26.2.07

hvert er nafnið, hver ert þú?

Hví er ég Arinbjarnarson? En hvorki Kúld né Schiöth...

Þegar ljóst var að Terra Nova var selt og ákveðið að hætta með skipulagðar ferðir til Parísar, tók ég að mér hóp sem var eiginlega bæði síðasti hópurinn á þeirra vegum og fyrsti hópurinn á eigin vegum. Ég var sem sagt að hugsa minn gang og langaði til að halda áfram að taka á móti fólki hérna en vissi ekki alveg hvernig ég ætlaði að fara að því og vissi hreinlega ekki hvort ég hefði hugrekki til þess.
Ég var búin að spá í þetta í einhvern tíma og hafði m.a.s. fundið gott nafn, Leiðarljós. En í ljós kom að til er bókaútgáfa á Íslandi sem ber þetta nafn svo ég ákvað strax að hætta við það. Eina hugmyndin sem ég hafði var Parísardaman, en mér fannst það samt ekki neitt sérlega skemmtilegt, það vantar allan húmor, hljómar jafnvel dálítið uppskrúfað, býst ég við.
Þegar ég var að skila hópnum út á völl fóru þau að spyrja mig spjörunum úr, hvernig ég ynni og hvert ætti að vísa fólki í framtíðinni. Ég sagði þeim umhugsunarlaust að ég myndi markaðssetja mig sem Parísardaman og þau yrðu að fylgjast með því.
Stuttu síðar fór ég til Íslands og tók endanlega ákvörðun. Ég hringdi í öll dagblöðin og var komin með viðtöl um leið enda hafa fjölmiðlar ávallt áhuga á að vita um Íslendinga í útlöndum, sem betur fer fyrir mig. Ég er enn að fá fólk út á þessi fyrstu viðtöl og einnig út á þau sem síðar hafa verið tekin. Ég hef aldrei borgað fyrir auglýsingu, veltan hjá mér býður hreinlega ekki upp á það, en svo vel vill til að fólk les svona greinar og klippir þær út og geymir, jafnvel árum saman. Ég dáist að svona fólki, vildi óska að ég væri jafn skipulögð.
En ég efast enn þann dag í dag um nafnið og sé stundum eftir því að hafa ekki spáð meira í þetta. Aftur á móti er alveg ljóst að ég hef aldrei fundið neitt betra. Verst þykir mér að hafa notað sama nafn á bloggið, það var gert í sama bríaríi og annað sem ég geri.

Og nú ætla ég að skella Spilverkinu á fóninn og taka til. Hvíldarhelgar þarf að greiða dýru verði á mánudeginum.

Lifið í friði.