13.2.07

Tíu fingur

Á kvennakvöldinu svakalega sagði Edda Erlends okkur að hún yrði í sjónvarpinu daginn eftir. Ég náði svo að horfa á þáttinn um hana á föstudeginum áður en ég rauk út á völl að ná í mömmu en náði náttúrulega ekki að hrósa honum hér í tæka tíð áður en hann hvarf úr netheimum.
Þessi þáttur var yndislegur eins og hún Edda reyndar er. Ég var alveg hissa hvað Jónas var fínn líka, hef alltaf verið hálfhrædd við hann af lestri greina hans um tónlist í Lesbókinni í gegnum tíðina. Hann reynist vera hinn mýksti og gaf m.a.s. skemmtilega af sjálfum sér þegar hann upplýsti að tangótímar hafi líklega markað upphafið að hans eigin hjónaskilnaði. Undarlegt móment og alveg svona ekta. Allt of sjaldgæft í sjónvarpi þar sem allir reyna endalaust að halda kúlinu, vera óbreyskir og smart, alltaf allt í bullandi vellandi lagi hjá þessu fólki þarna í kassanum.

Edda er ein af þessum "gömlu" Parísardömum sem ég hef alltaf dáðst að úr fjarlægð. Reyndar eru flestar konurnar hérna gull af mönnum, ég veit ekki hvort það er bara mín tilfinning, að ég nái betra sambandi við fólk sem er frönskuelskandi eða hvort hingað leiti eðalfólk, í eðalmenninguna (sic) eða hvort þetta sé bara bull og vitleysa allt saman.
En þær eru hérna margar svo innilega glæsilegar, eðlilegar, hlýlegar, gefandi, kátar og klárar að ég fyllist stundum minnimáttarkennd þegar ég fylgist með þeim úr fjarlægð. Ég vildi óska að ég væri svona lágróma og róleg, kvenleg og hugguleg, eins og þær eru alltaf. Ég bara ræð ekki við brussuganginn í mér stundum, hækka róminn óeðlilega mikið, drekk alltaf ótæpilega og er bara einhvern veginn lítil og þybbin og stutthærð og föl og það bara vantar alveg þetta glæsielement í mig.
Í gvuðs lifandi bænum, ekki fylla kommentakerfið af huggunarorðum, ég er alls ekki vælandi í sjálfsvorkunn yfir þessu. Ég er ánægð með það líf sem ég lifi, það sem ég er að gera og bara almennt get ekki hugsað mér að breyta neinu sem skiptir máli, þetta er bara staðreynd sem ég greinilega þurfti að koma frá mér fyrst hún vall hérna úr puttunum á mér í gegnum lyklaborðið og inn á bloggið. Ég ætlaði í raun bara að þakka fyrir yndislegan sjónvarpsþátt, reynið endilega að sjá hann ef hann verður endursýndur (í sumar?). Það var t.d. alveg magnað að ég ætlaði að nota tækifærið og hengja upp úr vélinni og stússast meðan tónlistaratriðin voru en ég sat alltaf sem lömuð yfir þeim, það er svo frábært að sjá fólk spila á hljóðfæri.
Og þetta hjálpar mér að taka ákvörðun fyrir morgundaginn: Ég ætla á tónleika, nágranni minn hann Cyril er í tríói sem spilar létt djössuð lög og þeir verða á bar í 20. hverfi á morgun, miðvikudag. Ef þig langar með mér, hafðu þá samband í meil og ég gef þér allar upplýsingar um stað og stund.
Á næstu dögum ætla ég svo líka að plögga hann Olivier, mann Eddu Erlends, en hann verður með tónleika bæði þann 21. febrúar og aftur í byrjun mars. En nú verð ég að stökkva því ekki dugir að hrökkva.

Lifið í friði.