svartnætti létt
Svartnættið sem ríkti í sálu minni í gær þegar rigndi stanlaust allan daginn hvarf á brott með skýjunum í nótt. Mér líður mun betur núna og sé fram á að allt verði í allra besta lagi, enda skín sólin glatt á bláum himni hér austan við París. Læknavísindin munu bjarga málunum.Ef einhver veit um börn sem lifa með því sem kallað er barnamígreni og stundum magamígreni á Íslandi, veit ég um fjölskyldu sem gæti haft áhuga á að komast í samband við fjölskyldur þeirra, lítil vinkona mín hefur nú legið á spítala í viku og hefur ekki getað hætt að kasta upp nema þegar hún er svæfð.
Ósyndi fuglinn sem flýgur yfir endalausan sjó úr síðustu færslu er vitanlega setning frá Sverri Stormsker, einum af eftirlætis skáldum mínum sem ég hef þó ekki hlustað á í mörg ár því ég á ekki plötuspilara. Ég hef þó alla trú á því að úr því rætist líka einn góðan veðurdag og geymi því plöturnar hans ásamt fleiri góðum á besta stað í borðstofuskrifstofugestasalnum. Stundum les ég hann en það er líka langt síðan það gerðist.
Hér er kannski við hæfi að opinbera það að á mánudaginn var ég heima með veikan þriggja ára dreng og skellti Bubba í tækið fyrir hann. Hann dillaði sér við eitt lag en vildi svo ekki meir. Ég veit ekki hvað það var langt síðan ég heyrði Bubba síðast en gamli góði Bubbi stendur nú alltaf fyrir sínu í mínum huga.
Ég er búin að vera að spá í firringu og jarðtengingu sem Siggi Pönk var að pæla í um daginn og ég er alveg sammála honum um að fólkið sem lætur eins og allt sé í lagi hlýtur að vera firrta fólkið en þau sem eyða tíma og orku í að reyna að breyta stjórnkerfum, lögum, áætlunum eða ástandi hljóta að vera þau jarðbundnu og meðvituðu. Dæmið um Heiðmerkureyðilegginguna sýnir hversu firrt það er, fólkið sem ræður yfir okkur.
Eins og Erla Hlyns bendir á: Þarna voru eyðilagðir sérstakir minningarreitir, sögulegir reitir sem hafa kannski ekki endilega neitt gildi í hugum fólks hversdags en eru einmitt blóm í hnappagötum ráðamanna, tilvaldir staðir að velja síðar fyrir hátíðlega athöfn, til að draga fram úr skúmaskotum gleymskunnar þegar eitthvað bjátar á og nauðsynlegt er að minnast góðu verkanna.
En firringin er orðin svo mikil, ákafinn, lætin, tíminn er peningar og allt það, að þeir eru farnir að eyðileggja sín eigin gull.
Ég verð reyndar að játa að eftir nokkurra ára lestur um sögu Parísar og Frakklands kann ég betur og betur að meta staði sem hafa sögulegt gildi, minnismerki og byggingar, torg þar sem eitthvað gerðist eða stað þar sem fólk kom saman og stakk niður tré í súrrealískum tilgangi, mér finnst þetta allt saman skipta máli, vera merkilegt, vil geyma, vernda, halda til haga og flagga þegar það á við.
Ekki til að gleyma vondu hlutunum heldur einmitt til að muna allt, gott og vont.
Það er gott að eiga grunn minninga, við ættum sem best að vita það, nýríka þjóðin sem kennir sig við Víkinga.
Lifið í friði.
<< Home