27.2.07

án titils

Sirkúsinn var náttúrulega æði, ég er nefninlega fædd með sirkúsþrá í blóðinu og sé mig alveg í anda ganga á stórum bolta, hjóla á einhjóli, kasta fimm boltum upp í loftið og grípa með tánum og auðvitað er ég í glitrandi níðþröngu cat-suit með glimmer á augabrúnum og bleikan kinnalit. Svo bý ég í marglitu hjólhýsi og ferðast milli staða með sýningaratriðið mitt.
Mér finnst dýraatriðin nauðsynleg í svona hefðbundnum sirkús og trúi því statt og stöðugt að dýratemjarar elski dýrin sín og fari vel með þau. Og að dýrin elski athyglina, sviðsljósið og sakni frumskógarins ekki neitt.
Ég hef hins vegar séð tvo óhefðbundna dýralausa sirkúsa og haft mjög gaman af. Annar þeirra var belgískur mínímalískur sirkús sem tjaldaði örsmáu tjaldi í Hljómskálagarðinum á Listahátíð í Reykjavík forðum. Comedia dell'Arte ásamt sígaunaþema. Frábær skemmtun.
Hinn var þungarokksirkús sem var mjög frægur í París fyrir 17 árum, götulistamenn sem sameinuðust og náðu mikilli velgengni í einhvern tíma. Veit ekki hvað varð um þau, líklega orðin kótilettukarlar og -kerlingar í dag.

Það sem mér finnst merkilegast við sirkúsinn er hvað ég samþykki staðalmyndirnar auðveldlega í atriðunum. Jonglarinn sem er kominn í einhvers konar framúrstefnu, þungarokkið ómar undir, búningurinn frekar pönkaður, er samt með ljóshærða íturvaxna konu til aðstoðar. Megnið af tímanum stendur hún eins og mjög vel gerður hlutur, fallegur skúlptúr, brjóstin þrýstast út í bolinn, skoran, vá, aldrei hef ég fundið haldarann sem býr til svona flotta skoru. Við og við raðar hún upp keilum eða tekur til eftir hann, hún fær ekki einu sinni að kasta til hans boltunum, það kemur hálfósýnilegur sviðsmaður fram til þess, líklega verið ákveðið að það væri of vandasamt fyrir hana, og í lokin, undir trylltu lófataki, gengur hann til hennar og tekur utan um hana á sama hátt og versti latínódurgur í gamalli New York mynd. Og hún vefur sér utan um hann, temmilega getnaðarlega og virðist honum gersamlega undirgefin. Og þetta truflar mig ekki neitt heldur finnst mér þetta skemmtilegt. Þetta er hluti af sirkússýningunni. Flottir sterkir karlar og fagrar hálfberar konur.
Róluatriðið gengur út á að karlarnir tveir, með axlir eins og He-Man, sýna heljarstökk og fleira hættulegt undir trommuslætti og dauðaþögn. Inn á milli grípur stærri maðurinn konurnar sem eru í g-strengsbolum, léttilega undir fögrum fiðlutónum. Þær eru skraut. Blóm á engi. Þeir eru atriðið sem fær áhorfendur til að grípa andann á lofti. Og ég læt það ekki trufla mig nógu mikið til að verða pirruð.

En samt er ég að skrifa um þetta hér þannig að kannski truflar þetta mig eitthvað.

En ekki jafnmikið og fréttin um manninn sem gekk stórslasaður um miðja nótt um götur Reykjavíkur (Höfðarnir eru Reykjavík, þið þarna 101bloggarar) og fékk enga hjálp. Það er náttúrulega eitthvað að. Er fólk virkilega svona hrætt í henni Reykjavík? Vinur minn, Benoît, rifjar stundum upp þegar hann var að segja Íslendingum frá Bogota og að hann gat aldrei farið út á kvöldin. Þau kinkuðu ákaft kolli, hjónin, og sögðu að nákvæmlega svona væri þetta orðið í Reykjavík líka. Þetta var fyrir 10-12 árum síðan. Hann ákvað að vera ekkert að reyna að ræða þetta frekar við þau. Leyfði þeim að halda að Reykjavík væri Bogota Norðursins.
Er það ekki málið að við höldum að allt sé svo slæmt? Og hverju skyldi það vera að kenna?

Lifið í friði.