26.2.07

Frökk

Ég er búin að vera afar frökk undanfarna daga í að reyna að finna tónleikastað fyrir kór nokkurn, það hefur líklega fyllt mig einhverju hugrekki/æðruleysi og gerðist ég nú rétt í þessu frökk fyrir sjálfa mig.

Miðað við svarleysið sem hingað til hefur fylgt mínum frökku sendingum, ætla ég ekki að gera mér neinar vonir, ég fer ekkert í það að kaupa flugmiðann núna strax. En ég krossa þó fingurna enda er ég þannig að ég held yfirleitt í vonina fram í rauðan dauðann, gefst ekki upp fyrr en í fulla hnefana og læt ekki bugast þó á móti blási.

Ég er reyndar í fýlu núna vegna svarleysis við frökku tölvubréfunum frá síðustu viku annars vegar og vegna þess að ég ætlaði að hlusta á eitthvað þægilegt á RÚV meðan ég flakkaði um netið í leit að fleiri stöðum til að senda frökk bréf til en vefurinn vill ekki opna síðurnar til að hlusta (hvað í ósköpunum á að kalla slíkar síður? Straumsíður?). En ég er aldrei lengi í fýlu.

Lifið í friði.