verklagni
Ég veit ekki með ykkur, en mér finnst verklagni og dugnaður vera tengt gáfum. Þ.e.a.s. að mér finnst alveg jafn aðdáunarvert að kunna að ganga frá pípum og rörum eða rafmagnsleiðslum þannig að vel sé eins og að kunna að reikna einhverja bansetta vexti eða að hafa lesið (og skilið?) Dostojevskí.Ég varð strax vör við það hér í Frakklandi að fólk er oft "sérfræðingar" í einhverju ákveðnu og kann EKKI NEITT í öllu öðru. Til dæmis þegar ég vildi vita hvað GRAFA væri á frönsku. Ég spurði og spurði alla vini mína. Ég lýsti tækinu og hvað það gerir og allir sögðust jú hafa séð þessi tryllitæki að verki á götum borgarinnar. En hvað tækið héti. Nei, ég er ekki verkamaður!
Þetta varð að miklu hjartans máli fyrir mig og á endanum fór ég í barnadeildina í Fnac og fann mynda-orðabók og þar fann ég gröfu sem heitir pelleteuse í þessu landi. Annað dæmi er að vinkona mín átti að gera litla könnun á almennri þekkingu fólks og bað alla um að nefna m.a. fimm flugfélög og fimm fótboltafélög. Flestir Frakkanna strönduðu. Ég þekki engin fótboltafélög, ég horfi aldrei á fótbolta. ALLIR Íslendingarnir fylltu alla dálka. Á Íslandi veit maður oftast hver er efstur í fyrstu deild í fótbolta þó maður horfi aldrei á leiki. Einnig þekkjum við stór flugfélög af afspurn, enda oft á forsíðum blaðanna út af samruna eða slysum.
Kannski lesa Frakkarnir ekki forsíður blaðanna. Reyndar les t.d. maðurinn minn bara íþróttablað og svo vikublaðið Canard Enchaîné sem er hart ádeilublað og segir það sem þarf að segja um spillingu og rotnun hvort sem það kemur frá hægri eða vinstri. Hann les aldrei Le Monde eða Le Figaro. Ég held ég þekki engan sem er áskrifandi af einhverju dagblaði. Þarf nú að athuga þetta samt. Ætli nokkur lesi dagblöðin hérna fyrir utan aðra blaðamenn og fréttamenn sjónvarpsstöðva? Að fylgjast með er nú einu sinni þeirra sérgrein.
Það sama er uppi á teningnum með verklega vinnu. Hún er fyrir bjána sem geta ekki lært. Þannig er a.m.k. litið á hlutina heima hjá manninum mínum. Tengdamamma ákvað m.a.s. að læra ekki að vélrita þar sem hún var svo mikill femínisti og ákveðin í að ná langt að hún ætlaði sko ekki að eyða tímanum í ritarahæfileika. Þetta hefur oft komið henni í koll, stundum er ritarinn hennar lasin og allir nemendur í fríi og hún þarf að láta vélrita fyrir sig grein. Hún er háskólaprófessor með ofvirkni í greinaritun svo þetta gerist oft. Og nú þegar hún er loksins búin að samþykkja að reyna að læra á tölvu, er hún vitanlega fötluð út af þessari þrjósku sinni.
Á heimili þeirra tengdaforeldra minna er aldrei tekinn upp pensill eða skrúfjárn, bara hringt í viðgerðamenn. Hver ætli skipti um perur hjá þeim? Þarf að spyrja að því.
Mér finnst þetta vera ákveðin heimska. Að geta ekki bjargað sér. Ég ólst upp við að horfa á pabba minn smíða skápa, stiga og eitt stykki hús og fékk að hjálpa og lærði að mæla og negla og skrúfa og þetta hefur oft komið sér vel.
Ég vona að við ætlum ekki að feta í fótspor stóru þjóðanna og búa til eintóma sérfræðinga sem geta ekki bjargað sér nema í SÍNU FAGI. Mér heyrist samt oft fólk kvarta yfir þessari þróun heima. Pössum okkur.
En nú er tíminn útrunninn, hlaupin niður í Batkor til að fá ráðleggingar út af veggfóðri sem breytist í pappamassa og klístrast enn fastar á vegginn þegar við notum flottu vélina til að losa það frá. Þrátt fyrir ofurgáfur mínar bæði í verklagni og skilningi á Dostojevskí þarf ég stundum að tala við alvöru sérfræðinga!
Lifið í friði.
<< Home