2.2.07

ekki

Ég er ekkert hætt. Var einhver hræddur um það?

Suður-Frakkland var yndislegt þó að hitastigið væri undir núlli sem er ekki þægilegt í þessu raka loftslagi. Nutum samvista við góða vini sem stjönuðu í kringum okkur og kynntumst litlu 5 mánaða verunni sem okkur fannst taka framförum á þessum fáu dögum sem við stöldruðum við í lífi hennar.
Það lá við að ég fengi legverki en ég treysti á að fleiri í kringum mig fari að koma með lítil kríli sem ég get svo fengið að sniffa reglulega.

Ég verð að fara að taka endanlega saman tjaldferðasöguna frá síðasta sumri og reyna að kynna Périgord fyrir Íslendingum. Frábært hérað og fullt af svo skemmtilegum þorpum og köstulum en mun léttari túrismi þar sem þarna eru hvorki fjöll né sjór.

Ég smakkaði andahjörtu í fyrsta sinn og ætla að bera það á borð fyrir móður mína í kvöld. Já, mamma er að koma svo ekki má búast við miklum skrifum hér næstu vikuna frekar en þessa sem er að líða. Hún ætlar að vera í afmæli uppáhalds barnabarnsins í fyrsta sinn.

Mig langar að komast heim til að sjá Foreldra. Eða þá til Berlínar?

Ég ætla til Normandí með mömmu og krakkana á miðvikudag.

Ég er líklega komin með íbúð í Reykjavík í júlí, í skiptum fyrir mína. Verst að skiptin eru afskaplega ójöfn, miklu stærri íbúð og miklu betri bíll þarna uppfrá. Hins vegar er náttúrulega mun styttra í Notre Dame og Louvre héðan.

Ég bendi ykkur á að gæða ykkur á skrifum Hnakkusar og Fjallabaksleiðarinnar, þeir eru brilljant þessa dagana. Þið eruð það reyndar öll á listanum mínum og þið hin sem ég gleymi alltaf að setja á listann en les samt.
Ég er í góðu skapi.

Ég spurði manninn minn um daginn hvort við lifðum í einhverjum falsheimi, héldum að við værum hamingjusöm og að allt væri í stakasta lagi en í raun kraumaði óhugnaleg óhamingja og svik undir niðri. Við játuðum þá fyrir hvort öðru að við fáum stundum angistarköst sem felast í að annað okkar fái bráðakrabbamein eða verði fyrir bíl og deyi. Stundum geri ég mig að ekkju, stundum er ég að kveðja börnin mín og manninn í sjúkrarúmi. Hann gerir það sama. Skrýtið? Já! En kannski nauðsynlegt til að lifa það af að vera svona ánægð, jákvæð og heilbrigð (amk líkamlega heilbrigð) í þessum skítaheimi. Kannski.

jæja, skúra skrúbba bóna
þýðir ekkert annað
ættmóðirin situr í þotu sem ber hana á vængjum sér
yfir hafið
til mín.

Lifið í friði.