar minna úr hvíld en æskilegt væri, en það er þá bara bætt upp í næsta tómarúmi. Þau koma alltaf við og við.

Annars er ég að velta fyrir mér greinum um Óperuna í Lesbókinni. Ég nefninlega verð að segja að svar læknisins núna síðast sannfærði mig ágætlega um réttmæti krafa hans. Auðvitað eiga öll börn að fá að sjá Carmen. Það er í raun bara spurning um að ríkið greiði niður ferðir á Carmen í útlöndum ef þeir vilja ekki greiða það niður hér heima. Ég vil ganga svo langt að segja að Carmen sé nauðsynlegri hluti af uppeldinu heldur en Dýrin í Hálsaskógi. Ekki nauðsynlegri en Astrid Lindgren, en Thorbjörn Egner gæti alveg misst sín ef Carmen kemur í staðinn. Best er að fá allt og sem mest af öllu en það er náttúrulega útópísk hugmynd. Að allir þekktu Carmen, La Travíata, Dýrin í Hálsaskógi, Kardimommubæinn, Línu, Ronju, Oliver Twist, Vesalingana, Mary Poppins... listinn er ótæmandi, listin er ótæmandi.

Spurningin er svo: Hvernig er hægt að útrýma mengun eins og Bubba byggi úr lífi barnanna?

Lifið í friði.

15.2.07

svartnætti létt

Svartnættið sem ríkti í sálu minni í gær þegar rigndi stanlaust allan daginn hvarf á brott með skýjunum í nótt. Mér líður mun betur núna og sé fram á að allt verði í allra besta lagi, enda skín sólin glatt á bláum himni hér austan við París. Læknavísindin munu bjarga málunum.
Ef einhver veit um börn sem lifa með því sem kallað er barnamígreni og stundum magamígreni á Íslandi, veit ég um fjölskyldu sem gæti haft áhuga á að komast í samband við fjölskyldur þeirra, lítil vinkona mín hefur nú legið á spítala í viku og hefur ekki getað hætt að kasta upp nema þegar hún er svæfð.

Ósyndi fuglinn sem flýgur yfir endalausan sjó úr síðustu færslu er vitanlega setning frá Sverri Stormsker, einum af eftirlætis skáldum mínum sem ég hef þó ekki hlustað á í mörg ár því ég á ekki plötuspilara. Ég hef þó alla trú á því að úr því rætist líka einn góðan veðurdag og geymi því plöturnar hans ásamt fleiri góðum á besta stað í borðstofuskrifstofugestasalnum. Stundum les ég hann en það er líka langt síðan það gerðist.
Hér er kannski við hæfi að opinbera það að á mánudaginn var ég heima með veikan þriggja ára dreng og skellti Bubba í tækið fyrir hann. Hann dillaði sér við eitt lag en vildi svo ekki meir. Ég veit ekki hvað það var langt síðan ég heyrði Bubba síðast en gamli góði Bubbi stendur nú alltaf fyrir sínu í mínum huga.

Ég er búin að vera að spá í firringu og jarðtengingu sem Siggi Pönk var að pæla í um daginn og ég er alveg sammála honum um að fólkið sem lætur eins og allt sé í lagi hlýtur að vera firrta fólkið en þau sem eyða tíma og orku í að reyna að breyta stjórnkerfum, lögum, áætlunum eða ástandi hljóta að vera þau jarðbundnu og meðvituðu. Dæmið um Heiðmerkureyðilegginguna sýnir hversu firrt það er, fólkið sem ræður yfir okkur.
Eins og Erla Hlyns bendir á: Þarna voru eyðilagðir sérstakir minningarreitir, sögulegir reitir sem hafa kannski ekki endilega neitt gildi í hugum fólks hversdags en eru einmitt blóm í hnappagötum ráðamanna, tilvaldir staðir að velja síðar fyrir hátíðlega athöfn, til að draga fram úr skúmaskotum gleymskunnar þegar eitthvað bjátar á og nauðsynlegt er að minnast góðu verkanna.
En firringin er orðin svo mikil, ákafinn, lætin, tíminn er peningar og allt það, að þeir eru farnir að eyðileggja sín eigin gull.

Ég verð reyndar að játa að eftir nokkurra ára lestur um sögu Parísar og Frakklands kann ég betur og betur að meta staði sem hafa sögulegt gildi, minnismerki og byggingar, torg þar sem eitthvað gerðist eða stað þar sem fólk kom saman og stakk niður tré í súrrealískum tilgangi, mér finnst þetta allt saman skipta máli, vera merkilegt, vil geyma, vernda, halda til haga og flagga þegar það á við.
Ekki til að gleyma vondu hlutunum heldur einmitt til að muna allt, gott og vont.

Það er gott að eiga grunn minninga, við ættum sem best að vita það, nýríka þjóðin sem kennir sig við Víkinga.

Lifið í friði.

14.2.07

ósyndur fugl

á flugi yfir endalausum sjó.

Dagurinn í dag.

Lifið í friði.

13.2.07

oj bara

Fyrirsögnin er tengill. Mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna ég sá þetta ekki á neinum öðrum bloggum sem ég las í gegnum í gær og í morgun. Ég verð að setja þriðju setninguna með fyrir í (annars deyr einhver mér nákominn, he he he)

Lifið í friði.

Efnisorð:

seinvirk en prúð

Ég hef örugglega sagt ykkur frá því að einhvern tímann var þessi umsögn skrifuð í einkunnabókina mína. Mig minnir að það hafi verið í Myndlistarskóla Reykjavíkur.

Og nú var ég loksins að bæta inn tengli á hana Elmu að austan sem ég hef lesið um þó nokkurn tíma og stundum langað mikið til að senda henni athugasemd, til dæmis þegar hún bloggaði á frönsku um tíma með glæsibrag, en ég mun aldrei, ég segi og skrifa, aldrei, skrá mig á moggabloggið.
Elma var í einum af fyrstu hópunum mínum hér í París og höfum við alltaf haldið örlitlu sambandi, skrifast á svona við og við, en ég held að nú sé ansi langt um liðið. Það breytir því þó ekki að mér þykir ákaflega vænt um að hafa haldið sambandi við hana, enda var hópurinn hennar einn sá ógleymanlegasti, ég tók nefninlega algerlega óreynd á móti, tja, hvað voru þær nú aftur margar... áreiðanlega um 50 húsmæður í orlofi að austan. Frábær stemning, frábært veður, frábær hópur. Langt langt síðan og nú veit ég svo miklu miklu meira að stundum óska ég þess að ég gæti heyrt hvað ég var eiginlega að bulla þarna í denn. Alveg eins og mig langar svo ógurlega mikið að heyra í mér þegar ég var að bögglast við frönskuna hérna fyrstu árin.

Svo, til að halda jafnvægi milli karla og kvenna á listanum, bætti ég prakkaranum Jóni Steinari frænda mínum sem er jafn mikill dóni og Elma að blogga í gegnum Moggann en fær þó að vera með þar sem hann er svo góður maður. Ég uppgötvaði hann í gegnum Davíð sem ráðleggur okkur að lesa sögu prakkarans af þorskastríðinu. Ég er ekki enn búin að hlýða því en ætla að gera það fljótlega (þetta er ég farin að segja um allt of marga hluti).
Nú er ég aftur stokkin, ekki hrokkin.

Lifið í friði.

Tíu fingur

Á kvennakvöldinu svakalega sagði Edda Erlends okkur að hún yrði í sjónvarpinu daginn eftir. Ég náði svo að horfa á þáttinn um hana á föstudeginum áður en ég rauk út á völl að ná í mömmu en náði náttúrulega ekki að hrósa honum hér í tæka tíð áður en hann hvarf úr netheimum.
Þessi þáttur var yndislegur eins og hún Edda reyndar er. Ég var alveg hissa hvað Jónas var fínn líka, hef alltaf verið hálfhrædd við hann af lestri greina hans um tónlist í Lesbókinni í gegnum tíðina. Hann reynist vera hinn mýksti og gaf m.a.s. skemmtilega af sjálfum sér þegar hann upplýsti að tangótímar hafi líklega markað upphafið að hans eigin hjónaskilnaði. Undarlegt móment og alveg svona ekta. Allt of sjaldgæft í sjónvarpi þar sem allir reyna endalaust að halda kúlinu, vera óbreyskir og smart, alltaf allt í bullandi vellandi lagi hjá þessu fólki þarna í kassanum.

Edda er ein af þessum "gömlu" Parísardömum sem ég hef alltaf dáðst að úr fjarlægð. Reyndar eru flestar konurnar hérna gull af mönnum, ég veit ekki hvort það er bara mín tilfinning, að ég nái betra sambandi við fólk sem er frönskuelskandi eða hvort hingað leiti eðalfólk, í eðalmenninguna (sic) eða hvort þetta sé bara bull og vitleysa allt saman.
En þær eru hérna margar svo innilega glæsilegar, eðlilegar, hlýlegar, gefandi, kátar og klárar að ég fyllist stundum minnimáttarkennd þegar ég fylgist með þeim úr fjarlægð. Ég vildi óska að ég væri svona lágróma og róleg, kvenleg og hugguleg, eins og þær eru alltaf. Ég bara ræð ekki við brussuganginn í mér stundum, hækka róminn óeðlilega mikið, drekk alltaf ótæpilega og er bara einhvern veginn lítil og þybbin og stutthærð og föl og það bara vantar alveg þetta glæsielement í mig.
Í gvuðs lifandi bænum, ekki fylla kommentakerfið af huggunarorðum, ég er alls ekki vælandi í sjálfsvorkunn yfir þessu. Ég er ánægð með það líf sem ég lifi, það sem ég er að gera og bara almennt get ekki hugsað mér að breyta neinu sem skiptir máli, þetta er bara staðreynd sem ég greinilega þurfti að koma frá mér fyrst hún vall hérna úr puttunum á mér í gegnum lyklaborðið og inn á bloggið. Ég ætlaði í raun bara að þakka fyrir yndislegan sjónvarpsþátt, reynið endilega að sjá hann ef hann verður endursýndur (í sumar?). Það var t.d. alveg magnað að ég ætlaði að nota tækifærið og hengja upp úr vélinni og stússast meðan tónlistaratriðin voru en ég sat alltaf sem lömuð yfir þeim, það er svo frábært að sjá fólk spila á hljóðfæri.
Og þetta hjálpar mér að taka ákvörðun fyrir morgundaginn: Ég ætla á tónleika, nágranni minn hann Cyril er í tríói sem spilar létt djössuð lög og þeir verða á bar í 20. hverfi á morgun, miðvikudag. Ef þig langar með mér, hafðu þá samband í meil og ég gef þér allar upplýsingar um stað og stund.
Á næstu dögum ætla ég svo líka að plögga hann Olivier, mann Eddu Erlends, en hann verður með tónleika bæði þann 21. febrúar og aftur í byrjun mars. En nú verð ég að stökkva því ekki dugir að hrökkva.

Lifið í friði.

12.2.07

yfirlýsing

Nú mun þetta blogg verða endurvakið af þyrnirósarsvefni þeim er nærvera móður og annara góðra gesta veldur.
En fyrst held ég að ég þurfi aðeins að fara yfir gang mála hjá hinum, ég hló upphátt og alein þegar ég sá að ég hafði alls ekki skilið vísun Hreins Hjartahlýs í drullumál eitthvað og hélt að þarna væri eingöngu um skemmtilega óra ungs manns að ræða. Ég er alveg úti að aka í öllu fréttatengdu efni, hér var eingöngu kveikt á sjónvarpinu á fimmtudaginn til að horfa á 24, öll hin kvöldin hefur verið setið að sumbli og blaðrað út í eitt um hluti sem skipta engu eða öllu máli. Íbúðin mín hefur t.d. verið endurskipulögð fimm sinnum, veggir brotnir niður, húsgögn færð til og ýmislegt spáð og spekúlerað með málbandið að vopni. Allt er þó á sínum stað enda voru allar þessar framkvæmdir aldrei færðar af heilabrotastiginu. Og kannski verður þetta bara allt eins og það er í dag áfram, ég bara veit ekki neitt í minn haus og vitanlega stoppa fjárlög heimilanna ýmislegt, hér verður ekki farið út í að skipta út gamla parketinu fyrir nýjustu flísarnar eða gömlu (og að mínu viti fallegu þó að bæði mömmu og snobbuðu vinkonum mínum þyki lítið varið í þessa indælu hrákasmíð) eldhúsinnréttingunni fyrir glansandi flotta úr sænsku sjoppunni. En það væri hægt að rútta aðeins til hérna til að laga flæðið um borðstofuborðið sem er fast inni í horni og nýtist ekki í daglegum störfum okkar og það er víst ægilega andfengsjúí.
Skjáumst fljótlega.

Lifið í friði.

6.2.07

fullt hús

Hér er margmenni og nóg að gerast svo ég fæ engan frið til að eyða tíma í bloggheimum.

Ég var næstum því búin að fá tengdadóttur annarrar bloggdrottningar í gistingu en hún fór annað, ég er með aðra skylmingastúlku hér á gólfinu hjá mér. Hún er grönn og fyrirferðarlítil en sefur á risastórri rafuppblásinni dýnu sem tekur alla stofuna. Á morgnana þegar við stingum dýnunni í gang og hún flest út og er brotin saman og sett inn í herbergi finnst mér stofan mín stór og rúmgóð. Ég er harðákveðin í að kaupa mér svona dýnu, þetta er sniðugasta gestarúm sem ég hef séð, svona fyrir fólk sem fékk gefins sófa sem var ekki svefnsófi.
Af hverju er ég að skrifa þetta hingað inn? Af því að með því að þykjast vera að vinna í tölvunni slepp ég við að hengja upp þvottinn sem móðir mín og skylmingastúlkan eru að hengja upp hér fyrir framan mig.
Djöfull er ég dívíus og sniðug.

Lifið í friði.

5.2.07

barnaafmæli

eru kannski skemmtileg að einvherju leyti en sex ára afmælið verður þannig að afmælisbarnið verður að heiman... segi ég núna... sjáum til eftir ár...

Tannpína er verri en margt annað

Að hafa mömmu mína hérna er betra en flest annað

Að þurfa að vinna smá með því er erfitt en ég hafði það þó af í dag þrátt fyrir bullandi sjálfsvorkunn út af tannpínunni
En það var skemmtilegt að á biðstofunni greip ég GEO, tölublað frá júlí 1985. Í því var fullt af fallegum myndum og allt það en mesta athygli mína, fyrir utan það hvað auglýsingarnar virtust vera frá 1950, var úrdráttur úr næsta blaði þar sem lofað var skemmtilegri grein um hina spennandi eyju... já, getiði nú. Þjóðernissinninn í mér gladdist alla vega.

Lifið í friði.

2.2.07

ekki

Ég er ekkert hætt. Var einhver hræddur um það?

Suður-Frakkland var yndislegt þó að hitastigið væri undir núlli sem er ekki þægilegt í þessu raka loftslagi. Nutum samvista við góða vini sem stjönuðu í kringum okkur og kynntumst litlu 5 mánaða verunni sem okkur fannst taka framförum á þessum fáu dögum sem við stöldruðum við í lífi hennar.
Það lá við að ég fengi legverki en ég treysti á að fleiri í kringum mig fari að koma með lítil kríli sem ég get svo fengið að sniffa reglulega.

Ég verð að fara að taka endanlega saman tjaldferðasöguna frá síðasta sumri og reyna að kynna Périgord fyrir Íslendingum. Frábært hérað og fullt af svo skemmtilegum þorpum og köstulum en mun léttari túrismi þar sem þarna eru hvorki fjöll né sjór.

Ég smakkaði andahjörtu í fyrsta sinn og ætla að bera það á borð fyrir móður mína í kvöld. Já, mamma er að koma svo ekki má búast við miklum skrifum hér næstu vikuna frekar en þessa sem er að líða. Hún ætlar að vera í afmæli uppáhalds barnabarnsins í fyrsta sinn.

Mig langar að komast heim til að sjá Foreldra. Eða þá til Berlínar?

Ég ætla til Normandí með mömmu og krakkana á miðvikudag.

Ég er líklega komin með íbúð í Reykjavík í júlí, í skiptum fyrir mína. Verst að skiptin eru afskaplega ójöfn, miklu stærri íbúð og miklu betri bíll þarna uppfrá. Hins vegar er náttúrulega mun styttra í Notre Dame og Louvre héðan.

Ég bendi ykkur á að gæða ykkur á skrifum Hnakkusar og Fjallabaksleiðarinnar, þeir eru brilljant þessa dagana. Þið eruð það reyndar öll á listanum mínum og þið hin sem ég gleymi alltaf að setja á listann en les samt.
Ég er í góðu skapi.

Ég spurði manninn minn um daginn hvort við lifðum í einhverjum falsheimi, héldum að við værum hamingjusöm og að allt væri í stakasta lagi en í raun kraumaði óhugnaleg óhamingja og svik undir niðri. Við játuðum þá fyrir hvort öðru að við fáum stundum angistarköst sem felast í að annað okkar fái bráðakrabbamein eða verði fyrir bíl og deyi. Stundum geri ég mig að ekkju, stundum er ég að kveðja börnin mín og manninn í sjúkrarúmi. Hann gerir það sama. Skrýtið? Já! En kannski nauðsynlegt til að lifa það af að vera svona ánægð, jákvæð og heilbrigð (amk líkamlega heilbrigð) í þessum skítaheimi. Kannski.

jæja, skúra skrúbba bóna
þýðir ekkert annað
ættmóðirin situr í þotu sem ber hana á vængjum sér
yfir hafið
til mín.

Lifið í friði.