gamalt fólk
Ég er þannig að gamalt fólk vekur hjá mér álíka tilfinningar og börn. Mér finnst gamalt fólk krúttílegt og sætt. Yfirleitt. Auðvitað er ákveðin tegund af gömlum leiðindakerlingum hér í París sem ýta manni og troðast og finnst þær hafa allan rétt fram yfir unga fólkið sem þær leggja rækt og alúð við að hata.En flest gamalt fólk sem maður umgengst hérna eða sér í kringum sig er bara að dúllast áfram í gegnum restina af lífinu í umhverfi sem er engan veginn lagað að þeirra þörfum. Hér er mikið um tröppur og minna um lyftur eða rúllustiga. Hér eru gangstéttirnar oftar en ekki ólögulegar og oft mjóar. Hér er umferðin miskunnarlaus og maður er oft þakklátur fyrir að geta hlaupið og stokkið þegar bílstjórar gefa í frekar en að hægja á sér þegar maður leyfir sér að fara yfir á gangbrautum þar sem ekki eru umferðarljós.
Gamlar kerlingar sem fara á markaðinn á hverjum laugardegi með kerruna sína og bera svo grænmetið og steikina í nokkrum ferðum upp á fjórðu eða fimmtu hæð eru hetjur. Gamlingjar sem fara í metró til að heimsækja börn og barnabörn í öðrum bæjarhlutum er hugrakkt því metró er alls ekki aðgengilegt fólki með lélegan limaburð, ekki frekar en konum með börn í kerrum.
Fyrir nokkrum árum flutti ég í blokk hér í Copavogure. Í blokkinni voru nær eingöngu gamlingjar á mismunandi stigi hrörnunar og misjafnlega ánægt með lífið. Á annarri hæð (þriðja á íslensku hæðatali) var gamall karl sem leiddist ógurlega enda fór hann ekki út. Í staðinn hékk hann út um gluggann hjá sér og blaðraði við alla sem framhjá fóru. Fyrst fannst manni þetta bara gaman og spjallaði við hann kurteislega. Sagði honum hvaðan maður var að koma og tók undir veðurathugasemdirnar. Svo varð maður dálítið þreyttur á þessu og fann fyrir létti þegar hann var ekki í glugganum. Þessi karl vökvaði alltaf hádegismatinn hressilega með rauðvíni og var því stundum dálítið óskiljanlegur í máli. Stundum kom hann fram á stigapall þegar maður var á leið upp stigann og hélt áfram að spjalla þar angandi af súru víni.
Einn sumardag kom ég upp stigann og hann beið mín valtur á fótum. Hann var í verra ástandi en ég hafði nokkurn tímann séð hann og greip utan um mig þegar ég kom á pallinn. Ég hélt að hann væri að detta og studdi hann en hann hafði þá annað í huga og þrýsti andliti sínu að mínu og reyndi að kyssa mig. Ég barðist þarna um og í smá stund réði ég engan veginn við hann, aðallega þar sem ég lagði ekki í að berjast of harkalega þar sem mér datt í hug að ekki vildi ég sjá hann rúlla niður stigana. Mér tókst þó að losa mig og hljóp upp til mín í hvílíku uppnámi að það hálfa hefði verið nóg. Ég þvoði mér vandlega og tókst að róa mig niður.
En eftir þetta þoldi ég karlinn alls ekki. Ég lét sem ég sæi hann ekki þegar hann kallaði á mig út um gluggann og hreytti ónotum í hann ef hann stóð úti á stigapalli. Ég var alltaf hálfhrædd þegar ég kom upp stigann, er hann þarna eða ekki? Ég vissi ekki almennilega hvort og þá hvernig ég ætti að segja nágrönnum frá þessu. Það var jú fjölskylda með unga stelpu í einni íbúðinni. En þetta ástand varaði ekki lengi því skömmu síðar var hann settur á hæli. Ég held að ég hafi ekki verið sú eina sem lenti í áreiti frá honum þó ég hafi aldrei fengið staðfestingu á því. Það var aldrei minnst á hann í húsinu, bara hvíslað um að hann væri lokaður inni. Einu sinni mætti ég grátandi stúlku í stiganum sem ruddist framhjá mér og út. Kannski hafði hún lent í karlinum og sagt frá?
Ég var lengi að jafna mig alveg á þessum atburði og í langan tíma hafði ég illan bifur á öllum gömlum körlum. Ég var reið út í hann fyrir að skemma fyrir mér að þykja gamlir karlar sætir og skemmtilegir. En ég er alveg búin að fyrirgefa honum núna og finnst alltaf gaman að spjalla við gömlu karlana í þessari blokk sem ég bý í núna.
Karlinn á jarðhæð verður efni í annan pistil.
Lifið í friði lengi lengi.
<< Home