12.2.07

yfirlýsing

Nú mun þetta blogg verða endurvakið af þyrnirósarsvefni þeim er nærvera móður og annara góðra gesta veldur.
En fyrst held ég að ég þurfi aðeins að fara yfir gang mála hjá hinum, ég hló upphátt og alein þegar ég sá að ég hafði alls ekki skilið vísun Hreins Hjartahlýs í drullumál eitthvað og hélt að þarna væri eingöngu um skemmtilega óra ungs manns að ræða. Ég er alveg úti að aka í öllu fréttatengdu efni, hér var eingöngu kveikt á sjónvarpinu á fimmtudaginn til að horfa á 24, öll hin kvöldin hefur verið setið að sumbli og blaðrað út í eitt um hluti sem skipta engu eða öllu máli. Íbúðin mín hefur t.d. verið endurskipulögð fimm sinnum, veggir brotnir niður, húsgögn færð til og ýmislegt spáð og spekúlerað með málbandið að vopni. Allt er þó á sínum stað enda voru allar þessar framkvæmdir aldrei færðar af heilabrotastiginu. Og kannski verður þetta bara allt eins og það er í dag áfram, ég bara veit ekki neitt í minn haus og vitanlega stoppa fjárlög heimilanna ýmislegt, hér verður ekki farið út í að skipta út gamla parketinu fyrir nýjustu flísarnar eða gömlu (og að mínu viti fallegu þó að bæði mömmu og snobbuðu vinkonum mínum þyki lítið varið í þessa indælu hrákasmíð) eldhúsinnréttingunni fyrir glansandi flotta úr sænsku sjoppunni. En það væri hægt að rútta aðeins til hérna til að laga flæðið um borðstofuborðið sem er fast inni í horni og nýtist ekki í daglegum störfum okkar og það er víst ægilega andfengsjúí.
Skjáumst fljótlega.

Lifið í friði.