vammleysið ógurlega
Ég er að mörgu leyti sammála Rafauganu, Hvalveiðimanni, Fjallabaksleið, Þórdísi og Reykvísku sápuóperusöngkonunni sem og Mengella (Mengellu?) sem kemur einmitt með orðið sem ég hef leitað að í marga daga, vammleysi en mér finnst samt ógurlega mikil einföldun af þeirra hálfu að skrifa þetta allt á siðgæðisvitund gerfivammlausra húsmæðra/bænda/framsóknarmanna...Það er full ástæða til að minna á svartar hliðar þessa risastóra og blómstrandi bransa sem klámiðnaðurinn er og brýn nauðsyn að gleyma því ekki að þó til séu pæjur og gæjar með stór brjóst og typpi sem mæta galvösk og skemmtilega kjaftfor í spjallþætti og telja stolt hjásvæfurnar, fullnægingarnar og aðra sigra á sínu sérsviði sem klámstjörnur, er líka til fólk sem er hreinlega tekið höndum af grimmu fólki, lokað inni, dópað upp, nauðgað á hverjum degi í margar vikur þangað til engin lífslöngun er eftir, ekki snefill af sjálfsvirðingu og þá er hægt að nota það í kvikmyndir eða kasta þeim út á götu þar sem það stendur kynlífsneytendum til boða. Það er þessi hluti, þessi skuggalega veröld sem femínistar voru að benda á og hafa fullan rétt á að benda á.
Ég er fullkomlega meðvituð um að það getur meira en verið að fólkið sem var á leið hingað sé allt í fyrrnefnda hópnum, skemmtilega frjálst undan oki þess að líta á kynlíf sem tabú og einkamál, hafa þörf á því að sýna kynorku sína og njóta allrar athygli út í ystu æsar, fá kikk út úr því að ganga fram af meðaljónunum.
Ég býst m.a.s. fastlega við því að svo sé og sá einmitt alltaf fyrir mér reiðilega menn með heykvíslar á flugvellinum rekandi dónapakkið öfugt upp í vélina.
En vegna þess hve erfitt er að skilgreina klám og hve erfitt er að sjá á myndum hvort misbeiting hafi átt sér stað er í raun varla hægt að ræða þetta mál.
Auðvitað voru einhverjir moggabloggarar að ræða þetta á svarthvítu morfísnótunum en alls ekki femínistarnir, það er fals að tala um að allir sem voru á móti þessum hópi hafi skömm á "kynörvandi efni sem inniheldur konur" eins og gefið er í skyn t.d. í athugasemd hjá Hreini Hjartahlý.
Mig dreymir um heim þar sem þau sem vilja vera nakin, fái að vera það í friði. Að þau sem vilja vera með blæjur og slæður í ökklasíðum kjólum, fái að vera það í friði. Og að þessir tveir hópar nái þeim þroska að skilja og virða þarfir hvors annars sem og þeirra sem fara heldur hinn kræklótta og þrönga gullna meðalveg.
Mig dreymir um þrælalausan heim þar sem allir eru jafnir.
Ég hata mest í sjálfri mér alla hneykslunartilfinningu, vandlæting er syndum verst.
Lifið í friði.
<< Home