mugison
Damn, hvað ég væri til í að fara á tónleika með Mugison og fleiri norrænum skrýtnum tónlistarmönnum 9. mai. Og get fengið miðann á 10 evrur. Á maður að skella sér?
Varð reyndar fyrir vonbrigðum þegar ég heyrði plötuna hans, ég var búin að lesa svo mikið lof um hann að ég bjóst við of miklu. Platan er fín, minnir óneitanlega á Radiohead og er ekki eins mikil uppfinning og fólk vill vera láta, finnst mér. En það er gaman og hollt að fara á tónleika. Og kannski helst að maður drífi sig þegar bræður manns og frændur eru á ferð.
Á maður að skella sér?
Lifið í friði.
help
dadadadadadadadadadadadadah
Æ, hjálpið mér, hvað heitir þetta lag aftur?
Gítarinn sem gerir svona dududuh
Eretta hann þarna dauði? Eða hinn þarna smarti? Eða hinn?
Lifið í friði.
minimalisminn
Vá, talandi um mínimalsima á Íslandi og fæ blaðið Lifun með Mogganum sama dag. Þar er af nógu að taka í þessari lífssýn eða stefnu eða tísku eða? En er til íslenskt orð? Minnstisminn?
Ég yrði voða leið heima hjá mér með ekkert dót og drasl í kringum mig. En ég skil þó að sumir telji sig þrífast betur í þessu hreina rými og allt í stíl. Þekki gott fólk sem gerir það. Sem betur fer erum við ekki öll eins. Ég ætti nú ekki annað eftir en að fara hneykslast á fólki, ég sem básúna hér skilningsríki og opinn hug út í eitt. Ha?
Og ég er hætt að vera reið út í fólk sem mér finnst á villigötum. Fékk mína útrás og þakka fyrir það. Bloggið er góð leið til útrásar.
Annars fer öll mín orka í að senda föður mínum góðar og fallegar hugsanir. Hann er á leið undir hnífinn einmitt núna.
Best að hlýða nú Emblunni minni letibloggara og hugleiða smá.
Lifið í friði.
Fór á flóamarkaðinn risastóra um helgina. Með fjölskyldunni og einn gest. Sem er þekktur hér en ég þori ekki að nafngreina án hans samþykkis. Fyrirsögnin er tengill í heimasíðu markaðarins.
Þrátt fyrir rigningu er alltaf gaman að koma á fló. Þetta er svona kolaport í tíunda veldi plús öll galleríin og antíksalarnir sem okra á velsnyrtum húsgögnunum. Við vorum það snemma á ferð að söngvararnir hjá Louisette voru ekki komnir í gang. En jólaskreytingarnar voru gylltar eins og vanalega. Sumir hlutir breytast ekki og það er svo gott og þægilegt.
Við sáum fullt af alls konar litu fólki, stúlkum í magabolum og strákum í hettupeysum og körlum í kjólum en enga forríka sérvitringa í svörtum pels á Rolls Royce í þetta skiptið. Rúta gubbaði út úr sér 20 þýskum túristum meðan við biðum eftir gestinum við metróstöðina.
Við féllum fyrir arni sem var ekki í mínimalískum stíl. Til að setja hann upp hér í stofunni þyrftum við að kaupa íbúðirnar einni og tveimur hæðum neðar og brjóta niður gólf/loft upp hingað. Þessi arinn hefur líklega verið byggður fyrir kastalann sem ég fæddist í á 17. öld. Mér fannst ég kannast við hann. Hef líklega verið þvegin þarna fyrir framan og vafin í silki og lögð í vöggu. Ég vorkenni stundum íslensku nútímafólki sem aðhyllist mínimalismann. En ég er bara ég. Og þið megið alveg vera mínimalistar ef þið bara eruð ekki hrædd við skapandi listir og lifandi menningu.
Og umfram allt, munið bara að til að geta gefið flottan skít í hlutina, þarf maður að skilja þá.
Lifið í friði.
h h h
Ég bætti þremur háum í bloggaralistann minn í dag.
Annars er mín nett pirruð í dag. Á ég að láta það vaða, eða á ég bara að sitja á mér eins og ég er búin að gera alla helgina? Ég læt vaða:
Ég ÞOLI ekki þetta helvítis andskotans væl í bloggheimi um að hinar og þessar listgreinarnar séu vondar og ekki list og ég þoli ALLS EKKI hvernig fólk er með minnimáttarkennd gagnvart fínum orðum eins og menning, listrænt, menningarlegt, sköpun, ritlist, myndlist, leiklist, sjónlist, húsagerðarlist og svona mætti lengi áfram telja.
Mér finnst þetta orðið leiðinda fáránlegt snobb í fólki að kasta skít í listina og menningarlega þenkjandi fólk. Fyrst datt mér í hug afdalaháttur, en mundi svo eftir því að í sveitum og afdölum á Íslandi er mun meira af listelskandi fólki en á mölinni fyrir sunnan, ef miðað er við höfðatölu. Og þar fer fram mikil listsköpun, fólk er ekki feimið við að mála, skera í við, sauma og prjóna og dreymir um að komast á söfnin í stórborgunum í útlöndum.
Svo er þetta ofdekraða og freka Reykjavíkurpakk með einhvern óúthugsaðan skít endalaust út í list og listamenn.
Lágmenningarupphefjandi hugsunarháttur er bæði þreytandi og hættulegur. Við skulum ekki gleyma því að Göbel sagði að ef hann heyrði orðið menning, tæki hann fram skambyssuna. Enginn vill Göbel vera, né konan hans.
Ég var alveg sérlega sammála Ingólfi sem einhvern tímann sagðist ætla að gera listaverk úr rassi sínum eftir að hafa hlustað á uppskrúfaða listamenn í útvarpinu. Ég geri mér grein fyrir því að ég er frekar laus við svoleiðis kjaftæði þar sem ég hlusta yfirleitt lítið á útvarp og horfi lítið á sjónvarp. Ég vel mér hverja ég hlusta á, horfi á og les og ég nýt allra lista upp að ákveðnu marki. Ég gæti ekki lifað án bóka, mynda, ljóða, ljósmynda, fallegra húsa, safna, bókasafna, gosbrunna, styttanna í görðunum, blómanna og barnanna og ekkert af þessu gæti lifað án alls hins.
Ímyndum okkur að allir haldi áfram að klifa á þessu að list og listræna sé viðbjóður. Smátt og smátt verður eina myndlistin auglýsingar og eina ritlistin augýsingatengdar greinar í fréttadulargerfi í auglýsingapésum. Ímyndum okkur heiminn án ljóða Megasar og mynda Picasso.
Vörum okkur á því að gera lítið úr listsköpun. Skoðum okkur frekar um með opinn huga og pælum í því hvað er í gangi. Fullt af listsköpuninni er hálfgert rusl, en tíminn vinsar þetta rusl út, höfum engar áhyggjur af því. Málið er að af ruslahaugum vaxa oft fögur blóm. Og hvers virði er fagurt blóm?
Lifið í friði.
verð og gildi
Um daginn las ég einhvers staðar hugleiðingu út frá bókamarkaðnum þar sem einhver fáraðist yfir því að bók Vigdísar Grímsdóttur, Þögnin, hefði bara kostað 300 krónur. Það þótti ritaranum ekki við hæfi, þar sem Þögnin væri svo frábært verk, þetta var einhvers konar lítilsvirðing. Ég las nú Þögnina á sínum tíma og þótti hún sæmileg, Vigdís hefur aldrei náð að toppa Kaldaljós í mínum huga og það truflar mig alltaf við lestur bóka hennar. En það er ekki málið. Málið er enn og aftur verðgildi lista og menningar. Oft hefur verið grínast með að verðleggja myndlist í fermetrum. Á að verðleggja bækur í orðum? Og kannski gefa hverju orði ákveðið mörg stig, svipað og stafastigin í Scrabble?
Þá gæti miðinn utan á bókinni á bókamarkaðnum verið: Vigdís notaði frekar dýr orð um alla bók, bókin er svo og svo mörg orð, svo bókin getur aldrei farið undir 3000 krónur. Þetta er besta verðið sem hægt er að bjóða.
Mér hefur alltaf leiðst þessi óþarfa (að mínu viti) umræða um verðgildi listarinnar. Þetta er vonlaus umræða af þeirri einföldu ástæðu að peningar eru bara svo ómerkilegur hlutur að það er aldrei hægt að jafna þeim við listsköpun. Þetta virðist fólk ekki vilja skilja, þó allir hafi skilið og samþykki nokkuð auðveldlega að ekki er hægt að mæla ást eða mannslíf í peningum. Það er í raun fátt sem raunverulega er hægt að mæla í peningum. Afar fátt. Verðgildi er afstætt hugtak þó krónan, dollarinn og jenið séu það kannski ekki.
Ef ég væri Vigdís Grímsdóttir og lallaði mér á bókamarkað og sæi að bókin mín fengist þar á 300 krónur myndi ég gleðjast yfir því. Fleiri munu nú skella sér á eintak, fólk sem hikaði mun nú láta verða af því að lesa bókina. Og það hlýtur að vera megintilgangur skrifa Vigdísar. Ég held a.m.k. ekki að hún velji orð eftir stigum úr stigatöflu eða geri bókina langa til að hún verði seld dýrara verði.
Ég held að flestir listamenn séu langþreyttir á þeirri staðreynd að til að lifa þurfi pening. Það truflar listsköpun og í raun er það alveg hreint ótrúlegt hvað listin nær þó að lifa og þrífast í kapítalísku þjóðfélagi. Það er eingöngu hugsjónafólki að þakka.
Einn góðan veðurdag hverfur peningurinn úr heimsmyndinni. Það mun gerast fyrr en síðar. Það byrjar í hugum okkar jarðarbúa.
Þið megið kalla mig draumóramann. En ég er ekki ein. Einn daginn munið þið ganga í lið með mér. Og heimurinn verður ein heild.
Lifið í friði.
og ég hef gaman að því
Kannski vann ég sjö milljónir evra í risalottó um daginn. Kannski. Hver veit. Maðurinn minn segir að þar sem fimm vikur eru liðnar frá drætti, væru þeir farnir að auglýsa eftir ósóttum risavinningi. En ég trúi honum ekki. Trúi því frekar að ég eigi sjö milljón evrur á lottóskrifstofunni. Viltu vera vinur minn?
En meðan ég bíð eftir péningnum verð ég að taka þá vinnu sem býðst. Nú er ég að þýða bækling með afar tæknilegum lýsingum. Á flakki um netið í leit að svipuðum lýsingum datt ég niður á þetta:
Nemendum er kennt að öðlast sjálfstæði í mótun blautbylgna og mismunandi upprúlli með klípum ásamt úrgreiðslu.
Jáh, tæknimál lætur ekki að sér hæða.
Af hverju fór ég ekki í hárgreiðslu? Af hverju förum við ekki öll í hárgreiðslu? Er ekki gott að vera einstaklingur með sjálfstæði í mótun blautbylgna? Væri Ísland kannski betra land ef við værum öll klár í úrgreiðslu blautbylgna? Við skulum a.m.k. öll bera virðingu fyrir hárgreiðslufólki. Þau hafa þetta sjálfstæði.
Lifið í friði.
la vie
lífið er lotterí
Lifið í friði.
til að vera satt. Þetta fann ég hjá Hugleir sem ég kalla ryksjúgandi fótboltamann (og hann prjónar líka). Fyrirsögnin er tengill. Þetta er tært gaman. Ég veit ekki hvað ég hef oft dansað (ef dansa skyldi kalla - frekar svona fúskað við dans) við þetta lag án þess að hafa nokkrun tímann vitað um hvað það fjallaði. Njótið.
Lifið í friði.
í gær
Í gær horfði ég á hádegisfréttir bara af því ég hafði frétt af þessum hörmulega bruna. Hádegisfréttirnar slógu mig algerlega út af laginu og dagurinn fór allur í vaskinn.
Fyrst gleymdi ég að taka upp þátt fyrir manninn minn. Svo gleymdi ég bóluefnunum sem átti að sprauta börnin mín með, mundi það eftir tíu mínútna bið hjá lækninum og rauk út og heim og náði í efnin (með tilheyrandi veseni við að binda börnin í bílinn og allt það). Læknirinn hundskammaði mig því hún átti efnin í ísskáp og hefði getað lánað mér og nú væri seinkun á öllum tímum. Það rigndi eldi og brennisteini þegar við komum út frá henni svo við urðum að hafa drekkutímann í bílnum og Sólrún steig í stóran poll. Svo fórum við að skoða málningu í Byko og Kári varð að litlu skrímsli. Þarna var virkilega kominn tími fyrir mig til að hlaupa á brott og læsa mig inni á baðherbergi einhvers staðar með heitu vatni og ilmsöltum. En ég hafði það af að binda Kára niður í kerru og láta sem ég heyrði ekki í honum og ná tali af málningarsölumanni og fá þær upplýsingar sem ég þurfti. Ég þurfti vitanlega líka að láta sem ég sæi ekki undarlegan svip mannsins sem horfði stöðugt á Kára meðan hann gaf mér upplýsingarnar. Svo fórum við í garðinn sem var allur eitt drullusvað eftir rigninguna en sólin skein svo það skipti ekki máli þó við litum öll út eins og motocross-lið eftir smá rólur og rennibraut.
Svo komum við heim og ég fór að ruslatunnunum með leifarnar af drekkutímanum (fyrir utan alla mylsnuna sem þarf að ryksuga einn góðan) og henti bíllyklunum með ofan í næstum því tóma tunnu. Þá hafði ég val um að leggjast niður á stéttina og gráta eða fara að hlægja. Sem betur fer tókst mér að velja síðari kostinn og kafaði flissandi ofan í ilmandi tunnuna undir undarlegu augnaráði konu sem var að elda með opinn gluggann. Ég bauð henni tíuþúsundkall fyrir kvöldmatinn en hún sagði að hann væri ekki til sölu. Sendi kallinn út eftir kínverskum teikavei því það kemur ekki til mála að elda eftir svona hrakfarir, nennti ekki að taka þá áhættu að borða brennt eða skemmt.
Sofnaði klukkan tíu.
Ég ætla aldrei að horfa aftur á hádegisfréttir. ALDREI.
Lifið í friði.
föstudagsblús
Það er búið að brjótast um í kolli mínum í allan morgun, hvort er verra: Slys eða hryðjuverk?
Fólkið sem dó í hótelbruna í París í nótt, voru mörg hver búsett þarna. Líklega vegna bágs fjárhags og erfiðleika við að fá verkamannaíbúðir eða aðra hjálp til að koma sér fyrir. Fréttamennirnir hamra stöðugt á því að líklegast þyki að um slys sé að ræða, að engin ástæða sé til að ætla að glæpur hafi verið framinn. Hvers vegna skiptir það mestu máli? Meðan maður sér aðstandendur á barmi taugaáfalls því erfitt er að fá að vita nákvæmlega hverjir létust og hverjir lifa og í hvaða ástandi, er fréttamaðurinn að tala um þetta sem mér finnst eiginlega aukaatriði. Ég kemst ekki að neinni niðurstöðu. Ég get ekki sett mig í stellingar og hugsað að mér þætti verra (eða betra) að vita að einhver hefði kveikt í af hrottaskap eða til að vekja athygli á einhverjum málstað. Fólkið henti sér út úr brennandi byggingunni, konur köstuðu börnunum sínum á undan. Lýsingar og myndir minntu óþægilega á þiðvitiðhvað í New York um árið. Skyldi fréttamaðurinn vera svekktur yfir því að þetta var "bara" slys?
Þetta leiddi mig til að hugsa um það sem ég heyrði um daginn í sambandi við Sicaction, söfnuninni til styrktar baráttunni gegn eyðni, um að hver mánuður jafngilti einum tsunami. Að heimurinn hefði risið upp um áramótin og öskrað harm sinn og allir keppst við að senda pening til aðstoðar fórnarlömbunum en að jafnmargir deyja úr eyðni í hverjum mánuði án þess að nokkur nenni að tala um það.
Og þá datt mér í hug auglýsingaherferðin sem ég sá talað um í einhverjum fréttaþætti um daginn. Þrjár sekúndur, tikk, tikk, tikk og einhver nýr deyr af völdum fátæktar. Tikk tikk tikk, annar. Tikk tikk tikk og enn annar. En maður ýtir þessari hugsun frá sér. Að nú er ég búin að sitja hér í einhverjar mínútur og á hverri mínútu dóu 20 manns úr hungri eða einhverjum sjúkdómi sem líklega hefði verið hægt að lækna með lyfjunum sem við syndum í hér á þessu svæði hnattarins okkar skrýtna.
Það er erfitt að vera nútímamanneskja og lifa í vellystingum án þess að finna fyrir nagandi samviskubiti. Samt heldur maður áfram. Samt sest ég niður beint eftir fréttatímann og fer að lesa bók um París og gleðst yfir nýjum spennandi upplýsingum um gamla höll. Lífið er geðveiki. Tikk tikk takk.
Lifið í friði.
100 dagar
Í dag eru 100 dagar liðnir frá því að franski blaðamaðurinn Florence Aubenas og túlkurinn hennar Hussein Hanoun al-Saadi voru tekin í gíslingu í Bagdad. Það er allt að verða vitlaust í Frakklandi út af þessu máli og getuleysi stjórnvalda er orðið neyðarlegt. Frakkar voru á móti stríðinu og hafa ekki viljað láta sér nægja fréttir framreiddar af Rumsfeld, þó flestir fjölmiðlar hafi nú sent eftir útsendurum sínum því ekki telst öruggt að vera þarna fyrir blaðamenn.
Ég minni enn og aftur á að í Írak eru framdir glæpir á hverjum degi. Að í Írak deyr saklaust fólk á hverjum degi. Að í íraskri fjölskyldu er grátið jafnmikið og jafnsárt eins og í íslenskri fjölskyldu yfir ástvinamissi.
Ég minni einnig á að bandaríski herinn skaut á bílinn sem ók ítalska blaðamanninum til frelsisins og að hún segir að þeir hafi viljað myrða hana fyrir það sem hún veit.
Þó að margt annað sé að hugsa um og megi betur fara, verðum við öll að vara okkur á því að gera ekki ástandið í Írak að sjálfsögðum og óbreytanlegum hlut í okkar hugum. Við erum jú skrifuð fyrir þessu ástandi, þökk sé þeim sem við kusum til að stjórna landinu okkar.
Lifið í friði.
lesið hjúkrunarfræðinginn
Vildi bara benda ykkur á að Sigurður pönkhjúkrunarfræðingur var á Íslandi um daginn og skrifaði fína hugleiðingu eftir dvölina. Stundum þegar ég les Sigga fer ég hjá mér og ákveð að hætta þessu bloggstandi. Hann er svíngóður.
Lifið í friði.
en catharsis?
Þrátt fyrir mörg orð í belgi, fékk ég aldrei góða íslenska þýðingu á orðinu catharsis sem var á heilanum á mér í allan gærdag. Veit einhver?
Lifið í friði.
húmor og catharsis
Pulla talar um auglýsingu frá Umferðaráði þar sem fram kemur lítill drengur sem er mikið kvikindi. Þessi auglýsing hefur víst vakið viðbrögð og veldur foreldrum hugarangri því, eins og Hildigunnur bendir á, finnst litlum drengjum þessi kvikindislegi algjör töffari.
Ég held að lítil börn og foreldrar þeirra hljóti stöðugt að þurfa að glíma við það að stúdera hegðun og setningar og hvað má gera og segja og að ef þau glími ekki við það sé eitthvað mikið að. Skilst þessi setning? Ég meina, ef foreldrar hafa kveikt á sjónvarpi, útvarpi, ef börnin fara á leikskóla, í skóla, ef þau fara á meðal fólks, hljóti alltaf að koma upp aðstæður þar sem foreldrar þurfa að benda börnum sínum á að þarna sé grín á ferð eða að þarna sé hálfviti á ferð og að þau eigi alls ekki að apa upp það sem gerðist.
Það þarf enga fyndna auglýsingu sjónvarpinu til að lenda í hálfvitum sem hegða sér illa. Nóg að fara í langa röð í bakaríinu eða Húsdýragarðinum. Nóg að skreppa út í umferðina...
Ég held að allir foreldrar hljóti að vera sammála því að ef einhverjir foreldrar uppástanda að þau þurfi aldrei að útskýra neitt fyrir börnum sínum, er það ekki vegna þess að þeim takist að vernda þau gegn öllu slæmu heldur eru þau hreinlega löt eða heimsk.
Börn skilja ekki húmor hjálparlaust. En þau ná samt að skilja það, EF maður útskýrir það fyrir þeim, að stundum er eitthvað sagt eða gert í gríni. Mér finnst a.m.k. dóttir mín gera það. Við leyfum okkur stundum að grínast með börnunum þó að bækurnar vari við þessum þætti í barnsheilanum að geta ekki greint grínið sjálfur.
Börn eiga ekki að horfa á sjónvarpið ein. Þau geta horft á spólur og ákveðna þætti ein, en foreldrarnir eiga alltaf að vera viðbúin auglýsingahléum og vera þá með þeim. Nema þeim sé slétt sama um að börnin þeirra fái brenglaða sýn á lífið og heiminn.
Barnsheilinn er kannski ekki eins þroskaður og okkar fullorðni ofurþroskaði heili (hm...) en þau skilja og skynja svo ótrúlega margt að stundum verður manni um og ó. Þægustu bræður sem ég hef á ævinni þekkt eiga þá hömlulausustu foreldra sem ég veit um. Pabbinn er stundum svo dónó að maður roðnar. En það er alltaf í einhvers konar gríni og drengirnir skilja þetta og hafa líklega engan áhuga á að prófa að vera dónó þar sem heima hjá þeim er það svo venjulegt ástand.
Ég man alveg þegar ég var að kenna Lindu vinkonu að segja eitthvað dónalegra en rass. Inni á klósetti svo mamma hennar heyrði ekki. Öll börn ganga í gegnum það að prófa að vera dónaleg og hrekkjótt til þess að geta síðan orðið nokkuð góðir og heilbrigðir einstaklingar. Þetta er eins konar catharsis (sem ég veit ekki hvað heitir á íslensku, ókei ég skal kíkja í orðabókina, bíðiði... ekki þýtt?!) eða hreinsun á sálinni, útrás... Jæja, þið sem hafið farið í gegnum langt og erfitt háskólanám skiljið mig. Hinir geta bara lært orðið og þóst skilja það og notað í gríð og erg næstu daga. Ha? (hér var húmor á ferð fyrir þá sem hafa vanþroskaða heila). Nú er ég komin út í tóma vitleysu með þetta blogg sem átti að vera gáfulegt og skýrt.
Lína Langsokkur er gott dæmi um það hvernig Svíar hafa verið sterkir í þessari uppeldisaðferð með catharsis. Vissuð þið að Lína var mikið ritskoðuð þar til fyrir örfáum árum hér í Frakklandi? Hún átti foreldra á lífi og gerði ekki helminginn af prakkarastrikunum. Tengdamamma var að passa um daginn og horfði á sænsku sjónvarpsmyndina með dóttur minni og gat ekki leynt hneykslan sinni (þó hún reyndi). Hún kemur nú stanslaust með athugasemdir um að já, stelpan sjái þetta hjá Línu svo við getum ekki kvartað yfir t.d. klifurþörf hennar, við leyfum henni að horfa á þetta!
Stundum horfi ég á börnin mín og fæ þungan sting í magann. Á mér eftir að mistakast? Verða þau ódælir og vondir einstaklingar? Get ég breytt einhverju núna strax til að koma í veg fyrir það? Er allt rangt sem ég geri? Eða eru þau fullkomin eins og þau eru einmitt núna?
Maður veður í villu og svíma síðan börnin komu í heiminn. Maður reynir að gera eins vel og hægt er, maður vonar og biður að þau verði ekki fíkniefnum og öðrum viðbjóði að bráð. Að þau læri kurteisi og mannasiði og komist einhvern veginn áfram í lífinu. Að allt verði í lagi.
Líklegast verður allt í allra besta lagi. Mér finnst a.m.k. best að hugsa þannig.
En ég vil frekar vera klæmin en væmin eins og Sverrir snillingur Stormsker orðaði það svo glæsilega. Og að börnin mín séu það líka. Mér leiðist "pólitísk rétthugsun" alveg óstjórnlega mikið.
Mér finnst Lína fyndin og þessi auglýsing líka þó ég hafi ekki séð hana. Get bara ímyndað mér hana eftir lýsinguna hjá Pullu. Og hlæ hátt og snjallt.
Hláturinn lengir lífið og lífið lengir hlátur eins og Ómar sagði.
Mig langar að enda á einni ömurlega móralískri ábendingu, ég bara get ekki haldið í mér eftir símtal við einn nýbúa í gærkvöld sem lýsti fyrir mér ástandinu: Íslendingar, slökkvið á imbakassanum! Sumarið er að koma, hættið öllu glápi! Prjónið, lesið, spilið, gerið allt þetta sem ykkur langar alltaf til að gera en hafið aldrei tíma til.
Lifið í friði.
mislestur
Ég er alltaf að mislesa fréttir þessa dagana. Nú síðast var ég að lesa um sirkúsinn franska sem ætlar að koma á Listahátíð (og nú ætti að vera tengill en ég get það ekki). Í tengslum við sirkúsinn verður rekinn líflegur sirkusskóli fyrir börn. Ég var í smá stund að velta því fyrir mér hvað lífrænn sirkússkóli gæti eiginlega gengið út á.
Lifið í friði.
gamalt fólk
Ég er þannig að gamalt fólk vekur hjá mér álíka tilfinningar og börn. Mér finnst gamalt fólk krúttílegt og sætt. Yfirleitt. Auðvitað er ákveðin tegund af gömlum leiðindakerlingum hér í París sem ýta manni og troðast og finnst þær hafa allan rétt fram yfir unga fólkið sem þær leggja rækt og alúð við að hata.
En flest gamalt fólk sem maður umgengst hérna eða sér í kringum sig er bara að dúllast áfram í gegnum restina af lífinu í umhverfi sem er engan veginn lagað að þeirra þörfum. Hér er mikið um tröppur og minna um lyftur eða rúllustiga. Hér eru gangstéttirnar oftar en ekki ólögulegar og oft mjóar. Hér er umferðin miskunnarlaus og maður er oft þakklátur fyrir að geta hlaupið og stokkið þegar bílstjórar gefa í frekar en að hægja á sér þegar maður leyfir sér að fara yfir á gangbrautum þar sem ekki eru umferðarljós.
Gamlar kerlingar sem fara á markaðinn á hverjum laugardegi með kerruna sína og bera svo grænmetið og steikina í nokkrum ferðum upp á fjórðu eða fimmtu hæð eru hetjur. Gamlingjar sem fara í metró til að heimsækja börn og barnabörn í öðrum bæjarhlutum er hugrakkt því metró er alls ekki aðgengilegt fólki með lélegan limaburð, ekki frekar en konum með börn í kerrum.
Fyrir nokkrum árum flutti ég í blokk hér í Copavogure. Í blokkinni voru nær eingöngu gamlingjar á mismunandi stigi hrörnunar og misjafnlega ánægt með lífið. Á annarri hæð (þriðja á íslensku hæðatali) var gamall karl sem leiddist ógurlega enda fór hann ekki út. Í staðinn hékk hann út um gluggann hjá sér og blaðraði við alla sem framhjá fóru. Fyrst fannst manni þetta bara gaman og spjallaði við hann kurteislega. Sagði honum hvaðan maður var að koma og tók undir veðurathugasemdirnar. Svo varð maður dálítið þreyttur á þessu og fann fyrir létti þegar hann var ekki í glugganum. Þessi karl vökvaði alltaf hádegismatinn hressilega með rauðvíni og var því stundum dálítið óskiljanlegur í máli. Stundum kom hann fram á stigapall þegar maður var á leið upp stigann og hélt áfram að spjalla þar angandi af súru víni.
Einn sumardag kom ég upp stigann og hann beið mín valtur á fótum. Hann var í verra ástandi en ég hafði nokkurn tímann séð hann og greip utan um mig þegar ég kom á pallinn. Ég hélt að hann væri að detta og studdi hann en hann hafði þá annað í huga og þrýsti andliti sínu að mínu og reyndi að kyssa mig. Ég barðist þarna um og í smá stund réði ég engan veginn við hann, aðallega þar sem ég lagði ekki í að berjast of harkalega þar sem mér datt í hug að ekki vildi ég sjá hann rúlla niður stigana. Mér tókst þó að losa mig og hljóp upp til mín í hvílíku uppnámi að það hálfa hefði verið nóg. Ég þvoði mér vandlega og tókst að róa mig niður.
En eftir þetta þoldi ég karlinn alls ekki. Ég lét sem ég sæi hann ekki þegar hann kallaði á mig út um gluggann og hreytti ónotum í hann ef hann stóð úti á stigapalli. Ég var alltaf hálfhrædd þegar ég kom upp stigann, er hann þarna eða ekki? Ég vissi ekki almennilega hvort og þá hvernig ég ætti að segja nágrönnum frá þessu. Það var jú fjölskylda með unga stelpu í einni íbúðinni. En þetta ástand varaði ekki lengi því skömmu síðar var hann settur á hæli. Ég held að ég hafi ekki verið sú eina sem lenti í áreiti frá honum þó ég hafi aldrei fengið staðfestingu á því. Það var aldrei minnst á hann í húsinu, bara hvíslað um að hann væri lokaður inni. Einu sinni mætti ég grátandi stúlku í stiganum sem ruddist framhjá mér og út. Kannski hafði hún lent í karlinum og sagt frá?
Ég var lengi að jafna mig alveg á þessum atburði og í langan tíma hafði ég illan bifur á öllum gömlum körlum. Ég var reið út í hann fyrir að skemma fyrir mér að þykja gamlir karlar sætir og skemmtilegir. En ég er alveg búin að fyrirgefa honum núna og finnst alltaf gaman að spjalla við gömlu karlana í þessari blokk sem ég bý í núna.
Karlinn á jarðhæð verður efni í annan pistil.
Lifið í friði lengi lengi.
erfið ákvörðun, línufléttur o.fl.
Eftir töluvert hik og mikla umhugsun ákvað ég áðan að skrá mig í Samfylkinguna og styðja Ingibjörgu Sólrúnu. Ég hef verið afar óviss um margt í stjórnmálum undanfarið en ég veit þó að ég treysti Ingibjörgu Sólrúnu vel til þess að stjórna landinu okkar mun betur en þessir karlar frá vinstri og hægri sem öllu vilja ráða og ota stanslaust sínum tota.
Ég tek það þó fram að þetta er ekki bara spurning um að Ingibjörg er kona. Ingibjörg er einfaldlega heilsteypt manneskja sem hefur alltaf komið heiðarlega fram. Líka þegar hún hefur hlaupið á sig sem er ekkert nema eðlilegt. Eins og við segjum í þjónustubransanum: Þeir sem aldrei brjóta neitt eru þeir sem aldrei gera neitt.
Ingibjörg er sterk manneskja og því er hún hötuð af fólki í öðrum flokkum sem keppist við að níða hana. Það sýnir hræðslu þeirra við hana.
Ég er enn hikandi og líklega er ég að skrifa þetta til að sannfæra mig. Ekkert hikandi gagnvart Ingibjörgu, bara gagnvart helv... andsk... stjórnmálabulli yfir höfuð. Mér finnst óhugnalegt að lesa hluti eins og bæði Hnakkus og Baldító skrifa um að við getum lagt allt okkar traust í lagagerðir og forsjá yfirvalda. Fæ hroll niður bakið við tilhugsunina um að fólk sé ánægt með hlutina eins og þeir eru. Það er ekki allt í lagi. Það er líklega það versta sem við getum hugsað okkur, að allt sé í lagi. Við eigum stöðugt að spyrja okkur: Hvað má laga? Hvað má betur fara? Hverju þarf að breyta? Ef við hættum því er voðinn vís.
Ég held að Ingibjörg gæti af skörungsskap sínum og heillyndi breytt einhverju til hins betra. Verst að hún er ekki í sérframboði, það hefði eytt öllum mínum efasemdum.
Litla hálfnafna stjórnmálaskörungsins vildi fá fléttur í morgun. Hún fékk þær. Svo vildi hún að flétturnar stæðu út í loftið eins og á hetjunni hennar, Línu Langsokk. Mamman sagðist ekki geta gert það. Þá fnæsti sú stutta eins og reiður hestur og mamman varð hrædd og fann lausn á vandamálinu. Hver sagði að maður ynni ekki vel undir álagi? Nú verð ég bara að fara að læra að setja myndirnar inn á síðuna. Er bara hálfhvekkt eftir html-ófarirnar um daginn. Allir linka svo flott í pistlunum sínum og ég get það ekki. Pourquoi?
Er engin frönsk mynd á kvikmyndahátíð? Á maður að vera móðgaður eða er þetta bara enn ein sönnunin á skorti á góðum frönskum myndum þessa dagana?
Best að finna sér eitthvað til að vera í. Er að fara að taka á móti mikilvægu fólki sem ég verð að leiða um borgina alla helgina. Stórmenni. Eru leiðsögumenn bundnir þagnareiði? En í hverju á maður að vera í rigningu og smá hlýindum en samt ísköldu roki? París tekur ekki vel á móti íslenskum stórmennum í apríl.
Lifið í friði.
gaman að gefa
Það er svo gaman að vera með ferðalanga í París. Eins og að gefa þeim góða gjöf. París kemur flestum skemmtilega á óvart. Hún er hreinni en fólk bjóst við og þjónustulund hefur lagast heilmikið og alls staðar er töluð enska. Svo er París bara svo falleg og dásamleg. Og ekki skemma 18 gráðurnar sem voru vel þegnar í gær fyrir fólkið sem kom úr snjó og frosti í Reykjavík. Reyndar mun hiti fara lækkandi og hér rignir á köflum en ég á nú ekki von á snjóbyl.
Allir erfiðleikar með börn og illa farnar íbúðir sýnast yfirstíganlegri þegar maður er farinn að gera eitthvað skemmtilegt og gefandi í bland.
Kári er með stóra blöðru á fingri eftir smá brunaslys í gær. Þeir sem þekkja mig vita að ég er mikilll brunasérfræðingur svo hann er í góðum höndum og ber sig vel þó ekki hafi verið auðvelt að róa hann niður í gær meðan mesti sviðinn gekk yfir.
Jæja, ég er að fara í gönguferð um Mýrina með þakkláta og káta Íslendinga.
Lifið í friði.
púff
Páfanum tókst að hrökkva upp af sömu helgina og Sidaction var í fullum gangi. Sidaction er árleg söfnun og herferð gegn eyðni. Það var eflaust margt gott sem páfinn gerði þó ekki hafi ég fellt eitt tár yfir andláti hans.
Jóhannes Páll II var svo hrokafullur að voga sér að halda því fram að það væri ókristilegt að nota smokkinn. Ég get eingöngu séð hroka í slíku framferði hjá fólki sem veit hversu mikið vald það hefur á hug og hjarta stórra hópa í löndum sem eru fátæk og þar sem eyðnismituðum fjölgar með hverjum deginum.
Annars hef ég ekki kraft né vilja til að skrifa neitt á þessa síðu. Þakka langa og skemmtilega umræðu eftir síðasta pistil. Það má halda áfram að setja komment þar. Eða skamma mig fyrir að tala illa um látið fólk hér í þessum pistli.
Eða bara láta mig í friði þar sem strákurinn minn litli er búinn að gráta stanslaust í 24 klukkutíma og er sofandi núna og ég ætla að hoppa upp í ból, taka síma úr sambandi og reyna að ná að sofa öll korterin sem hann veltur vælandi út af þessa nótt (sem mér tókst ekki síðustu nótt). Líklega tanntaka en ég á samt að taka þvagprufu í rannsókn strax í fyrramálið.
Lifið í friði - en ekki í firði. Varð að setja þetta einu sinni þar sem yfirleitt skrifa ég fyrst Lifið í firði. Og núna þegar ég ætlaði að skrifa það kom Lifið í friði... hm...
bland í poka
Ég er komin með glerharðan upphandleggsvöðva á hægri handlegg. Mér er illt í lófanum og vísifingri. Mér er illt í öxlunum. Mér er hrikalega illt í fótunum. Þetta verður vonandi ágætis upphitun fyrir sumarvinnuna. Byrja að túristast strax núna á miðvikudaginn og verð að vinna alla helgina. Gaman gaman. Verst fyrir greyið Lucien sem verður að bjarga sér sjálfur í málningarvinnu. Hann hefur aldrei málað áður svo ég sagði honum að hann mætti bara mála hluta sem sjást ekki, inni í skápum og undirlagið ætti að vera í lagi að hann geri. Ef ég næ að spasla og slétta í dag.
Frí fyrir hádegi þar sem drengurinn ákvað að djamma í gær. Svo ég ætla að njóta dásamlegs veðurs og fara með börnin á hátíð hér í Copavogure. Dýr og málning og fleira skemmtilegt.
Það var svo heitt í gær að ég sá konur á litlum kjólum í sandölum. Oh, get ekki beðið eftir að sýna mína snjakahvítu leggi! Það er alltaf erfitt fyrstu vikurnar, þessar frðnsku eru svo brúnar að eðlisfari að þær verða aldrei svona endurskinsmerkishvítar eins og ég er frá september til loka júní. Næ upp brúnku á þessum tveimur mánuðum, maí og júní og hún rennur af sama daginn og maður þarf að fara í síðbuxur á ný. Lengi að koma, fljót að fara, alveg öfugt við spikið.
Annars er ég búin að vera að lesa um stam í allan morgun. Komst að því að ég á ekki að hafa áhyggjur af Sólrúnu sem er farin að stama ansi mikið og oft, fyrr en eftir u.þ.b. tíu mánuði. Ég er alveg í rusli yfir þessu. Þessi klára stelpa sem talar bæði frönsku og íslensku, skiptir vel á milli og þýðir það sem ég er að segja fyrir pabba sinn ef henni finnst ég skilja hann útundan er farin að stama í annarri hverri setningu. Ég vona að hún tilheyri 85 prósent hópi stúlkna sem byrjar skyndilega og hættir jafn skyndilega innan 12 mánaða. Eftir það er farið að tala um krónískan stamara. Ég hef oft sagt að ég yrði svo sorgmædd og hissa ef börnin mín væru lesblind. Ég held að stamið sé alveg jafnerfitt fyrir mig að þola. Ég stífna upp í hvert skipti sem hún stamar. En nú er ég farin út í sólina.
Lifið í friði.
verklagni
Ég veit ekki með ykkur, en mér finnst verklagni og dugnaður vera tengt gáfum. Þ.e.a.s. að mér finnst alveg jafn aðdáunarvert að kunna að ganga frá pípum og rörum eða rafmagnsleiðslum þannig að vel sé eins og að kunna að reikna einhverja bansetta vexti eða að hafa lesið (og skilið?) Dostojevskí.
Ég varð strax vör við það hér í Frakklandi að fólk er oft "sérfræðingar" í einhverju ákveðnu og kann EKKI NEITT í öllu öðru. Til dæmis þegar ég vildi vita hvað GRAFA væri á frönsku. Ég spurði og spurði alla vini mína. Ég lýsti tækinu og hvað það gerir og allir sögðust jú hafa séð þessi tryllitæki að verki á götum borgarinnar. En hvað tækið héti. Nei, ég er ekki verkamaður!
Þetta varð að miklu hjartans máli fyrir mig og á endanum fór ég í barnadeildina í Fnac og fann mynda-orðabók og þar fann ég gröfu sem heitir pelleteuse í þessu landi. Annað dæmi er að vinkona mín átti að gera litla könnun á almennri þekkingu fólks og bað alla um að nefna m.a. fimm flugfélög og fimm fótboltafélög. Flestir Frakkanna strönduðu. Ég þekki engin fótboltafélög, ég horfi aldrei á fótbolta. ALLIR Íslendingarnir fylltu alla dálka. Á Íslandi veit maður oftast hver er efstur í fyrstu deild í fótbolta þó maður horfi aldrei á leiki. Einnig þekkjum við stór flugfélög af afspurn, enda oft á forsíðum blaðanna út af samruna eða slysum.
Kannski lesa Frakkarnir ekki forsíður blaðanna. Reyndar les t.d. maðurinn minn bara íþróttablað og svo vikublaðið Canard Enchaîné sem er hart ádeilublað og segir það sem þarf að segja um spillingu og rotnun hvort sem það kemur frá hægri eða vinstri. Hann les aldrei Le Monde eða Le Figaro. Ég held ég þekki engan sem er áskrifandi af einhverju dagblaði. Þarf nú að athuga þetta samt. Ætli nokkur lesi dagblöðin hérna fyrir utan aðra blaðamenn og fréttamenn sjónvarpsstöðva? Að fylgjast með er nú einu sinni þeirra sérgrein.
Það sama er uppi á teningnum með verklega vinnu. Hún er fyrir bjána sem geta ekki lært. Þannig er a.m.k. litið á hlutina heima hjá manninum mínum. Tengdamamma ákvað m.a.s. að læra ekki að vélrita þar sem hún var svo mikill femínisti og ákveðin í að ná langt að hún ætlaði sko ekki að eyða tímanum í ritarahæfileika. Þetta hefur oft komið henni í koll, stundum er ritarinn hennar lasin og allir nemendur í fríi og hún þarf að láta vélrita fyrir sig grein. Hún er háskólaprófessor með ofvirkni í greinaritun svo þetta gerist oft. Og nú þegar hún er loksins búin að samþykkja að reyna að læra á tölvu, er hún vitanlega fötluð út af þessari þrjósku sinni.
Á heimili þeirra tengdaforeldra minna er aldrei tekinn upp pensill eða skrúfjárn, bara hringt í viðgerðamenn. Hver ætli skipti um perur hjá þeim? Þarf að spyrja að því.
Mér finnst þetta vera ákveðin heimska. Að geta ekki bjargað sér. Ég ólst upp við að horfa á pabba minn smíða skápa, stiga og eitt stykki hús og fékk að hjálpa og lærði að mæla og negla og skrúfa og þetta hefur oft komið sér vel.
Ég vona að við ætlum ekki að feta í fótspor stóru þjóðanna og búa til eintóma sérfræðinga sem geta ekki bjargað sér nema í SÍNU FAGI. Mér heyrist samt oft fólk kvarta yfir þessari þróun heima. Pössum okkur.
En nú er tíminn útrunninn, hlaupin niður í Batkor til að fá ráðleggingar út af veggfóðri sem breytist í pappamassa og klístrast enn fastar á vegginn þegar við notum flottu vélina til að losa það frá. Þrátt fyrir ofurgáfur mínar bæði í verklagni og skilningi á Dostojevskí þarf ég stundum að tala við alvöru sérfræðinga!
Lifið í friði.